Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 222/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. 3. mgr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml.   Reglugerð nr. 615/1987 — 2. gr.  

Gjöf — Gjafir til menningarmála o.fl. — Menningarmálastarfsemi — Vísindi — Vísindaleg rannsóknarstarfsemi — Rannsóknarstarfsemi — Verkmenntun — Listir — Listastarfsemi — Minningarsjóður — Sjálfseignarstofnun — Skipulagsskrá — Framlag í minningarsjóð — Frádráttarheimild — Almenningsheill — Tilgangur minningarsjóðs — Gefandi — Gjafþegi — Tengsl gefanda og gjafþega — Staðfesting skipulagsskrár — Staðfesting forseta Íslands á skipulagsskrá — Forseti Íslands — Dómur — HRD 16/2 1995.

I.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 27. júlí 1989, um nokkrar breytingar á skattframtali hans 1989 með vísun til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Meðal þeirra breytinga var, að framlag til minningarsjóðs A hf., er gjaldfært var á rekstrarreikningi, hefði verið fellt niður, þar eð framlagið teldist ekki falla undir ákvæði 1. tl. 31. gr. nefndra laga. Aðrar breytingar á skattframtalinu hafa ekki verið kærðar til ríkisskattanefndar.

Fyrrnefndri breytingu á skattframtali kæranda var mótmælt með kæru umboðsmanns hans til skattstjóra, dags. 24. ágúst 1989. Var þess krafist, að framlag í „Minningarsjóð A H/F“ að fjárhæð 5.000.000 kr. yrði leyft til frádráttar frá skattskyldum tekjum, áður en tekjuskattur yrði álagður. Með kærunni fylgdu samþykktir sjóðsins, sem hlotið hefðu staðfestingu forseta Íslands.

Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda um fyrrnefndan frádrátt með úrskurði, dags. 7. mars 1990. Fyrir þeirri niðurstöðu færði skattstjóri svofelld rök:

„2. Frádráttur vegna gjafa til menningarmála o. fl. byggist á heimild í 3. mgr. 1. tl. 1. mgr. 31. gr. l. nr. 75/1981. Í reglugerð nr. 615/1987 er fjallað nánar um hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þetta ákvæði. Skv. 2. gr. eru málaflokkar þeir sem til greina koma m.a. hvers konar menningarmálastarfsemi fyrir almenning, hvers konar vísindaleg rannsóknarstarfsemi, viðurkennd líknarstarfsemi og starfsemi Þjóðkirkjunnar.

Starfsemi sem í eðli sínu fellur undir reglugerðina skv. framanrituðu, þarf að ná til ótakmarkaðs fjölda einstaklinga. Vegna starfsemi sem í raun er bundin við afmarkaðan hóp einstaklinga heimilast því ekki frádráttur.

Í skipulagsskrá fyrir minningarsjóð A hf. kemur fram í 1. lið 3. gr. að tilgangur sjóðsins er m.a. að „stuðla að aukinni verkmenntun starfsmanna A hf.“ Í 2. mgr. 6. gr. segir að úthlutað skuli skv. 3. gr. 1. lið ekki sjaldnar en annað hvert ár.

Skv. 7. gr. skipulagsskrár er stjórn sjóðsins skipuð fimm mönnum. Fjórir skulu kosnir á aðalfundi A hf. og sá fimmti skipaður af stjórn A hf. og skal sá vera stjórnarformaður. Skv. innsendum hlutafjármiðum eru 5 hluthafar í A hf.

Starfsemi sjóðs A hf. er skv. framanrituðu svo nátengd og bundin stjórn og starfsemi A hf. að eigi er unnt að fallast á að hún fullnægi ákvæðum reglugerðar nr. 615/1987 um frádrátt vegna gjafa til menningarmála. Kröfu kæranda um frádrátt framlags til sjóðs A hf. er því hafnað.“

II.

Úrskurði skattstjóra varðandi höfnun á frádráttarbærni framlags til fyrrnefnds sjóðs hefur af kæranda hálfu verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru umboðsmanns hans, dags. 3. apríl 1990. Í henni segir m.a.:

„Eins og fram kemur í kæru til Skattstjórans í Reykjavík, þá uppfyllir sjóðurinn öll skilyrði reglugerðar nr. 615. 30. desember 1987.

Sjóðnum hefur verið sett staðfest skipulagsskrá yfir starfsemi hans, eins og krafist er í 1. gr. reglugerðarinnar.

Eins verður ekki annað séð en að aðaltilgangur sjóðsins falli undir og uppfylli 2. gr. reglugerðarinnar.

Það, sem virðist móta afstöðu skattstjóra, þegar hann úrskurðar synjun á frádráttarhæfni gjafarinnar til sjóðsins, er að í tilgangi hans er gert ráð fyrir, að hann geti stuðlað að aukinni verkmenntun starfsmanna A H/F.

Hvað þetta atriði varðar, hafa hluthafar A H/F. ákveðið, að á næsta aðalfundi A h/f. verði þetta ákvæði fellt burt úr skipulagsskrá sjóðsins, en breytingar á henni má aðeins gera á aðalfundi.

Þá er tekið fram sem rökstuðningur í úrskurði skattstjóra, að fjórir í stjórn sjóðsins séu kosnir á aðalfundi A H/F. og sá fimmti skipaður af stjórninni og sé hann formaður.

Þessum rökstuðningi á vanhæfni gjafarinnar er mótmælt, þar sem engin stoð er fyrir honum í lögum 75/1981 né í reglugerðinni nr. 615/1987.

Með tilvísan til framanritaðs og þess að 3. gr. 1. liður í skipulagsskrá sjóðsins verða felld niður á næsta aðalfundi A H/F. Þá er þess krafist að viðurkennd verði til frádráttar gjöf að upphæð Kr. 5.000.000,00 frá tekjum áður en tekjuskattur er lagður á umbjóðanda minn.“

III.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 18. desember 1990, gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda.

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

IV.

Af hálfu kæranda þykir eigi hafa verið sýnt fram á að umrætt framlag til sjóðs A hf. til minningar um hjónin B og D sé frádráttarbært skv. 3. mgr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Er því eigi fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Dómur bæjarþings Reykjavíkur frá 24. mars 1992.

Um ágreiningsefnið gekk dómur bæjarþings Reykjavíkur hinn 24. mars 1992 í málinu nr. 7860/1991, máli A hf. gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Niðurstaða dómsins er svohljóðandi:

„Tilgangur skattfrelsis gjafa skv. 1. tl. 3. mgr. 31. gr. l. nr. 75/1981 er að efla menningarstarf, vísindi, rannsóknarstörf og líknarstörf alls konar, eins og nánar er tilgreint í reglugerð nr. 615/1987.

Samkvæmt 3. gr. skipulagsskrár fyrir sjóð [A hf.], sem staðfest var af forseta Íslands 31. desember 1986 í samræmi við 11. gr. skipulagsskrárinnar, er tilgangur sjóðsins þessi:

1. Að stuðla að aukinni verkmenntun starfsmanna [A] hf.

2. Að stuðla að rannsóknum á sviði hugvísinda og raunvísinda, m.a. í því skyni að efla tengsl milli atvinnulífs og æðri menntunar.

3. Að hlú að menningarstarfsemi og listiðkun.

Einungis verður litið svo á, að tveir síðustu liðir 3. gr. skipulagsskrárinnar falli undir 31. gr. l. nr. 75/1981, sbr. reglugerð nr. 615/1987, en 1. liður, styrkur til verkmenntunar starfsmanna [A] hf., fellur ekki þar undir.

Samkvæmt skipulagsskránni er það alfarið í höndum stjórnar [A] hf. að breyta skipulagsskránni. Þá eru fjórir af fimm stjórnarmönnum sjóðsins kosnir á aðalfundi [A] hf. og sá fimmti, sem jafnframt er stjórnarformaður, er skipaður af stjórn [A] hf. Er það stjórn sjóðsins, sem ákveður úthlutun úr sjóðnum.

Liggur ekki fyrir, að aðrir hafi setið í stjórn sjóðs [A hf.], auk stjórnarformanns, en eigendur og stjórnarmenn [A] hf.

Í skipulagsskránni er kveðið svo á, að úthluta skuli úr sjóðnum samkvæmt ákvörðun stjórnar hans, en þó skuli úthlutað skv. 1. tl. 3. gr. ekki sjaldnar en annað hvert ár. Þannig er engin skuldbinding til að úthluta úr sjóðnum til þeirra málaflokka, sem falla undir 31. gr. l. nr. 75/1981, sbr. reglugerð nr. 615/1987. Er þannig unnt að fullnægja ákvæðum skipulagsskrárinnar með því að úthluta styrkjum úr henni, sem renna alfarið í þágu [A] hf., þ.e. til verkmenntunar starfsfólks hlutafélagsins.

Ekki liggur fyrir, að úthlutað hafi verið skv. 1. tl. nema í eitt skipti á árunum 1987-1990, þrátt fyrir ákvæði skipulagsskrárinnar, og voru það kr. 150.000. Þá var á árinu 1989 úthlutað kr. 500.000 til stofnunar Sigurðar Nordal. Um aðrar styrkveitingar var ekki að ræða á þessu tímabili, þrátt fyrir verulegar vaxtatekjur sjóðsins.

Með breytingu skipulagsskrárinnar á árinu 1990, sem liggur reyndar ekki fyrir að hafi verið staðfest af forseta Íslands í samræmi við 11. gr. hennar, var numinn brott 1. tl. 3. gr. Jafnframt var felld niður skylda til að verja tekjum sjóðsins til styrkja, og er þar einungis um heimild að ræða. Segir svo í niðurlagi 5. gr. skipulagsskrárinnar: „Raunvaxtatekjum sjóðsins má verja samkvæmt 3. gr.“

Er augljóst, að báðar skipulagsskrárnar eru þannig úr garði gerðar, að eigendur [A] hf. geta í raun alfarið ráðið því hvort og að hve miklu leyti tilgangi sjóðsins er framfylgt.

Verður því ekki litið svo á, að umdeilt framlag [A] hf. í sjóð [A hf.] falli undir skilgreiningu 3. mgr. 1. tl. 31. gr. l. nr. 75/1981, sbr. reglugerð nr. 615/1987, og nýtur þannig ekki skattfrelsis samkvæmt þessu lagaákvæði.

Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.“

Dómur Hæstaréttar frá 16. febrúar 1995.

A hf. áfrýjaði dómi bæjarþings Reykjavíkur til Hæstaréttar með stefnu 16. júní 1992 og krafðist þess, að ógiltur yrði með dómi úrskurður ríkisskattanefndar nr. 222/1991 frá 7. mars 1991 og að stefndi, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, yrði dæmdur til að endurgreiða ofgreiddan tekjuskatt að fjárhæð 2.500.000 krónur auk dráttarvaxta. Þá krafðist áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krafðist staðfestingar hins áfýjaða dóms og málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar féll 16. febrúar 1995 og er niðurstaða réttarins svohljóðandi:

„Ágreiningur í máli þessu snýst um það, hvort áfrýjanda hafi verið heimilt samkvæmt 3. mgr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt að draga frá tekjum sínum á árinu 1988 framlag sitt að fjárhæð 5.000.000 krónur til sjóðs [A hf.] til minningar um hjónin […]. Eins og lýst er í héraðsdómi var sjóður þessi stofnaður með skipulagsskrá, sem staðfest var af forseta Íslands 30. desember 1986, og var sú skipulagsskrá í gildi árið 1988. Sjóðurinn var háður eftirliti Ríkisendurskoðunar, sbr. lög nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sbr. áður lög nr. 20/1964 um eftirlit með opinberum sjóðum.

Einn aðaltilgangur sjóðsins samkvæmt þessari skipulagsskrá var samkvæmt 3. gr. 1. lið að „stuðla að aukinni verkmenntun starfsmanna [A] hf.“ Er fallist á það með héraðsdómara, að þessi liður geti ekki fallið undir 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. reglugerð nr. 615/1987 um frádrátt vegna gjafa til menningarmála o.fl. Í 6. gr. skipulagsskrárinnar var fjallað um úthlutun styrkja úr sjóðnum. Þar sagði í 2. mgr.: „Stjórnin getur ákveðið að auglýsa eftir umsóknum til einstakra verkefna. Þó skal úthlutað skv. 3. gr. 1. lið ekki sjaldnar en annað hvert ár.“ Eins og skipulagsskráin var úr garði gerð á þessum tíma hvíldi engin skylda á stjórn sjóðsins að úthluta úr honum til þeirra málaflokka, sem um var fjallað í 2. og 3. lið 3. gr. skipulagsskrárinnar. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfun áfrýjanda og staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

Rétt þykir, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

D ó m s o r ð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja