Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1034/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 3. tl. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr.  

Tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir — Útistandandi viðskiptaskuldir — Sönnun — Sönnun fyrir því að útistandandi viðskiptaskuld sé töpuð — Tímaviðmiðun rekstrarútgjalda — Rannsóknarregla — Leiðrétting — Leiðréttingarheimild ríkisskattanefndar — Leiðrétting ríkisskattanefndar — Víxilábyrgð — Síðbúin framtalsskil — Skattframtal tekið sem kæra — Skattframtal í stað áætlunar

Málavextir eru þeir, að skattframtal kæranda 1989 barst skattstjóra eftir lok framtalsfrests og var tekið sem kæra. Áður en skattstjóri tók skattframtalið til kæruúrskurðar, reit hann kæranda bréf, dags. 9. nóvember 1989, þar sem óskað var eftir gögnum vegna tiltekinna atriða í framtalsgerð sem hljóðar svo vegna kæruefnis: „Gögn er sýni fram á að afskrifaðar skuldir kr. 1.500.142, séu tapaðar óskast lögð fram.“ Umboðsmaður kæranda svaraði með bréfi, dags. 18. desember 1989, og lagði fram sem svar við þessum lið afrit 64 bréfa um endursendar innheimtukröfur á hendur jafnmörgum skuldurum, þar sem innheimtuaðili, X hf. lýsti yfir, að innheimtutilraunum hefði verið hætt eða frekari innheimtuaðgerðir væru þýðingarlausar vegna þar tilgreindra ástæðna. Kröfueigandi samkvæmt þessum afritum er skráður Y hf. Öll afritin voru dagsett 9. júní 1989. Umboðsmaður lagði einnig fram, sem svar við þessum lið, þrjú ljósrit vegna uppgjörs á víxilkröfu, sem greidd var og gerð upp af kæranda með samkomulagi við innheimtuaðila, X hf., með greiðslu 70.000 kr. þ. 24.10.1988 vegna ábyrgðar hans sem útgefanda á víxli, dags. 6. febrúar 1985, með gjalddaga þ. 6. apríl 1985. Með kæruúrskurði skattstjóra, dags. 15. janúar 1990, var fallist á skattframtal að gerðum ýmsum breytingum þar á meðal þeirri, sem lýtur að kæruefni, og er svohljóðandi: „Gjaldfærðar afskrifaðar skuldir kr. 1.500.142, eru felldar niður þar sem eigi lá fyrir að þær væru tapaðar fyrr en á árinu 1989, sbr. 3. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum.“

Með kæru til ríkisskattanefndar, dags. 3. febrúar 1990, hefur umboðsmaður kæranda kært þessa breytingu til niðurfellingar. Um þetta segir í kæru:

„Meðfylgjandi bréf frá X h.f. tekur af allan vafa um réttmæti þess að kröfurnar voru afskrifaðar á árinu 1988. Við ársuppgjör í júní 1989 fór undirritaður fram á við X h.f. að sundurliða hverja kröfu fyrir sig fyrir bókhald og fékk skattstofan afrit af þeim, þar sem kemur fram hvers vegna þær voru afskrifaðar. Hins vegar dagsetti X h.f. bréfin í júní 1989, þegar það sendi sundurliðunina til undirritaðs en ekki á árinu 1988, sem eru mistök af þeirra hálfu sbr. meðfylgjandi bréf frá þeim.“

Yfirlýsing X hf., sem vísað er til í kæru, er svohljóðandi:

„Það er ekki rétt hjá skattstjóra, að eigi hafi legið fyrir, að hinar gjaldfærðu afskrifuðu skuldir hafi verið tapaðar fyrr en á árinu 1989.

Í nóvember 1988 tók ég saman yfirlit yfir þessar skuldir og taldi þýðingarlaust að reyna að innheimta þær. Það var hinsvegar í júní 1989 við ársuppgjör K, að A bað mig að sundurliða hverja kröfu sérstaklega. Það er skýringin á dags. bréfanna en átti að sjálfsögðu að vera dags. á árinu 1988.

Skv. þessu skal áréttað, að ég taldi ofangreindar kröfur óinnheimtanlegar þegar í árslok 1988 á grundvelli þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir, enda ógreiddar enn í dag.“

Með bréfi, dags. 14. nóvember 1990, gerir ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda svofellda kröfugerð í máli þessu:

„Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kröfur þær er kærandi vill gjaldfæra sem tapaðar á árinu 1988 nema samtals kr. 1.433.954. Með hliðsjón af framkomnum skýringum og sbr. 3. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 er fallist á kröfu kæranda með þeirri fjárhæð.“

Forsenda synjunar skattstjóra á gjaldfærslu umþrætts liðar alls 1.500.142 kr., byggir á því, að dagsetning framlagðra gagna sé 9. júní 1989, en þau virðast að öðru leyti ekki hafa sætt neinni skoðun af hans hálfu. Á grundvelli framkominnar skýringar og yfirlýsingar með kæru þykir bera að fallast á kröfu að gerðri eftirfarandi leiðréttingu á fjárhæð gjaldfærslu. Fjárhæð krafna samkvæmt afritum 64 yfirlýsinga um árangurslausa innheimtu nemur alls 1.433.954 kr. og að meðtalinni fjárhæð 70.000 kr. vegna víxilábyrgðar sem útgefanda er samtala óinnheimtra krafna alls 1.503.954 kr., sem leiðir til hækkunar á gjaldfærslu um 3.812 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja