Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 244/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 14/1965 — 2. gr. 3. mgr.   Lög nr. 42/1978   Reglugerð nr. 151/1986 — 11. gr.  

Launaskattur — Launaskattsskylda — Iðnaður — Útleiga atvinnuhúsnæðis — Útleiga — Atvinnuhúsnæði — Frystigeymsla — Vélstjóri — Vélgæslustörf — Atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands — Hagstofa Íslands, atvinnuvegaflokkun

Hinn kærði úrskurður skattstjóra, dags. 7. nóvember 1989, er svohljóðandi:

„Með vísan til 1. gr. laga nr. 14/1965 um launaskatt með síðari breytingum, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 87/1987 skal launaskattur af vinnulaunum fyrir starfsemi sem ekki flokkast undir fiskveiðar eða iðnað vera 3.5%. Með iðnaði, skv. 2. og 3. flokki í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, er átt við atvinnustarfsemi í verksmiðjum, verkstæðum og heimilum, sem fólgin er í „mekaniskri“ eða „kemiskri“ umbreytingu gæða í nýjar afurðir skv. reglugerð nr. 151/1986 11. gr. 1. tl. um launaskatt.

Ekki er að sjá af reikningum kæranda að slík starfsemi eigi sér stað hjá kæranda sem hefur rekstrartekjur sínar af útleigu frystigeymslna og útleigu á öðru húsnæði og meginhluti launagreiðslna er til vélstjóra.

Með hliðsjón af framansögðu er kærunni hafnað.“

Kröfugerð umboðsmanns kæranda fyrir ríkisskattanefnd er svohljóðandi:

„Með vísan til fyrri bréfaskrifta vegna launaskattsmála er úrskurði, sem fram kemur í bréfi skattstofu frá 7/11 s.l. mótmælt.

Um er að ræða að launaskattur er lagður á vélgæslustörf í frystigeymslu. Slík vélgæslustörf í frystihúsum eru undanþegin launaskatti. X h/f er að verulegu leyti í eign tveggja frystihúsa og er frystigeymsla félagsins að mestu nýtt af þeim. Ekki er hægt að sjá að eðlismunur sé á þeim vélgæslulaunum sem frystihúsin greiða beint til launþega í eigin frystigeymslum og þeirra vélgæslulauna sem X h/f greiðir.

Tekið skal fram að umsjón með útleigu og viðskiptalega umsýslu hefur framkvæmdastjóri í hlutastarfi og er greiddur launaskattur af þeim launum.“

Með bréfi, dags. 5. nóvember 1990, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja