Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 725/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 64/1981 — 9. gr.  

Atvinnuleysistryggingagjald — Atvinnuleysistryggingasjóður — Atvinnuleysistryggingagjaldsskylda — Launamaður — Atvinnurekandi — Stéttarfélag — Atvinnurekendafélag — Tannsmiður — Tannsmíðafélag Íslands — Samband íslenskra tannsmíðaverkstæðiseigenda

Í kæru sinni til skattstjóra mótmælti umboðsmaður kæranda álagningu atvinnuleysistryggingagjalds og krafðist niðurfellingar þess „þar sem gjaldið er lagt á vinnuvikur eiganda félagsins.“ Með hinum kærða úrskurði hafnaði skattstjóri þessari kröfu á svofelldum forsendum:

„Samkv. ákvæðum laga nr. 64/1981, sbr. og lög nr. 10/1985 og tilkynningu Tryggingastofnunar ríkisins dags. 28.04.87 um aðild Tannsmíðafélags Íslands að Atvinnuleysistryggingasjóði, ber að leggja á iðgjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna félagsmanna Tannsmíðafélags Íslands.“

Með bréfi, dags. 4. janúar 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krefst hann þess að hið kærða gjald verð fellt niður. Styður hann þá kröfu með svofelldum rökum:

„Eigendur X sf., þær A og B, eru einu starfsmenn stofunnar. Þær eru ekki félagsmenn í Tannsmíðafélagi Íslands, heldur eru þær aðilar að félagi Tannsmíðaverkstæðiseigenda og njóta því alls ekki bóta frá Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Með bréfi, dags. 11. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Í sundurliðun rekstrarreiknings með framtali 1988 gjaldfærir kærandi greiðslu, 21.600 kr. í sjóð stéttarfélags. Með hliðsjón af því svo og forsendna hins kærða úrskurðar er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.“

Frekari gögn hafa verið lögð fram í máli þessu að beiðni ríkisskattanefndar þar á meðal bréf umboðsmanns kæranda, dags. 3. júlí 1990, þar sem fram kemur að með gjaldaliðnum „sjóðir stéttarfélaga 28.800 kr.“ (sic) sé átt við greiðslur í lífeyrissjóð og því til staðfestingar fylgja ljósrit af fylgiskjölum úr bókhaldi kæranda. Þá fylgja bréfunum ljósrit greiðslukvittana vegna félagsgjalda til Sambands íslenskra tannsmíðaverkstæðiseigenda, samtals að fjárhæð 9.000 kr.

Með hliðsjón af skýringum kæranda og framlögðum gögnum í málinu er fallist á kröfu hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja