Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 764/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður — 95. gr. 1. mgr. 3. ml.   Lög nr. 79/1989 — 1. gr.  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Íbúðareign — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Eignarhald íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eignarhald — Lögskýring — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra

Málavextir eru þeir, að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 30. maí 1990, um eftirfarandi breytingar á skattframtali hennar árið 1990 með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt:

„Vextir í reit 87 kr. 622.830.- færðir í reit 88 þar sem þér eigið ekki fasteign en það er forsenda fyrir vaxtabótum.“

Þessari breytingu á skattframtalinu var af kæranda hálfu skotið til skattstjóra með kæru, dags. 8. ágúst 1990. Í kærunni lýsir kærandi m.a. fjárhagslegum högum sínum.

Með úrskurði uppkveðnum 24. september 1990 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með svofelldum rökum:

„7. mgr. í C-lið 69. gr. ofangr. laga virðist vera fortakslaus „Vaxtabætur skulu bundnar við eignarhald rétthafa á íbúðarhúsnæði.“

Skv. skattframtölum yðar 1990 og 1989 eigið þér ekki íbúðarhúsnæði og getur því ekki verið um vaxtabætur til yðar að ræða.

Telst bréf skattstofu 30/5 sl. vera leiðrétting á framtali yðar í samræmi við ofangreinda gildandi lagagrein.

Ákvarðast því skv. ofanrituðu að kröfu um vaxtabætur sé hafnað.“

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. október 1990. Í henni gerir kærandi grein fyrir högum sínum og segir m.a.:

„Þessi lán sem á mér hvíla sem einstaklingi og fyrirvinnu tveggja barna eru samtals nú um 3.000.000,- og árstekjurnar um 1.000.000,-. Þar af þarf ég að borga rúmar 600.000 í afb. af lánum og vexti.

Ég spyr því eru engar undantekningar vegna þessara laga sem gætu hugsanlega hjálpað mér til sjálfsbjargar?“

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 8. mars 1991, krafist fyrir hönd gjaldkrefjenda staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

Með því að kærandi er ekki lengur eigandi íbúðarhúsnæðis og uppfyllir að því leyti ekki það skilyrði fyrir vaxtabótum, sem sett er í C–lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja