Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 497/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 63. gr. 3. mgr.  

Sambýlisfólk — Óvígð sambúð — Sköttun sambýlisfólks — Sambúðarskráning — Sambúðarvottorð — Hagstofa Íslands, þjóðskrá — Þjóðskrá — Sambúðartími — Sönnun

Málavextir eru þeir, að kærendur fóru þess á leit við skattstjóra í kæru til hans, dags. 15. ágúst 1990, að skattlagningu á þau yrði hagað eftir þeim reglum, sem gilda um hjón, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda uppfylltu þau lagaskilyrði fyrir slíkri skattlagningu vegna óvígðrar sambúðar, er staðið hefði frá árinu 1987.

Með kæruúrskurðum, dags. 5. nóvember 1990, synjaði skattstjóri kröfum kærenda á þeim forsendum, að engin „samsköttunarheimild“ lægi fyrir skattstjóra. Benti skattstjóri á að sækja þyrfti um samsköttunarheimild til Hagstofu Íslands.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurðum skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. nóvember 1990, og farið fram á, að kærendur verði skattlögð eftir reglum um hjón gjaldárið 1990. Vísað er til sambúðarvottorðs Hagstofu Íslands, dags. 28. nóvember 1990, er kærunni fylgdi. Í vottorði þessu kemur fram, að kærendur séu samkvæmt heimildum Þjóðskrár skráðir í sambúð og hafi óvígð sambúð hafist 1987.

Með bréfi, dags. 25. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfu kærenda.

Kærendur hafa sýnt fram á, að þau uppfylli lagaskilyrði fyrir hinni umkröfðu skattmeðferð, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981. Er krafa þeirra því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja