Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 512/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður — 100. gr. 5. mgr.   Reglugerð nr. 79/1988 — 12. gr. — 13. gr. 2. tl. — 14. gr.  

Sjómaður — Sjómannaafsláttur — Sjómannsstörf — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Lögskráning — Lögskráningardagar — Dýpkunarskip — Dráttarbátur — Skipaskrá — Siglingamálastofnun ríkisins — Skip — Skipstjóri — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að samkvæmt kaupuppgjöfum voru sjómennskudagar kæranda 150 tímabilið 1. janúar til 30. júní 1988 hjá A hf. og 68 tímabilið 1. júlí til 31. desember 1988 hjá B hf. Dagafjölda þennan tilgreindi kærandi í reitum 61 og 63 í skattframtali sínu árið 1989. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 var byggt á þessu og sjómannaafsláttur miðaður við þennan dagafjölda.

Með bréfi, dags. 10. janúar 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að fella niður sjómannaafslátt vegna 150 daga hjá A hf., þar sem slíkur afsláttur leyfðist ekki vegna dýpkunarskipa. Þessari ráðagerð mótmælti kærandi í bréfi, dags. 12. janúar 1990, og tók fram, að hann hefði þennan tíma verið lögskráður á dráttarbát A hf., þar eð réttindamann þyrfti á skipið. Hinn 29. janúar 1990 endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1989 vegna útstrikunar 150 sjómennskudaga og lækkunar sjómannaafsláttar í samræmi við það. Forsendur eru svohljóðandi í endurákvörðun þessari: „Ekki fallist á mótmæli þar sem talið er að ekki sé skylda til lögskráningar hjá félaginu, ekki sé ráðgert að gera út dýpkunarskip sem skip heldur sem fljótandi graftæki er gangi ekki fyrir eigin vélarafli heldur sé dregið milli hafna.“

Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, móttekinni 8. febrúar 1990, með þeim rökum, að kærandi hefði verið skipstjóri á dráttarbát, er væri skylt að lögskrá á. Með kæruúrskurði, dags. 12. febrúar 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til röksemda í endurákvörðuninni, dags. 29. janúar 1990.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. febrúar 1990, og krefst hann þess, að honum verði ákvarðaður sjómannaafsláttur vegna umræddra sjómennskudaga á dýpkunarskipinu. Kærandi getur þess, að skip þetta hafi á sínum tíma verið úrskurðað sem skip af hálfu Siglingamálastofnunarinnar og verið fært í skipaskrá og fengið skipaskrárnúmerið x. Í framhaldi af því hefði bæjarfógeti krafist lögskráningar á skipið. Beri að byggja á þessu en ekki skilgreiningum skattyfirvalda á skipinu. Þá bendir kærandi á, að hann hafi verið skipstjóri á dráttarbát félagsins en ekki hinu „fljótandi graftæki“ og til skipstjórnar á þeim bát væri krafist fullra skipstjórnarréttinda. Sem slíkur hefði kærandi verið lögskráður. Tæki reglugerð nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt, af allan vafa um það, að kærandi ætti rétt á sjómannaafslætti. Með kærunni fylgdi ljósrit af lögskráningargagni, staðfestu af bæjarfógetaembætti.

Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Kærandi var ráðinn sem skipstjórnarmaður á dráttarbátinn X, og var lögskráður á skipið í 124 daga á tímabilinu 1/1 — 30/6 1988. Að þessu virtu svo og með vísan til gagna málsins þykir mega fallast á kröfu hans.“

Kærandi var lögskráður skipstjórnarmaður á dráttarbát A hf. og uppfyllir því skilyrði til frádráttar sjómannaafsláttar frá tekjuskatti skv. B-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og 12. gr. reglugerðar nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt. Kærandi krefst þess, að sjómannaafslátturinn reiknist miðað við 150 sjómennskudaga vegna þessara sjómannsstarfa. Samkvæmt framlögðu gagni um lögskráningu eru lögskráningardagar 124, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra. Ekki hefur kærandi gert sérstaka grein fyrir sjómannaafslætti umfram lögskráningartíma, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt. Að svo vöxnu verður krafa hans tekin til greina miðað við 124 sjómennskudaga tímabilið 1. janúar 1988 til 30. júní 1988.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja