Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 787/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður — 100. gr. 5. mgr.   Reglugerð nr. 79/1988 — 12. gr. — 13. gr. 1. og 3. tl. — 14. gr.  

Sjómannaafsláttur — Sjómaður — Sjómannsstörf — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Lögskráning — Lögskráningardagar — Úthaldsdagar — Róðrardagar — Orlof — Orlofsdagar — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Kærð er fjárhæð sjómannaafsláttar gjaldárið 1989 og þess krafist, að kærandi njóti sjómannaafsláttar alla daga tekjuársins 1988. Í skattframtali sínu og greinargerð um sjómannaafslátt RSK 3.13 hafði kærandi talið, að honum bæri sjómannaafsláttur allt árið 1988, þ.e. 90 daga sem lögskráður launþegi og 274 daga við eigin útgerð, við fiskiróðra, beitningar, veiðarfæraviðhald o.fl. Í kæruúrskurði, dags. 3. nóvember 1989, ákvað skattstjóri, að sjómannaafsláttur kæranda skyldi miðast við 131 dag á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 1988 og 90 daga tímabilið 1. júlí til 31. desember 1988, þ.e.a.s. róðrardaga á eigin fari og dagafjölda á sjó hjá öðrum auk 10,17% orlofstíma.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. nóvember 1989. Krefst hann þess að kæranda verði ákvarðaður sjómannaafsláttur allt árið 1988. Kæran er svohljóðandi:

„Framteljandi kærir breytingu skattstjóra á sjómannaafslætti. Framteljandi sem býr í X stundar eingöngu sjómannsstörf allt árið. Kærandi er lögskráður 90 daga, en hina 274 daga ársins stundar hann sjómannsstörf á eigin bátum. Gæftaleysi, veiðarfæraviðhald, takmörkun sóknardaga eða aflakvóti, beitningar og fleiri aðstæður valda því að dagar á sjó eru færri heldur en þeir dagar sem framteljandi telur sig stunda sjómannsstörf. Kærandi lítur svo á að úthaldsdagur teljist hver sá dagur er unnið sé að úthaldi útgerðar hvort heldur unnið er á landi eða sjó, reiknað með eðlilegum orlofstíma. Telja verður það verulega mismunun ef aðeins fastráðnir lögskráðir sjómenn fengju sjómannaafslátt 364 daga á ári, miðað við svipaðan dagafjölda á sjó. Framteljandi telur sig fastráðinn sjómann á eigin báti allt árið, enda ekki að annarri vinnu að hverfa.“

Með bréfi, dags. 10. ágúst 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Eins og mál kæranda liggur fyrir þykir verða að fallast á kröfu hans um sjómannaafslátt allt árið 1988.“

Eftir öllum atvikum og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja