Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 396/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 96. gr. 1. og 4. mgr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I.  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Íbúðarhúsnæði, eignarhald — Eignarhald íbúðarhúsnæðis — Íbúðarsala — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Lögskýring

Málavextir eru eftirfarandi:

Að undangengnum bréfaskriftum felldi skattstjóri niður hinn 2. febrúar 1990 vaxtagjöld að fjárhæð 502.350 kr., sem kærendur töldu fram sem vaxtagjöld vegna kaupa á íbúð til eigin nota á þeim forsendum, að kærendur hefðu ekki átt íbúð á árinu 1988. Með kæruúrskurði, dags. 6. apríl 1990, ákvað skattstjóri, að breyting þessi skyldi óhögguð standa.

Af hálfu kærenda, hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. maí 1990. Í kærunni segir svo:

„Vorið 1984 keyptum við íbúðarhúsnæði að X. Árið 1987 seldum við húsið vegna greiðsluerfiðleika. Tap varð af sölunni, og við erum enn í skuldum eftir það. Á skattframtali 1989 færðum við þau vaxtagjöld sem við höfðum greitt árið 1988, af lánum vegna húsnæðiskaupanna, í reit 87, og tókum fram í athugasemdadálki framtalsins hvernig þessi gjöld væru til komin. Við álagningu 1989 fengum við vaxtaafslátt, athugasemdalaust.

Í nóvember 1989 biður skattstjóri um kvittanir fyrir þessum vaxtagjöldum. Hann fær þær sendar, og í framhaldi af því tilkynnir hann okkur að vaxtaafsláttur verði felldur niður, og rökstyður það með tilvísun til „ákvæða til bráðabirgða I“, í lögum nr. 75/1981.

Nú er það svo, að í lögum þeim sem gildandi voru vegna álagningar árið 1989 er ekkert ákvæði þess efnis að réttur til vaxtaafsláttar skuli vera bundinn eignarhaldi á húsnæðinu. Í þeirri grein laganna sem skattstjóri vísar til er ekkert sem skilja mætti á þann veg. Við teljum okkur því eiga fullan rétt á þessum vaxtaafslætti, þar sem lánin uppfylla tvímælalaust þau skilyrði að vera tekin vegna íbúðarkaupa.“

Með bréfi, dags. 21. desember 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Skattstjóri byggði niðurfellingu vaxtagjalda og þar með vaxtaafsláttar á því, að kærendur ættu ekki íbúðarhúsnæði og uppfylltu því ekki lagaskilyrði fyrir vaxtaafslætti. Á þessa niðurstöðu skattstjóra verður að fallast, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 49/1987, sbr. 14. gr. laga nr. 92/1987, sem vísa til 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 eins og þau hljóðuðu fyrir samþykkt laga nr. 49, 30. mars 1987. Þykir því bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja