Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1071/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. tl. — 7. gr. B-liður — 31. gr. 1. tl. — 53. gr. 1. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Hlutafélag — Lögaðili — Arður — Arður af hlutabréfum — Hlutabréf — Verðbreytingarfærsla — Rekstrarkostnaður — Launakostnaður — Atvinnurekstur — Atvinnurekstur, eiginlegur — Rekstrartilgangur hlutafélags — Félagssamþykktir — Eignarhaldsfélag — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, tortryggilegt — Vanreifun — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Fyrri skattframkvæmd

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda, sem er hlutafélag, var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988 og sætti kærandi því áætlun skattstjóra við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kæranda árið 1988 barst skattstjóra hinn 24. ágúst 1988 samkvæmt áritun hans á það um móttöku þess. Með kæruúrskurði, dags. 2. maí 1989, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 án álags með eftirfarandi breytingum:

„Samkvæmt rekstrarreikningi rekstrarársins 1987 eru tekjur félagsins kr. 403.200 og stafa þær frá einum aðila þ.e. X, en kærandi er hluthafi í tilgreindum aðila. Hlutabréfaeign er skv. efnahagsreikningi kr. 8.064.000 og móttók K h.f. kr. 403.200 í arð af hlutafé sínu, sbr. hlutafjármiða. Til frádráttar arðstekjum færir kærandi álögð opinber gjöld frá fyrra ári ásamt gjaldfærslu samtals kr. 45.213. Að auki er færður launakostnaður kr. 300.000. Hagnaður af starfseminni er síðan kr. 57.987.

Af rekstrar- og efnahagsreikningi K h.f. verður ekki ráðið að nokkur (atvinnu)starfsemi sé á vegum félagsins, og þá ekki forsendur fyrir greiðslu launa í þessum mæli.

Með vísan til framanritaðs áætlast launakostnaður kr. 10.000 en kr. 290.000 færast til skattlagningar hjá félaginu þar sem um tekjuhagræðingu v/skattlagningar sé að ræða og þykir þá ekki skipta máli að skattframtöl fyrri ára hafi ekki sætt véfengingu.“

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. maí 1989, og er krafan sú, að breytingu skattstjóra á gjaldfærðum launakostnaði verði hrundið og skattframtal árið 1988 verði lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Í kæru er þess getið, að á árinu 1987 hafi farið fram ýmsar athuganir á framtíðarstarfsemi kæranda og væru umræddar launagreiðslur m.a. vegna þeirra athugana.

Með bréfi, dags. 25. september 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Svo sem fram kemur í málsgögnum, sbr. og úrskurð skattstjóra, var enginn rekstur á vegum kæranda á árinu 1987, en kærandi er byggingarfyrirtæki samkvæmt skráðum tilgangi í félagssamþykktum. Einu tekjur kæranda eru arður 403.200 kr. af hlutafjáreign félagsins í X hf. Að þessu virtu þykir hafa verið tilefni af hálfu skattstjóra til þess að gera athugasemdir við gjaldfærðan launakostnað. Það ber undir kæranda að gera skilmerkilega grein fyrir þessum gjaldalið og tengslum hans við tekjuöflun félagsins, sbr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Það hefur kærandi ekki gert. Ber því að vísa kæru þessari frá vegna vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja