Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 876/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 99. gr. — 100. gr.   Lög nr. 45/1987 — 28. gr.  

Staðgreiðsla opinberra gjalda — Staðgreiðsluskil — Álag — Álag á vanskilafé í staðgreiðslu — Valdsvið ríkisskattanefndar — Kæruheimild — Kæruleið — Málskot til ríkisskattstjóra — Kærufrestur — Kæruúrskurður — Frávísun — Frávísun, mál utan valdsviðs — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Kærandi, sem er verktaki, skilaði skattframtali sínu árið 1990 í lögmæltum fresti. Með bréfi, dags. 28. ágúst 1990, en sem móttekið var hjá skattstjóra þann 4. september 1990, samkvæmt áritun hans á skattframtalið, lagði umboðsmaður kæranda fram svohljóðandi kæru:

„Fyrir hönd umbjóðanda míns kæri ég hér með álögð gjöld í staðgreiðslu undir liðnum, álag að upphæð kr. 173.233.-.“

Með kærubréfi umboðsmannsins fylgdi ljósrit af álagningarseðli kæranda gjaldárið 1990.

Með kæruúrskurði, dags. 1. nóvember 1990, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með svohljóðandi kærubréfi, dags. 7. nóvember 1990:

„Fyrir hönd umbjóðanda míns, kæri ég hér með álögð gjöld í staðgreiðslu undir liðnum „Álag“ að upphæð kr. 173.233.-. Hér virðist vera um að ræða villu í kerfishönnun við útreikning á álögðum sköttum og er þess farið á leit við yður að ofangreint verði lagfært og fellt niður.“

Með bréfi, dags. 30. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar. Samkvæmt gögnum málsins sýnist ágreiningsefnið varða álag samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Með því að kærumeðferð skv. 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, tekur ekki til ágreiningsefnisins er kærunni vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja