Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 889/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 54. gr. — 106. gr. 2. mgr.  

Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Fjárfestingarsjóðsreikningur — Innborgun á fjárfestingarsjóðsreikning — Bundinn reikningur — Innborgunarfrestur — Binditími — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns

Hin kærða ákvörðun skattstjóra er á því byggð, að kærandi hafi ekki fullnægt ákvæðum 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, m.t.t. innleggs á bundinn bankareikning fyrir 1. júní 1988, það er a.m.k. 50% fjárfestingarsjóðstillags. Kærandi færði til frádráttar fjárfestingarsjóðstillag 278.300 kr., en skráð innlegg 30. maí var 130.150 kr., sem takmarkaði heimilaðan frádrátt við 260.300 kr. Var tekjuskattsstofn kæranda hækkaður um 18.000 kr. að viðbættu álagi, 25%, 4.500 kr. eða um alls 22.500 kr. Í svari til skattstjóra lagði kærandi fram eftirtalin gögn vegna fjárfestingarsjóðsreiknings nr. ... í A-banka, ljósrit af tilkynningu um millifærslu þ. 30. maí 1988 130.500 kr., ljósrit af tilkynningu um millifærslu þ. 3. júní 1988 9.000 kr. sem væri leiðrétting á fyrri millifærslu, ljósrit af stofnskírteini fyrir fjárfestingarsjóðsreikning nr. ... og bréf bankans, dags. 30. desember 1988, sem er staðfesting á mistökum bankans við framkvæmd millifærslu þ. 30. maí 1988. Í kæru til skattstjóra lét kærandi fylgja ljósrit millifærsluseðla, dags. 30. maí og 30. júní 1988, vegna úttektar af ávísana- og hlaupareikningi nr. ... og innlagnar á fjárfestingarsjóðsreikning nr. ... ásamt tveimur ljósritum af reikningsyfirlitum nr. 5 og 6 vegna ávísana- og hlaupareiknings. Þá vísaði kærandi til þess, að vegna mistaka bankans hefði umbeðin millifærsla 30. maí verið vanskráð, en næg inneign hafi verið inná nefndum ávísana- og hlaupareikningi. Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda með vísan til þess, að skýrt væri kveðið á um tímatakmörk í tilvitnuðu lagaákvæði og yrði ekki frá þeim vikið, enda þótt um mistök banka kynni að vera að ræða.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 19. febrúar 1990, er endurákvörðun skattstjóra kærð til niðurfellingar. Í kæru er til þess vísað, að um sönnuð mistök í banka sé að ræða, sem leiðrétt voru einungis þremur dögum eftir að þau uppgötvuðust.

Með bréfi, dags. 31. júlí 1990, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans að því er varðar niðurfellingu frádráttar fjárfestingarsjóðstillags, en eftir öllum atvikum þykir mega falla frá beitingu álags.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja