Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 864/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 10. gr. 2. mgr. — 14. gr. 1., 2. og 3. mgr. — 26. gr.  

Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Fasteign — Hesthús — Söluhagnaður, uppgjörsaðferð — Uppgjörsaðferð söluhagnaðar — Útreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður, útreikningur — Stofnverð — Fasteignamatsverð — Fasteignamatsverð notað í stað stofnverðs — Kostnaðarverð — Verðbreytingarstuðull — Framreikningur stofnverðs — Söluverð — Söluverð, helmingur þess í stað söluhagnaðar — Hagstæðasta skattmeðferð — Skattmeðferð, hagstæðasta — Sönnun — Sönnunarbyrði

Málavextir eru þeir, að kærandi seldi hlutdeild í hesthúsi og nam söluverð 210.000 kr. Skattframtali kæranda fylgdi greinargerð um sölu þessa, sbr. eyðublað þar um (RSK 3.02). Var framreiknað stofnverð þar talið 76.741 kr. Ekki var söluhagnaðarfjárhæð leidd fram eða tekjufærð í framtali, en þess getið, að söluandvirði hefði verið varið til byggingar hesthúss og hlöðu.

Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 8. janúar 1989, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1989 vegna tekjufærslu helmings söluverðs 105.000 kr. í stað söluhagnaðar, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. bréf skattstjóra, dags. 24. janúar 1990. Kom fram af skattstjóra hálfu, að söluhagnaður næmi 133.259 kr. og því væri heimild 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981 kæranda hagstæðari.

Af hálfu kæranda var tekjufærslu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 15. febrúar 1990. Taldi kærandi ekki um neinn söluhagnað að ræða. Stofnverð það, sem hann hefði byggt á, væri það verð sem byggingin hefði kostað árið 1970. Það ár hefði fasteignamat hússins numið 44.437,12 kr. Síðan væru 20 ár liðin og fasteignamat hækkað í hlutfalli við verðbólgu og væri í dag 210.000 kr. Með kæruúrskurði, dags. 9. mars 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda.

Með kæru, dags. 8. apríl 1990, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst niðurfellingar á skattlagningu á umræddum söluhagnaði og færir fram sömu rök og áður.

Með bréfi, dags. 21. desember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Eftir því sem gögn málsins bera með sér verður eigi annað séð en skattlagning vegna umrædds söluhagnaðar samkvæmt reglum 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sé kæranda hagstæðari en skattlagning í samræmi við 2. mgr. sömu lagagreinar. Að svo vöxnu verður eigi haggað við hinni kærðu tekjufærslu skattstjóra, en af hálfu kæranda hefur ekki verið sýnt fram á lægri fjárhæð til skattlagningar vegna umræddrar sölu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja