Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 86/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 63. gr. 3. mgr.  

Sambýlisfólk — Óvígð sambúð — Sköttun sambýlisfólks — Sambúðartími — Lögheimili — Sameiginlegt lögheimili — Lögheimili, sameiginlegt — Sönnun — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1989. Er þess krafist að kærendur, sem búa saman í óvígðri sambúð, verði heimilað að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, gjaldárið 1989. Með hinum kærða úrskurði, dags. 25. september 1989, hafnaði skattstjóri þessari kröfu með því að kærandi, sambýliskona, hefði ekki flutt lögheimili sitt á sameiginlegt heimili kærenda fyrr en 1. júní 1987. Uppfylltu þau því ekki skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til samsköttunar. Þessu er mótmælt af hálfu kærenda og fullyrt að sambúðin hafi varað lengur samfleytt en tvö ár. Er bent á nokkra úrskurði ríkisskattanefndar til stuðnings framangreindri kröfu.

Með bréfi, dags. 31. október 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur þar sem ekkert liggur fyrir um að sambúðin hafi staðið lengur yfir en frá 1. júní 1987.“

Engin efni þykja vera fyrir hendi til að vefengja fullyrðingu kærenda um sambúðartíma þeirra. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til greinargerðar af hálfu kærenda er fallist á kröfu þeirra í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja