Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 830/1990

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 10. gr. — 16. gr. 1., 2. og 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 5. mgr.  

Íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður, skattfrjáls — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis — Útreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður, útreikningur — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði færður til lækkunar stofnverðs annars íbúðarhúsnæðis — Stofnverð — Eignartími — Eignartími íbúðarhúsnæðis — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Kærufrestur — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kaupsamningur

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi seldi íbúðarhúsnæði að A með kaupsamningi, dags. 22. október 1986. Söluverð var 2.425.000 kr. Helming hins selda hafði kærandi eignast árið 1981 og var kaupverð þess 165.120 kr. Framreiknað stofnverð var 912.915 kr. Söluhagnaður taldist mismunur þess verðs og helmings söluverðs 1.212.500 kr. eða 299.585 kr. Söluhagnaður þessi taldist ekki til skattskyldra tekna vegna eignarhaldstíma, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Helming húsnæðisins eignaðist kærandi þann 13. maí 1986 og var kaupverðið 900.000 kr. Söluhagnaður vegna þess hluta nam því 312.500 kr. Hvorki tekjufærði kærandi þann söluhagnað í framtali sínu árið 1987 né gerði grein fyrir meðferð hans í skattalegu tilliti.

Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 11. maí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda um tekjufærslu síðastgreinds söluhagnaðar með bréfi, dags. 9. september 1988, og endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1987 í því sambandi. Færði skattstjóri kæranda söluhagnaðinn til tekna í reit 76 í skattframtalinu. Með kæru, ódagsettri en móttekinni 9. febrúar 1989, fór kærandi fram á, að söluhagnaðurinn yrði færður til lækkunar á stofnverði keypts íbúðarhúsnæðis að B. Með kæruúrskurði, dags. 22. febrúar 1989, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint framkominni með því að kærufrestur hefði runnið út 8. nóvember 1988.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. mars 1989. Í kærunni er gerð grein fyrir uppgjöri söluhagnaðar vegna sölu á íbúðarhúsnæði að A og þess krafist, að söluhagnaður vegna þess hluta sem keyptur var á árinu 1986, 312.500 kr. verði færður til lækkunar á stofnverði keypts íbúðarhúsnæðis að B, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Íbúðarhúsnæði þetta eignaðist kærandi með kaupsamningi, dags. 12. nóvember 1986, og var kaupverð þess 1.550.000 kr.

III.

Með bréfi, dags. 24. september 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að virtum atvikum öllum og með hliðsjón af framkomnum skýringum er fallist á kröfu kæranda.“

IV.

Þrátt fyrir síðbúna kæru til skattstjóra og felldan frávísunarúrskurð hans í því sambandi fellst ríkisskattstjóri á að kæruefnið hljóti efnismeðferð fyrir ríkisskattanefnd. Með vísan til þess er kæran tekin til efnisúrlausnar. Enginn ágreiningur er um fjárhæð söluhagnaðar í máli þessu. Að virtum málsatvikum og með skírskotun til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja