Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 15/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 62. gr. — 68. gr. — 70. gr. 2. mgr. — 80. gr. — 84. gr.   Lög nr. 49/1986 — 2. gr. b.liður  

Skattskylda — Dánarbú — Lögaðili — Skattskylda dánarbús — Sjálfstæð skattskylda — Sjálfstæð skattskylda dánarbús — Sjálfstæður skattaðili — Eignarskattur — Sérstakur eignarskattur (Þjóðarbókhlöðuskattur) — Eignarskattsauki — Eignarskattsstofn — Dánarár — Skattskylda einstaklings — Skattskylda einstaklings á dánarári — Sköttun einstaklings — Sköttun einstaklings á dánarári — Upphaf skattskyldu — Upphaf skattskyldu dánarbús — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu einstaklings — Persónuafsláttur — Búskipti

Kærandi lést 30. maí 1988 og var skiptum á dánarbúinu ekki lokið á því ári. Skattframtal árið 1989 barst skattstjóra 15. mars 1989. Var það lagt til grundvallar við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989.

Í kæru, dags. 18. ágúst 1989, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningunni. Kom fram af hans hálfu, að dánarbúið ætti rétt á því að skattleggjast sem um einstakling væri að ræða og væri það innan skattleysismarka vegna lágra tekna A heitins. Bæri því að fella tekjuskatt og útsvar niður. Þá bæri að fella sérstakan eignarskatt niður, enda væru eignir innan við þau mörk að verða skattskyldar til þess skatts. Með kæruúrskurði, dags. 22. september 1989, vísaði skattstjóri kærunni frá sem tilefnislausri. Skattframtalið hefði verið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Persónuafsláttur hefði reiknast í 5 mánuði, sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981 og dánardægur. Álagning eignarskatts færi eftir ákvæðum 84. gr. sömu laga.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. október 1989. Í kærunni er mótmælt þeirri meðferð skattstjóra að meðhöndla dánarbú einstaklings eftir dánardag á andlátsári sem fyrirtæki, þ.e.a.s. að persónuafsláttur nýttist ekki allt árið. Í tilvitnuðum lögum væri ekki að finna röksemd fyrir þessari niðurstöðu og 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fjallaði aðeins um búsetu hér á landi, búsetubreytingar og búferlaflutninga. Ekki teldist andlát búferlaflutningur. Hvergi væri að finna í lögum nr. 75/1981 hvernig meðhöndla bæri dánarbú á dánarári. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra væri tekið fram, hvernig fara bæri með dánarbú maka á andlátsári og væri það fordæmi um, hvernig meðhöndla bæri dánarbú einstaklings á dánarári.

Með bréfi, dags. 31. október 1990, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Við andlát kæranda lauk skattskyldu hans, en jafnframt stofnaðist skattskylda dánarbús hans, sbr. 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Búinu hafði ekki verið skipt í árslok 1988. Bar m.a. að ákvarða því eignarskatt skv. 84. gr. laga nr. 75/1981 og sérstakan eignarskatt skv. lögum nr. 49/1986, með síðari breytingum. Að þessu virtu og framtalsgögnum kæranda þykir ljóst, að álögð opinber gjöld gjaldárið 1989 séu ekki ofákvörðuð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja