Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 835/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 16. gr. 1. og 2. mgr.  

Íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður, frestun skattlagningar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði færður til lækkunar stofnverðs annars íbúðarhúsnæðis — Búseturéttur — Frestun skattlagningar söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði — Brottför úr landi — Brottflutningur — Heimilisfesti

Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna í skattframtali 1990 sem söluhagnað 677.716 kr. í stað 66.024 kr. vegna sölu á íbúðarhúsnæði að X þann 21. september 1989. Í kæru sinni til skattstjóra fór kærandi fram á frestun skattlagningar söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi varð skattstjóri við ósk þessari af svofelldum ástæðum:

„Þar sem gjaldandi flytur úr landi 4. ágúst 1987, telst heimilisfesti hans hér á landi slitið. Með vísan til bréfs ríkisskattstjóra dags. 24. sept. 1981 þar sem segir að „þegar maður er á förum úr landi til langdvalar og hefur ekki gert líklegt að hann muni uppfylla skilyrðin um að hann ætli að kaupa eða hefja byggingu hér á landi á íbúðarhúsnæði innan frestsins, sbr. ákvæði 16. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum.“ Þykir ekki fært að fallast á frestun söluhagnaðar.“

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. apríl 1991. Er áðurnefnd krafa ítrekuð og þess getið, að sala nefndrar íbúðar hafi ekki verið gerð í ábataskyni og ekki hafi í reynd verið um söluhagnað að ræða.

Með bréfi, dags. 22. ágúst 1991, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Fallist er á að kæranda verði heimiluð frestun á skattlagningu söluhagnaðar sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981. Jafnframt tekur ríkisskattstjóri þó fram að ekki er unnt að fallast á að aðild að Búseta svf. eða umráð yfir íbúð á vegum þess aðila eða sambærilegra félaga teljist fjárfesting í íbúð í skattalegum skilningi. Samkvæmt því ber gjaldanda að festa kaup á íbúð með öðrum hætti en þeim sem hún virðist fyrirhuga skv. upplýsingum í kæru til að komast hjá skattlagningu hagnaðarins.“

Með skírskotun til kröfugerðar ríkisskattstjóra í málinu er fallist á frestun skattlagningar á umræddum söluhagnaði kæranda, en um fjárhæð hans sýnist ekki deilt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja