Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Starfsmannakostnaður
  • Fundakostnaður
  • Risna
  • Félagsgjöld

Úrskurður nr. 671/1997

Gjaldár 1993 og 1994

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 52. gr. 1. tölul. (brl. nr. 147/1994, 5. gr., sbr. brl. nr. 101/1995).   Lög nr. 32/1978, 63. gr., 64. gr.  

Í málinu var fjallað um frádráttarbærni útgjalda m.a. vegna gjafa og risnu, starfsmannaferða og annarra skemmtana starfsfólks og félagsgjalda í skattskilum kæranda, sem var hlutafélag.

I.

Málavextir eru þeir að í framhaldi af bréfum sínum, dags. 23. febrúar, 19. apríl og 9. júní 1995, þar sem skattstjóri krafði kæranda um upplýsingar og gögn viðvíkjandi ýmsum atriðum varðandi skattframtöl hans árin 1993 og 1994, og að fengnum svarbréfum kæranda, dags. 10. apríl, 3. júní og 19. júní 1995, boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 20. júní 1995, endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hans gjaldárin 1993 og 1994 vegna tilgreindra breytinga sem hann hugðist gera á skattskilum kæranda rekstrarárin 1992 og 1993. Hinum fyrirhuguðu breytingum skattstjóra var mótmælt af hálfu kæranda með bréfi, dags. 14. ágúst 1995. Hinn 13. september 1995 hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, með lítilsháttar breytingum, og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1993, 1994 og 1995. Breytingarnar lutu að lækkun tiltekinna gjaldaliða í rekstrarreikningum kæranda vegna áranna 1992 og 1993, og hækkun tekjuskattsstofns á gjaldárinu 1995 vegna lækkunar á yfirfæranlegu rekstrartapi frá fyrra ári. Af hálfu kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru til hans, dags. 10. október 1995. Skattstjóri felldi úrskurð um kæruna, dags. 10. júní 1996, þar sem hann staðfesti endurákvörðun sína að flestu leyti að því er varðar gjaldárin 1993 og 1994, en afturkallaði hækkun á tekjuskattsstofni gjaldárið 1995 vegna ágalla á málsmeðferð.

Með kæru, dags. 2. júlí 1996, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 17. september 1996, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er farið fram á að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi. Vísað er til rökstuðnings sem fram komi í fyrri bréfum til skattstjóra en jafnframt er fjallað nánar um einstök ágreiningsefni og verða þau reifuð nánar hér á eftir.

II.

1. Risna.

Skattstjóri lækkaði gjaldfærða risnu í ársreikningum kæranda fyrir rekstrarárin 1992 og 1993 um 665.703 kr. fyrra árið og 292.876 kr. það síðara, sbr. kæruúrskurð, dags. 10. júní 1996. Um er að ræða kostnað samkvæmt tilgreindum fylgiskjölum. Þær breytingar sem ágreiningur er um fyrir yfirskattanefnd eru eftirfarandi:

a) Gjafir.

Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni útgjalda að fjárhæð 175.970 kr. gjaldárið 1993 og 87.505 kr. gjaldárið 1994 vegna gjafa til starfsmanna og samstarfsaðila. Kvað hann kostnað vegna gjafa til starfsmanna ekki frádráttarbæran frá rekstrartekjum, sbr. 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá gætu gjafir til starfsmanna viðskiptaaðila kæranda ekki talist til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. h-lið 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem kostnaður vegna þeirra beindist ekki að viðskiptaaðila sjálfum heldur starfsmönnum hans.

Umboðsmaður kæranda hefur mótmælt lækkun skattstjóra að því er varðar tilgreind fylgiskjöl. Skírskotar hann til breytinga á lagareglum um frádráttarbærni gjafa sem urðu með lögum nr. 147/1994, um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem hann kveður verða að skoða sem staðfestingu löggjafans á þeirri túlkun að gjafir séu frádráttarbærar í rekstri.

b) Kostnaður vegna starfsmanna.

Kærandi færði til gjalda í rekstrarreikningi ársins 1992 kaup á aðsendum mat á starfsstöð, 6.640 kr., og kostnað vegna matarboðs sem efnt var til í tengslum við námskeið fyrir starfsmenn kæranda, 39.860 kr. Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni þessara útgjalda að því frátöldu að hann áætlaði kostnað til frádráttar vegna námskeiðsins, sem ekki hefði beinst að starfsmönnum kæranda, 10.000 kr. Þá felldi skattstjóri niður gjaldfærðan kostnað að fjárhæð 28.840 kr. vegna veislu, sem haldin var á árinu 1993 til heiðurs starfsmanni í tilefni 25 ára starfsafmælis hans hjá kæranda. Voru forsendur skattstjóra fyrir ofangreindum breytingum þær að umræddur kostnaður væri ekki í þeim tengslum við tekjuöflun kæranda að um rekstrarkostnað gæti verið að ræða í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. einnig 1. tölul. 52. gr. sömu laga.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur ofannefndum breytingum skattstjóra verið mótmælt.

c) Veiðiferðir.

Í rekstrarreikningi ársins 1992 gjaldfærði kærandi kostnað að fjárhæð 351.800 kr. vegna veiðiferðar í X-á og í rekstrarreikningi næsta árs kostnað að fjárhæð 503.852 kr. vegna veiðiferðar í Y-á. Skattstjóri lækkaði umræddan gjaldalið með endurákvörðun sinni um 175.900 kr. vegna fyrri ferðarinnar og 251.926 kr. vegna þeirrar síðari. Vísaði hann til þess að meðal þátttakenda í ferðunum væru makar viðskiptamanna og hlutaðeigandi starfsmanna kæranda, en kostnaður vegna maka væri ekki í þeim tengslum við tekjuöflun kæranda að um frádráttarbæran rekstrarkostnað gæti verið að ræða samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Með kæruúrskurði, dags. 10. júní 1996, staðfesti skattstjóri synjun á gjaldfærslu kostnaðar vegna þátttöku maka í nefndum veiðiferðum. Hins vegar féllst hann á varakröfu kæranda þess efnis að lækkun vegna þátttöku maka tæki einungis til gistingar og fæðis en ekki til kaupa á veiðileyfum. Samkvæmt því nam lækkun þessa gjaldaliðar samkvæmt kæruúrskurði 65.900 kr. vegna fyrri ferðarinnar og 100.351 kr. vegna þeirrar síðari.

Umboðsmaður kæranda hefur krafist þess að ofangreindur gjaldaliður verði að fullu samþykktur. Það sé skoðun kæranda að umræddri risnu sé betur varið þegar makar séu með í för og meiri líkur séu þá á árangri.

d) Aðalfundir.

Skattstjóri féllst ekki á að telja til frádráttar kostnað vegna kvöldverðar í tengslum við aðalfund kæranda, 213.350 kr. árið 1993 og 46.160 kr. árið 1994. Kvað hann umræddan kostnað beinast að hluthöfum og mökum þeirra en ekki að viðskiptavinum félagsins og stæði þannig ekki í þeim tengslum við tekjuöflun að um rekstrarkostnað væri að ræða samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Af hálfu umboðsmanns kæranda er þessu mótmælt. Bendir hann á ákvæði e-liðar 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þar sem fram komi að kostnaður vegna aðalfundar sé frádráttarbær frá rekstrartekjum. Af hans hálfu er mótmælt þeim skilningi skattstjóra, sem fram kom í kæruúrskurði, að nefnd reglugerð ætti ekki við vegna gjaldáranna 1993 og 1994. Þá bendir hann á, að umrædda kvöldverði hafi setið hluthafar kæranda og makar þeirra, en ekki starfsmenn og makar eins og ranglega segi í kæruúrskurði, sem sé því að þessu leyti byggður á röngum forsendum. Varðandi þátttöku maka vekur umboðsmaður athygli á því að hjón séu eigendur hlutafjár í sameiginlegu fjárfélagi, burtséð frá því hvort þeirra sé skráð fyrir hlutafénu, og maki greiði eignarskatt af hlutafé sem hinn makinn sé skráður fyrir. Þá sé hluthafa heimilt samkvæmt 64. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, að hafa með sér ráðgjafa á hluthafafund. Kvöldverðarboð í kjölfar aðalfundar sé víða talið óaðskiljanlegur hluti af framkvæmd fundarins.

e) Annað.

Í skattskilum sínum á árinu 1993 færði kærandi til gjalda kaup á sérinnfluttum vínum sem færð voru viðskiptavinum og samstarfsaðilum að gjöf, 159.923 kr. Skattstjóri felldi þennan kostnað niður þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að um frádráttarbæra risnu væri að ræða, sbr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 og h-lið 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963.

Umboðsmaður kæranda hefur mótmælt niðurfellingu umrædds kostnaðar, sem hann telur sannanlega frádráttarbæra risnu.

2. Starfsmannaferðir og -skemmtanir.

Kærandi gjaldfærði á árunum 1993 og 1994 kostnað vegna starfsmannaferða og -skemmtana, 505.407 kr. fyrra árið og 413.078 kr. það síðara. Um var að ræða kostnað vegna ýmissa viðburða fyrir starfsfólk kæranda, svo sem þorrablóts, árshátíðar, jólaglöggs og starfsmannaferða. Skattstjóri taldi umræddan kostnað háan í ljósi starfsmannafjölda kæranda á árunum 1992 og 1993. Starfsmenn á árinu 1992 hefðu að meðaltali verið 23 og á árinu 1993 að meðaltali 21 og áætlaður kostnaður vegna hvers starfsmanns væri því um 21.974 kr. fyrra árið og 19.670 kr. það síðara. Áætlaði skattstjóri kostnað vegna starfsmannaferða og -skemmtana með hliðsjón af einstökum tilefnum og heildstætt yfir rekstrarárið 12.000 kr. á hvern starfsmann, þ.e. 276.000 kr. árið 1992 og 252.000 kr. árið 1993. Lækkaði skattstjóri því gjaldaliðinn starfsmannafélag um 229.407 kr. árið 1993 og 161.078 kr. árið 1994 og tók fram í því sambandi að kærandi hefði fært umræddan kostnað til gjalda undir fleiri reikningslyklum.

Af hálfu umboðsmanns er lækkun skattstjóra mótmælt. Samkvæmt 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994 teljist kostnaður sem þessi til rekstrarkostnaðar. Kveður umboðsmaður áætlun skattstjóra með 12.000 kr. á hvern starfsmann algerlega óraunhæfa og varla mundu standa undir kostnaði við árshátíð, hvað þá fleiri viðburði. Bendir umboðsmaður á leiðbeiningar ríkisskattstjóra um dagpeninga í þessu sambandi svo sem nánar er rakið í kæru til yfirskattanefndar. Telur hann skattstjóra ekki hafa haft tilefni til breytinga á umræddum gjaldalið, sem sé innan eðlilegra marka.

3) Félagsgjöld.

Gjaldfærð félagsgjöld sem í ágreiningi standa eru að fjárhæð 74.600 kr. gjaldárið 1993 og 63.200 kr. gjaldárið 1994 vegna aðildar kæranda að Ljóstæknifélagi Íslands, Stjórnunarfélagi Íslands, Skýrslutæknifélagi Íslands, EDI-félaginu á Íslandi og Félaginu Verkefnastjórnun. Skattstjóri féllst ekki á að bein tengsl væru milli aðildar að viðkomandi félögum og tekjuöflunar kæranda og því þætti ekki vera um að ræða rekstrarkostnað í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kæranda hefur mótmælt framangreindri afstöðu skattstjóra og kveður það mat stjórnenda fyrirtækisins að umrædd félagsgjöld séu eðlilegur og nauðsynlegur kostnaður í rekstri fyrirtækisins. Umrædd félög tengist öll rekstri kæranda með einhverjum hætti og aðild að þeim styrki möguleika til tekjuöflunar. Bendir umboðsmaður á ákvæði b-liðar 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994 í þessu sambandi.

4) Námskeið.

Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni útgjalda að fjárhæð 11.600 kr. vegna greiðslu kæranda á félagsgjaldi starfsmanns síns til Skýrslutæknifélags Íslands á árinu 1992 á þeirri forsendu að um persónulegan kostnað viðkomandi starfsmanns væri að ræða en ekki rekstrarkostnað í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kæranda hefur greint frá því að í sumum tilvikum þurfi einstaklingar að vera skráðir aðilar að félögum og í þessu tilfelli hafi viðkomandi starfsmaður orðið fyrir valinu þar sem aðild hans að félaginu hefði komið að notum í tengslum við verkefni á sviði tölvugerðra skýrslna, strikamerkinga og flutningatækni. Er því mótmælt að um persónulegan kostnað hans hafi verið að ræða.

III.

Með bréfi, dags. 25. apríl 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

IV.

Um kærulið 1 a):

Skattstjóri hafnaði gjaldfærslu útgjalda vegna gjafa að fjárhæð 175.970 kr. árið 1993 og 87.505 kr. árið 1994. Að mestum hluta er hér um að ræða gjafir til starfsmanna en einnig til ýmissa samstarfsaðila kæranda í tilefni af afmælum þeirra. Gjafir voru ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður á þeim tíma sem hér um ræðir, sbr. 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kemur því ekki til frádráttar vegna þeirra. Rétt er að benda á vegna þessa að með 5. gr. laga nr. 147/1994, um breyting á lögum nr. 75/1981, sbr. lög nr. 101/1995, um breyting á lögum nr. 147/1994, var 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981 breytt. Sú breyting kom til framkvæmda gjaldárið 1995 vegna tekna og gjalda á árinu 1994, sbr. 17. gr. laga nr. 147/1994. Kaup á blómum 2.960 kr. vegna andláts ættingja starfsmanns kæranda þykir ekki geta talist rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Kæruatriði þessu er hafnað.

Um kærulið 1 b):

Ágreiningur samkvæmt þessum kærulið varðar útgjöld á árinu 1992 að fjárhæð samtals 36.500 kr. og á árinu 1993 að fjárhæð samtals 28.840 kr. Vegna ársins 1992 er um að ræða annars vegar kaup á aðsendum mat á starfsstöð kæranda vegna helgarvinnu starfsmanna 6.640 kr. og hins vegar matarboð sem efnt var til í tengslum við námskeið rekstrarráðgjafa nokkurs, en boðið þáðu að sögn kæranda ráðgjafinn, starfslið hans og þátttakendur á umræddu námskeiði, þ.e. starfsfólk kæranda. Skattstjóri áætlaði kostnað til frádráttar vegna þátttöku rekstrarráðgjafans og starfsliðs hans 10.000 kr. en hafnaði gjaldfærslu vegna starfsfólks kæranda. Með hliðsjón af skýringu kæranda er fallist á gjaldfærslu 6.640 kr., en telja verður annan kostnað, sem hér er í ágreiningi, vera hluta starfsmannakostnaðar, en um hann er fjallað í einu lagi síðar í úrskurðinum. Kostnaður kæranda vegna veislu í tilefni af 25 ára starfsafmæli starfsmanns á árinu 1993 verður ekki talinn til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 og er úrlausn skattstjóra um þann kærulið staðfest.

Um kærulið 1 c):

Ekki er ágreiningur um rekstrarlegan tilgang tveggja veiðiferða sem farnar voru á vegum kæranda á árunum 1992 og 1993 og með kæruúrskurði hefur skattstjóri fallist á að keypt veiðileyfi væru gjaldfærð að fullu með 220.800 kr. vegna ferðar á árinu 1992 og 303.150 kr. vegna ferðar á árinu 1993. Kostnað vegna gistingar og fæðis, 131.800 kr. vegna fyrri ferðarinnar og 200.702 kr. vegna þeirrar síðari, hefur skattstjóri hins vegar lækkað um helming vegna þátttöku maka í ferðunum. Kærandi hefur ekki andmælt þeirri forsendu skattstjóra að í hvora ferð hafi farið þrír makar viðskiptamanna og tveir makar starfsmanna hans. Fram komnar skýringar varðandi rekstrarlegan tilgang með þátttöku maka í ferðunum verða ekki taldar fullnægjandi grundvöllur að gjaldfærslu kostnaðar vegna þeirra. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum beri frekari frádráttur vegna þessa kæruatriðis en skattstjóri hefur þegar fallist á. Kröfunni er hafnað.

Um kærulið 1 d):

Fallast má á það að kostnaður við aðalfund, þ.m.t. veitingar á fundinum, sé frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. og nú e-lið 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, enda sé kostnaðurinn eðlilegur miðað við tilefni. Í kæruúrskurði skattstjóra kemur fram að fallist hefur verið á kostnað vegna aðalfundar árið 1992, þ.e. leigu á sal og kaffiveitingar. Óumdeilt er að kostnaður að fjárhæð 213.350 kr., er til kominn vegna kvöldverðar í kjölfar aðalfundar og samkvæmt frásögn umboðsmanns kæranda sátu kvöldverð þennan hluthafar í kæranda ásamt mökum. Ljóst er því að í kvöldverðarboði þessu hafa tekið þátt aðilar sem ekki áttu rétt til setu á aðalfundi, sbr. 63. og 64. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, sbr. nú 80. og 81. gr. laga nr. 2/1995, um sama efni. Að því virtu sem upplýst hefur verið um kostnaðarlið þennan þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að í honum hafi að neinu leyti falist frádráttarbær fundarkostnaður.

Skattstjóri hafnaði gjaldfærslu kostnaðar að fjárhæð 46.160 kr. samkvæmt fylgiskjali nr. 1183 vegna kvöldverðar í tengslum við aðalfund á árinu 1993. Umrætt fylgiskjal liggur ekki fyrir en samkvæmt texta þess, svo sem hann er tilgreindur í fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 19. apríl 1995, er um að ræða veitingar vegna aðalfundar. Í kæruúrskurði skattstjóra kemur fram að gjaldfærsla kostnaðar vegna leigu á sal og kaffiveitinga í tilefni aðalfundar á árinu 1992 hafi verið látin óhreyfð, en sambærileg athugasemd kemur ekki fram að því er varðar aðalfund á árinu 1993. Af gögnum málsins verður raunar ekki ráðið að gjaldfærður hafi verið nokkur kostnaður vegna hluthafafunda á árinu 1993 utan hins umþrætta kostnaðar að fjárhæð 46.160 kr. Þar sem fram komin rök umboðsmanns kæranda í málinu verða hins vegar ekki skilin öðru vísi en svo að kostnaður þessi sé vegna kvöldverðar í kjölfar aðalfundar með þátttöku hluthafa og maka, þykir verða að hafna frádráttarbærni hans á sömu forsendum og að ofan greinir varðandi boð á árinu 1992. Samkvæmt því er úrlausn skattstjóra um þennan kærulið staðfest.

Um kærulið 1 e):

Af hálfu kæranda hefur sú grein verið gerð fyrir útgjöldum að fjárhæð 159.923 kr. vegna kaupa á sérinnfluttu víni á árinu 1992 að um gjafir til viðskiptavina sé að ræða og hafi margir notið, en alla nánari greinargerð skortir. Það ber undir kæranda að gera skýra grein fyrir tengslum kostnaðar af framangreindum toga við tekjuöflun til þess að fallast megi á frádráttarbærni hans. Fram komnar skýringar þykja ekki viðhlítandi og er úrskurður skattstjóra því staðfestur varðandi þennan kærulið.

Um kærulið 2:

Heildargjaldfærsla kostnaðar vegna starfsmannaferða og starfsmannaskemmtana í skattskilum kæranda nam 505.407 kr. gjaldárið 1993 og 413.078 kr. gjaldárið 1994. Kostnaður þessi var að mestu leyti færður til gjalda undir gjaldaliðnum starfsmannafélag, en einnig undir risnu- og ferðakostnaði. Fram er komið að hjá kæranda er starfandi starfsmannafélag sem hlutast til um ýmislegt það sem snýr að starfsmönnum, t.d. varðandi samkomur þeirra, félagslíf og skemmtiferðir. Hefur kærandi skýrt frá því að greitt sé mánaðarlegt gjald til starfsmannafélagsins og greiði starfsmenn 38% gjaldsins en kærandi 62%, auk þess styrki kærandi einstök tilefni með aukaframlagi. Framlag kæranda til starfsmannafélagsins nam 302.866 kr. árið 1992 og 339.896 kr. árið 1993, en þar af eru 70.000 kr. vegna starfsmannaferðar til Vestmannaeyja á árinu 1992, 34.000 kr. vegna ferðar til Skotlands á árinu 1993 og 50.000 kr. vegna árshátíðar á árinu 1993. Skattstjóri taldi gjaldfærðan kostnað vegna starfsmannaferða og -skemmtana á árunum 1992 og 1993 óeðlilegan í ljósi starfsmannafjölda kæranda umrædd ár og lækkaði gjaldaliðinn starfsmannafélag um 229.407 kr. fyrra árið og 161.078 kr. það síðara.

Fallast má á að kostnaður vegna skemmtana starfsmanna, svo sem vegna árshátíða og starfsmannaferða, geti verið frádráttarbær rekstrarkostnaður, enda hefur kostnaður af þessu tagi lengi verið viðurkenndur sem slíkur í skattframkvæmd, sbr. t.d. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 757/1976 sem birtur er í úrskurðarhefti nefndarinnar fyrir árin 1976, 1977 og 1978. Verður í þessu sambandi að miða við að um sé að ræða samkomur fyrir starfsmenn almennt og að kostnaður sé innan hóflegra marka, miðað við einstök tilefni og þegar hann er virtur heildstætt á rekstrarárinu. Að því er varðar framlög til starfsmannafélags verður að telja að frádráttarbærni þeirra ráðist af notkun þeirra fjármuna sem um ræðir, og gildi í því sambandi sömu sjónarmið og almennt um slíkan starfsmannakostnað. Fram er komið að hjá kæranda störfuðu að meðaltali 23 starfsmenn á árinu 1992 og að meðaltali 21 á árinu 1993. Til grundvallar breytingu skattstjóra á hinum umþrætta kostnaðarlið lá áætlun hans á hæfilegum kostnaði með hliðsjón af einstökum tilefnum og heildstætt yfir rekstrarárið, og miðaði hann í því efni við 12.000 kr. á hvern starfsmann, eða 276.000 kr. árið 1992 og 252.000 kr. árið 1993. Ekki þykja efni til að hagga við áætlun skattstjóra varðandi kæruatriði þetta, enda þykir lækkun skattstjóra ekki um skör fram.

Um kærulið 3:

Fallist er á gjaldfærslu kostnaðar vegna félagsgjalda til Stjórnunarfélags Íslands og EDI-félagsins á Íslandi, samtals að fjárhæð 40.000 kr. gjaldárið 1993 og 40.000 kr. gjaldárið 1994. Kærandi hefur ekki lagt fram greinargóðar upplýsingar um önnur þau félög sem krafa hans varðar og ekki er í ljós leitt af hans hálfu að um sé að ræða félög sem sinni sérstaklega hagsmunagæslu fyrir þá félagsmenn er hafa með höndum atvinnurekstur eða annist sérstaklega um sameiginlegar þarfir þeirra sem rekstraraðila. Að þessu virtu verður að telja að umrædd félagsgjöld geti eftir gildandi reglum við álagningu opinberra gjalda gjaldárin 1993 og 1994 ekki talist til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um kærulið 4:

Með vísan til þess sem að framan sagði um kærulið 3 verður ekki talið að greiðsla kæranda á félagsgjaldi starfsmanns í Skýrslutæknifélagi Íslands geti talist til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja