Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 724/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður — 100. gr. 5. mgr.   Reglugerð nr. 79/1988 — 12. gr. — 13. gr. 1. tl.  

Sjómannaafsláttur — Sjómaður — Sjómannsstörf — Lögskráning — Lögskráningardagar — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Ráðningarsamningur — Orlof — Orlofsdagar — Frídagar án launa — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Sönnun

Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 tilgreindi skattstjóri sjómannaafslátt 136 daga tímabilið 1. janúar 1988 til 30. júní 1988 og 97 daga tímabilið 1. júlí 1988 til 31. desember 1988 eða alls 233 daga, sbr. álagningarblað, er var í samræmi við upplýsingar kæranda í reitum 9.2 og 9.3 í skattframtali. Hins vegar virðist hafa fallið niður að ákveða fjárhæð frádráttarins við álagninguna.

Af hálfu kæranda var álagningin kærð til skattstjóra með kæru, dags. 15. ágúst 1989, og fylgdi kærunni greinargerð kæranda um sjómannaafslátt RSK 3.13. Þá barst skattstjóra vottorð útgerðarinnar A, dags. 1. nóvember 1989, sbr. og bréf dags. 13. nóvember 1989. Í greinargerð sinni taldi kærandi sjómannadaga, þ.e. lögskráningardaga og aðra daga við sjómannsstörf, 152 fyrra tímabilið en 180 síðara tímabilið, vegna sjómennsku á X og Y. Þá kom fram í greinargerð þessari, að hann teldi sig bundinn ráðningarsamningi um sjómennsku við útgerðina allt árið 1988. Var það staðfest í nefndu bréfi útgerðarinnar. Þar kom og fram, að dagafjöldi væri vantalinn á launamiða svo sem nánari grein var gerð fyrir.

Skattstjóri fjallaði um kæruefnið í kæruúrskurði, dags. 17. nóvember 1989. Segir þar svo:

„Í kæru er farið fram á sjómannaafslátt í samtals 196 daga vegna sjómannsstarfa hjá A hf. og 136 daga hjá B hf.

Á launamiða frá A hf. eru tilgreindir 140 lögskráningardagar og 25 aðrir dagar. Á launamiða frá B hf. eru tilgreindir 53 lögskráningardagar og 15 aðrir dagar.

Í bréfi frá A hf. dags. 01.11.’89 kemur fram að vegna mistaka hafi fallið niður á launamiðum alls 45 aðrir dagar. Samkvæmt bréfi dags. 13.11.’89 er þar um að ræða 15 daga vegna vinnu hjá A hf. og 30 daga hjá B hf. Í nefndu bréfi er einnig upplýst að vegna launatímabilsins 16.10. - 31.12.’88 (hjá B hf.) eigi aðrir dagar að vera 25 og að á launamiðum komi ekki fram orlofsdagar, sem séu alls 31. Samkvæmt sundurliðun á launum kæranda vegna staðgreiðslu á árinu 1988 hefur hann fengið laun hjá A hf. í eftirtöldum mánuðum: janúar, mars, apríl, júní, júlí og ágúst. Þá hefur kærandi verið á launum hjá B hf. í nóvember og desembermánuði skv. sama yfirliti. Auk framanritaðs hefur kærandi starfað hjá D hf. í samtals 11 vikur á árinu 1988 samkvæmt launamiða.

Samkvæmt 1. tl. 13. gr. reglugerðar nr. 79/1988 skal við ákvörðun sjómannaafsláttar miða við þá daga sem viðkomandi er lögskráður að viðbættum þeim dögum sem hann þiggur laun eða aflahlut sem sjómaður. Frídagar án launa teljast ekki með í þessu sambandi.

Í greinargerð um sjómannaafslátt telur kærandi að hann hafi verið ráðinn sem sjómaður hjá A hf. tímabilið 01.01. - 15.08.1988, sem eru samtals 228 dagar. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti hefur kærandi ekki þegið laun hjá A hf. í febrúar og maí. Auk laun frá nefndu fyrirtæki hefur kærandi í júní mánuði verið á launum hjá D hf., skv. staðgreiðsluyfirliti.

Þá staðhæfir kærandi að hann hafi verið ráðinn hjá B hf., X, tímabilið 16.08. – 31.12.1988. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti hefur hann fengið laun fyrir mánuðina nóvember og desember hjá því fyrirtæki. Af bréfi A hf. dags. 01.11.’89 verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi stundað sjómennsku á X tímabilið 16.10 - 31.12.1988, eða samtals 77 daga.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum flytur kærandi til landsins frá Noregi 1987 og stundar sjómennsku í samtals 22 vikur á því ári eða frá ágústbyrjun. Kærandi hefur því á orlofsárinu 01.05.’87 - 30.04.’88 stundað sjómannsstörf í samtals 8 mánuði, sbr. framanritað. Í bréfi A hf. er staðhæft að orlofsdagar kæranda séu alls 31 fyrir framtalsárið.

Þegar litið er til málatilbúnaðar kæranda, svo sem að framan greinir og alls þess ósamræmis sem gætir í fyrirliggjandi upplýsingum, þykir eigi unnt að byggja rétta ákvörðun sjómannaafsláttar á skattgögnum kæranda. Jafnframt þykir verða að líta til þess að kæranda ætti að vera í lófa lagið, að sýna fram á með framlagningu gagna, s.s. uppgjörum útgerðanna eða öðrum óyggjandi hætti, hversu marga daga hann hefur stundað launuð sjómannsstörf í skilningi reglugerðar nr. 79/1988, á árinu 1988.

Með vísan til framanritaðs eru aðrir dagar en lögskráðir dagar kæranda við sjómannsstörf áætlaðir 25 tímabilið 01.01. - 30.06 og 25 tímabilið 01.07. - 31.12. Sjómannaafsláttur verður kr. 102.996.“

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. desember 1989. Krefst hann þess, að honum verði ákvarðaður sjómannaafsláttur miðað við 366 daga árið 1988 með skírskotun til þess að hann hafi verið bundinn ráðningarsamningi við útgerðina allt árið og eingöngu þegið laun sem sjómaður. Kærandi tekur jafnframt fram, að í orlofi sínu hafi hann starfað í 15 daga hjá fiskeldisfyrirtæki og þegið laun.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru svofelldar kröfur gerðar í málinu f.h. gjaldkrefjenda með bréfi, dags. 6. júní 1990:

„Fallist er á kröfu kæranda um að hann eigi rétt til sjómannaafsláttar allt árið 1988 að frádregnum 30 dögum sem kærandi vann í landi.

Kærandi hefur lagt fram staðfestingu frá launagreiðanda um að hann hafi verið ráðinn sem sjómaður allt árið 1988 að undanteknum 30 dögum í landi í orlofi og önnur gögn í máli þessu styðja kröfu kæranda s.s. greinargerð kæranda um sjómannaafslátt svo og að hann hafði megnið af launum sínum af sjómannsstarfi.

Kærandi hefur sjálfur ekki gert grein fyrir þeim tíma sem hann vann hjá D h.f. en með tilliti til fjárhæðar launa og upplýsinga um staðgreiðslu kæranda þykja 30 dagar hæfilega áætlaður dagafjöldi.“

Nægilega þykir leitt í ljós í máli þessu, m.a. með bréfum útgerðar þeirrar, er kærandi starfaði hjá, að hann hafi stundað sjómannsstörf allt árið 1988 í skilningi B-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og reglugerðar nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja