Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 655/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Frádráttarheimild — Ökutækjaskýrsla — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Akstur í eigin þágu — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Breytingarheimild skattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærandi fékk ökutækjastyrk frá X hf. 118.478 kr., sem hún tekjufærði í reit 22 í skattframtali sínu árið 1989. Sömu fjárhæð færði kærandi til frádráttar í reit 32 í framtalinu sem kostnað á móti fengnum ökutækjastyrk. Framtalinu fylgdi greinargerð um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1988 (RSK 3.04). Nam heildarakstur 19.800 km og heildarbifreiðakostnaður 212.324 kr. Af heildarakstri taldi kærandi 12.300 km vera akstur til og frá vinnu og 7.500 km akstur í eigin þágu. Þannig var enginn akstur sérstaklega tilgreindur í þágu launagreiðanda í framtalinu, en kærandi hefur hins vegar talið, að allur akstur milli heimilis og vinnustaðar væri í þágu launagreiðanda. Í samræmi við það hefur kærandi talið kostnað vegna aksturs 12.300 km eða 131.856 kr. vera í þágu launagreiðanda og fært til frádráttar kostnaðinn allt að fjárhæð tekjufærðs ökutækjastyrks.

Skattstjóri felldi frádráttinn niður fyrir álagningu og liggur ódagsett afrit þess bréfs fyrir í málinu. Byggði skattstjóri á því að „Frádrátturinn er að hámarki jafn kostnaði vegna aksturs á árinu í þágu vinnuveitanda skv. rekstraryfirliti fólksbifreiðar meðf. skattframtali sbr. ákv. 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.“

Í kæru til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1989, sbr. bréf, dags. 12. september 1989, var breytingu skattstjóra mótmælt og bent á, að kærandi hefði réttilega fært 118.478 kr. til frádráttar í samræmi við reglur þar um og því hlyti að vera um mistök skattstjóra að ræða.

Með kæruúrskurði, dags. 4. desember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda nú á þeim forsendum, að fargjaldakostnaður til og frá vinnustað væru skattskyldar tekjur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 og enginn frádráttur heimill þar á móti, þar sem ekki væri um að ræða akstur í þágu launagreiðanda.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. janúar 1990, og þess krafist, að frádráttur 118.478 kr. á móti ökutækjastyrk standi óbreyttur með þeim rökum, að launagreiðandi sé að greiða fyrir akstur í sína þágu. Að öðru leyti er vísað til innsendra gagna.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 1990, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Skilja verður breytingu þá, sem skattstjóri framkvæmdi fyrir álagningu, að hann hafi ekki talið kæranda bera neinn kostnað vegna aksturs í þágu vinnuveitanda með því að ekki hafi verið um að ræða neinn slíkan akstur. Var það í samræmi við framtalsgögn kæranda. Akstur sá, sem kærandi telur vera í þágu launagreiðanda, er eingöngu akstur milli heimilis og vinnustaðar. Að svo vöxnu þykir verða að synja kröfu kæranda um frádrátt vegna þessa aksturs.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja