Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 888/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. og 3. tl. — 61. gr. 1. ml. — 74. gr. 5. tl. 2. mgr. — 75. gr. — 76. gr. — 77. gr. — 78. gr. — 80. gr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 3. mgr.  

Risna — Risnukostnaður — Fæðiskostnaður — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Breytingarheimild skattstjóra — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt — Rannsóknarregla — Tekjuuppgjör — Tekjuuppgjörsaðferð — Tekjutímabil — Tekjuuppgjör rekstrar — Innborganir vegna seldrar þjónustu — Þjónusta — Útistandandi viðskiptaskuldir — Niðurfærsla — Niðurfærsluheimild — Niðurfærsla útistandandi viðskiptaskulda — Eignarskattsstofn — Eignarskattsverð — Eignfærsla — Frádráttarbærni við ákvörðun eignarskatts — Eignir, frádráttur frá eignum — Frádráttarheimild — Framtalsháttur — Framtalsháttur, samræmi — Lögskýring

Kæruefnin eru sem hér segir:

1. Matar- og risnukostnaður. Í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1988 gjaldfærði kærandi matar- og risnukostnað 49.932 kr. Þennan gjaldalið felldi skattstjóri niður með bréfi, dags. 26. júlí 1989, á þeim forsendum, að hann teldist ekki vera til öflunar tekna í atvinnurekstri samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þessari breytingu var mótmælt af hálfu kæranda í kæru, dags. 29. ágúst 1989, sbr. bréf, dags. 6. október 1989. Með kæruúrskurði, dags. 19. febrúar 1990, féllst skattstjóri ekki á, að kostnaður þessi teldist til rekstrarútgjalda í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 20. mars 1990, heldur umboðsmaður kæranda því fram, að skattstjóri hafi ekki gætt réttra aðferða við framkvæmd breytingarinnar. Hann hafi farið með hana eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 en ekki eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. s.l. Þá gerir umboðsmaðurinn grein fyrir hinum umdeilda gjaldalið og heldur því fram, að miðað við eðli starfsemi kæranda beri efnislega að taka hann til greina.

2. Eignfærsla útistandandi viðskiptakrafna. Í efnahagsreikningi sínum pr. 31.12. 1988 eignfærði kærandi útistandandi viðskiptakröfur 200.583 kr. og færði niðurfærslu 10.029 kr. til lækkunar á höfuðstól. Í skattskilum sínum dró kærandi umrædda fjárhæð viðskiptaskulda frá tekjum, sbr. heimild þá, er greinir í 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ennfremur færði hann til frádráttar niðurfærslu á viðskiptakröfum 10.029 kr.

Hinn 26. júlí 1989 tilkynnti skattstjóri kæranda, að þar sem hann teldi fram í samræmi við 61. gr. laga nr. 75/1981, þ.e. miðaði tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu, teldust útistandandi viðskiptakröfur ekki til eignar og niðurfærsla viðskiptakrafna væri ekki heimil. Þessu var mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda, sbr. bréf, dags. 6. október 1989, í framhaldi af kæru, dags. 29. ágúst 1989. Byggði umboðsmaðurinn á því, að lagaheimildir stæðu til þessara færslna og salan er kröfurnar stöfuðu frá, hefði farið fram. Hún væri samkvæmt útskrifuðum reikningum og söluskattsskil hefðu átt sér stað. Með kæruúrskurði, dags. 19. febrúar 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Kærandi teldi fram í samræmi við 61. gr. laga nr. 75/1981 og væri ekki heimilt að eignfæra í árslok kröfur, sem ekki hefðu verið tekjufærðar á árinu nema skuldfærð væri á móti sama fjárhæð sem óskattlögð.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur breytingum þessum verið mótmælt í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 20. mars 1990. Segir svo um þetta kæruatriði í kærunni:

„Hvað varðar þá breytingu skattstjóra á framtali K vegna eignfærslu óinnheimtra tekna og niðurfærslu þeirra, er þess krafist að útstrikun þessara liða verði rökstudd með vísan í lög nr. 75/1981. Einu rökin sem styðja gerðir skattstjóra er að mati undirritaðs [að] ekki teljist góð reikningsskilavenja að lækka tekjur en ekki eignir, þ.e. ekki sé færð mótbókun. En hér er ekki verið að fjalla um reikningsskilavenjur heldur skattalög sem eru ekki alltaf í samræmi við góðar reikningsskilavenjur.

Undirritaður vill hér með undirstrika þá skoðun sína að 61. gr. laga nr. 75/1981, fjalli aðeins um heimild til að lækka tekjur gagnvart tekjuskatti. Ársreikningur v/reksturs K er gerður með mjög hefðbundnum hætti. Tekjur eru uppfærðar skv. útskrifuðum reikningum (greiddum og ógreiddum) og óinnheimtar tekjur 31.12. 1988 eignfærðar, eins og vera ber. Síðan er við gerð skattframtals notuð heimild, skv. 61. gr. títtnefndra laga og hagnaður (tekjur) lækkaður, sem nemur óinnborguðum tekjum. Engin breyting á sér stað á ársreikningnum sjálfum. Í síðasta ml. 2. mgr. 5. tl. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 75/1981 er kveðið á um hvað teljast skuli útistandandi viðskiptaskuldir, þegar meta á skattskyldar eignir. Hvorki í grein 75 (sem fjallar um hvað ekki telst til eignar), eða greinum 76, 77 og 78 (sem fjalla um frádrátt frá eignum), er minnst einu orði á útistandandi viðskiptakröfur, sem eru færðar til lækkunar á hagnaði (v/tekjuskattsstofns). Heldur er ekki minnst einu orði á það í 80. gr., sem fjallar um eignarskattsstofn, að lækka beri eignarskattsstofn um sömu upphæð og færð er til lækkunar hagnaði, skv. 61. grein.

Jafnframt ofanrituðu er vísað í bréf undirritaðs til skattstjóra, dags. 6. okt. 1989.“

Með bréfi, dags. 21. desember 1990, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Um 1. tl. Skattstjóri fór með hina kærðu breytingu eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en ekki eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga svo sem rétt hefði verið hyggðist skattstjóri hrófla við þessum lið. Vegna þessa annmarka á málsmeðferð skattstjóra er breytingu hans hnekkt varðandi þetta kæruatriði. Með úrskurði þessum er engin efnisafstaða tekin til kæruefnisins.

Um 2. tl. Kærandi hagaði tekjuuppgjöri sínu eftir 1. ml. 61. gr. laga nr. 75/1981. Með vísan til þess er kröfum kæranda synjað, varðandi þetta kæruefni.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja