Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 498/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 15. gr. 2. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 106. gr. 1. og 2. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal tekið sem kæra — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Álag á áætlaða skattstofna — Skattframtal, höfnun — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, tortryggilegt — Framfærslueyrir — Skattframtal tekið til greina að hluta — Tekjuframtal — Tekjuframtal maka — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Söluhagnaður, skattfrjáls — Gróðaskyn — Sönnun — Sönnunarbyrði — Bátur — Hjólhýsi — Húsgögn — Einkamunir

Málavextir eru þeir, að skattstjóri hafnaði að leggja skattframtal kærenda árið 1990 til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990 á þeim forsendum, að framfærslueyrir kærenda þætti tortryggilega lágur eða 496.753 kr. og gjöld skv. rekstrarreikningi vegna járnsmíði væru í engu samræmi við tekjur, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 12. nóvember 1990. Kærendur höfðu sætt áætlun skattstofna við álagningu gjaldárið 1990, þar sem þau höfðu ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests. Skattstjóri tók framtalið sem kæru, en það barst 9. júlí 1990, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í hinum kærða úrskurði hafnaði skattstjóri framtalinu að öðru leyti en því að hann féllst á tekjuframtal kæranda, A. Þá lækkaði skattstjóri nokkuð áætlaðan tekjuskattsstofn kæranda, B. Skattstjóri bætti 15% álagi á tekjuskattsstofn kæranda, A, en 25% álagi á aðra stofna.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 30. nóvember 1990, fara kærendur fram á, að skattframtal þeirra árið 1990 verði tekið til greina með þeim leiðréttingum, að sala á vél úr sænskum togbát, er afskráður hafi verið sem ónýtur, hafi numið 180.000 kr. og eignfært hjólhýsi hafi í raun verið selt fyrir áramót á 100.000 kr. Láðst hafi að geta um þetta. Þá hafi húsgögn verið seld fyrir 35.000 kr. Farið er fram á, að álagi verði ekki beitt.

Með bréfi, dags. 15. apríl 1991, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfur kærenda með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum.

Með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra þykir mega taka kröfur kærenda til greina bæði um álagningu samkvæmt framtali og niðurfellingu álags. Leiðréttingar kærenda breyta ekki skattstofnum skv. framtali. Umræddur togbátur er færður meðal bifreiðaeignar í reit 06 í eignahlið framtals árið 1989. Eftir öllum atvikum þykir mega á því byggja að um hugsanlegan söluhagnað af bátssölunni fari eftir 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja