Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 549/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Kaupsamningur — Kaupár — Sameign — Þinglýsing — Sambýlisfólk — Óvígð sambúð — Kæruheimild — Sönnun

Málavextir eru þeir, að kærandi sótti um húsnæðisbætur með umsókn, dags. 3. júlí 1989, vegna kaupa á íbúð að X, Reykjavík, skv. kaupsamningi, dags. 3. desember 1987. Þá liggur fyrir bréf kæranda og sambýlismanns hennar, A, þess efnis að íbúðin að X, Reykjavík, kæmi fram á skattframtölum þeirra beggja frá og með undirskrift kaupsamnings þ. 3. desember 1987. Þá var send þinglýst yfirlýsing kæranda, dags. 25. maí 1989, þess efnis, að kærandi yrði færð í veðmálabækur sem þinglýstur eigandi íbúðarinnar, er yrði í óskiptri sameign þeirra A, en vegna mistaka hefði láðst að færa nafn hennar í kaupsamning og afsal og væri yfirlýsingunni ætlað að bæta þar úr. Í bréfi, dags. 29. júní 1989, til skattstjóra gerðu kærendur nánari grein fyrir þessum atvikum.

Skattstjóri synjaði umsókn kæranda um húsnæðisbætur þann 19. september 1989 á þeim forsendum, að samkvæmt skattframtölum virtist kærandi ekki hafa hafið byggingu eða keypt íbúðarhúsnæði á árinu 1988 eða fyrr. Hins vegar virtist kærandi vera aðili að íbúðarkaupum á árinu 1989 skv. yfirlýsingu, er fylgt hefði umsókn um bæturnar.

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. október 1989, og þess krafist að henni verði ákvarðaðar húsnæðisbætur gjaldárið 1989. Kærandi tekur fram, að hún hafi verið kaupandi að íbúðinni að X, Reykjavík, þann 3. desember 1987 ásamt unnusta sínum, A, þótt hann hafi vegna mistaka skrifað einn undir kaupsamninginn. Vísar kærandi til gagna hér að lútandi, sbr. að framan. Þá er í kærunni staðfesting tveggja íbúa að X, Reykjavík, þess efnis að kærandi og nefndur A hafi keypt saman íbúð þar og búið þar saman frá því í desember 1987.

Með bréfi, dags. 21. maí 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Með framlögðum skýringum og gögnum, þar á meðal yfirlýsingu, dags. 25. maí 1989, sem þinglýst hefur verið athugasemdalaust verður að telja að kærandi hafi sýnt fram á, að hún hafi verið kaupandi að nefndri íbúð ásamt A þann 3. desember 1987 þannig að henni beri réttur til húsnæðisbóta samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987 eins og því ákvæði var breytt með 14. gr. laga nr. 92/1987 vegna kaupa á íbúðarhúsnæði í fyrsta sinn á árunum 1984-1987, enda er óumdeilt að kærandi uppfylli lagaskilyrði fyrir bótum þessum og einungis ágreiningur um, hvenær öflun íbúðarhúsnæðis telst hafa orðið. Eftir þessari niðurstöðu ber kæranda réttur til húsnæðisbóta þegar gjaldárið 1988. Kærumál þetta varðar hins vegar gjaldárið 1989. Eftir öllum atvikum og eins og mál þetta liggur fyrir þykir mega í úrskurði þessum ákvarða kæranda húsnæðisbætur bæði þessi gjaldár.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja