Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 539/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 66. gr. 1. mgr. 4. tl. og 2. mgr. — 80. gr. 2. mgr. — 100. gr. 5. mgr.  

Ívilnun — Valdsvið ríkisskattanefndar — Málskot til ríkisskattstjóra — Kæruheimild — Kæruleið — Kærufrestur — Kæruúrskurður — Leiðbeiningar skattyfirvalda um kæruheimild, kærufrest og kæruleið — Rangar leiðbeiningar skattyfirvalda um hvert beina skuli kæru — Leiðbeiningarskylda skattyfirvalda — Framsending — Framsending ríkisskattanefndar til ríkisskattstjóra — Frávísun — Frávísun, mál utan valdsviðs — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærandi sótti um ívilnun í tekjuskatti vegna menntunarkostnaðar barna sinna eldri en 16 ára, sbr. heimild í 4. tl. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Umsóknir þar um fylgdu skattframtali kæranda árið 1990 (RSK 3.06). Nokkra ívilnun veitti skattstjóri vegna menntunarkostnaðar annars barnsins en synjaði um ívilnun vegna hins, þar sem skólavottorð vantaði og upplýsingar um lánsmöguleika hjá LÍN, sbr. bréf skattstjóra, dags. 26. júlí 1990.

Af hálfu kæranda var í kæru, dags. 15. ágúst 1990, ítrekuð beiðnin um ívilnun vegna beggja barnanna og lögð fram gögn um skólavist og lánsmöguleika.

Með kæruúrskurði, dags. 10. desember 1990, vísaði skattstjóri kærunni frá á þeim forsendum, að ekki hafði verið sýnt fram á, að námið væri ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 9. janúar 1991. Ítrekuð er ívilnunarbeiðnin með vísan til staðfestingar LÍN, er kærunni fylgdi.

Með bréfi, dags. 7. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“

Mál þetta lýtur að ívilnunarbeiðni skv. 4. tl. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um slíkar beiðnir fjalla skattstjóri og ríkisskattstjóri og eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórn. Lögfest er sérstök málsskotsleið varðandi ívilnanir skv. nefndri 66. gr., sbr. 2. mgr. 80. gr., laga nr. 75/1981. Í 2. mgr. 66. gr. laganna er mælt fyrir um, að ákvörðun skattstjóra um ívilnanir megi skjóta til ríkisskattstjóra, er taki endanlega ákvörðun í málinu. Ríkisskattanefnd á því ekki úrskurðarvald um ívilnanabeiðnir slíkar, sem hér um ræðir. Í kæruúrskurði sínum gat skattstjóri ranglega um kærurétt til nefndarinnar og tilgreindi kærufrest. Kröfugerð ríkisskattstjóra er andstæð framangreindum lagaákvæðum, er varða starfssvið hans sjálfs. Samkvæmt framansögðu er kærunni vísað frá ríkisskattanefnd og jafnframt framsend ríkisskattstjóra til meðferðar að lögum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja