Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 719/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.   Reglugerð nr. 79/1988 — II. kafli  

Sjómannaafsláttur — Sjómaður — Sjómannsstörf — Lögskráning — Lögskráningardagar — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Yfirvélstjóri — Ráðningarsamningur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Kærufrestur — Vítaleysisástæður — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru

Með kæru til skattstjóra, dags. 30. ágúst 1989, fór kærandi fram á, að sjómannaafsláttur yrði hækkaður þannig að hann miðaðist við allt árið 1988. Í framtali og við frumálagningu hafði afsláttur þessi verið miðaður við lögskráningardaga. Gerði kærandi grein fyrir því, að sem yfirvélstjóri á togaranum X hefði hann umsjón með viðgerðum og viðhaldi, þegar skipið væri í höfn. Þegar skipið væri í hafi en hann í landi, sæi hann um áætlanagerð varðandi viðhald og varahlutakaup fyrir skipið og væri í sambandi við vélstjóra um borð, nánast á bakvakt.

Með kæruúrskurði, dags. 11. október 1989, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Kæran, sem dagsett væri 30. ágúst 1989, hefði borist 4. september 1989. Kærufrestur hefði hins vegar runnið út 29. ágúst 1989, sbr. 99. gr. laga nr. 75/1981 og auglýsingu skattstjóra um lok álagningar skv. 98. gr. s.l.

Kærandi hefur skotið frávísunarúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 10. nóvember 1989. Um frávísun málsins segir svo í kærunni: „Ég átti samtal við starfsmann skattstofunnar í byrjun ágúst varðandi sjómannafrádráttinn og benti starfsmaðurinn mér á að senda inn kæru strax og semja síðan rökstuðning og senda hann inn seinna, þó svo að frestur væri útrunninn. Með kærunni væri málið komið í gang þó rökstuðningur kæmi seinna. Eftir þessari ráðleggingu fór ég.“

Með bréfi, dags. 27. apríl 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir öllum atvikum og með hliðsjón af því, sem fram kemur í kæru, þykir rétt að taka málið til efnisúrlausnar. Fallist er á, að kærandi eigi rétt til sjómannaafsláttar allt árið 1988.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja