Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 905/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 38. gr. 4. tl. b-liður — 52. gr. 2. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 100. gr. 5. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Rekstrarkostnaður — Tímaviðmiðun rekstrarútgjalda — Launakostnaður — Bílastæðisleiga — Fésektir — Stöðumælasektir — Bifreiðakostnaður — Fylgigögn skattframtals — Rekstraryfirlit fólksbifreiðar — Einkanot — Einkanot bifreiðar — Bifreið — Einkabifreið — Frádráttarheimild — Fyrning — Fyrnanleg eign — Lausafé — Fyrnanlegt lausafé — Ófyrnanlegt lausafé — Fyrning, almenn — Almenn fyrning — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Ófrádráttarbær kostnaður

Kærandi, sem rekur verslunarfyrirtæki, taldi ekki fram innan tilskilins framtalsfrests árið 1989. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kæranda, sem er ódagsett, barst skattstjóra hinn 18. ágúst 1989 samkvæmt áritun hans á skattframtalið um móttöku þess. Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagning opinberra gjalda ársins 1989 kærð með bréfi, dags. 18. ágúst 1989.

Með kæruúrskurði, dags. 29. janúar 1990, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1989 að gerðum svohljóðandi breytingum:

„Fólksbifreiðin A færist á framtal í reit 06 á kaupverði kr. 90.000, en ekki er um að ræða fyrnanlega eign í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981 heldur persónulega eign sem nýtt er að hluta til í eigin atvinnurekstri. Fyrning kr. 13.500 fellur því niður. Rekstraryfirlit fólksbifreiðar, RSK 4.03, hefur ekki verið lagt fram.

Eftir atvikum þykir mega láta gjaldfærðan bifreiðakostnað standa óbreyttan, sbr. þó það sem að neðan greinir.

Kostnaður kr. 73.310 vegna ársins 1987, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 8. janúar 1990, heimilast ekki til frádráttar tekjum ársins 1988.

Ekki hefur verið gerð tilskilin grein fyrir skiptingu bifreiðakostnaðar milli einkanota og nota í þágu atvinnureksturs og verður því ekki heimilaður frádráttur vegna stöðumælasekta kr. 51.280, stöðumælagjalda kr. 260 og greiðslur fyrir bílastæði kr. 19.200, sbr. bréf umboðsmanns yðar.“

Ákvað skattstjóri ennfremur að nýta sér heimild sína skv. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 til beitingar 25% álags á gjaldstofna vegna síðbúinna skila á skattframtali kæranda.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. febrúar 1990, þar sem hinum gerðu breytingum skattstjóra er mótmælt og óskað eftir, að þær ásamt álagsbeitingu skattstjóra á skattstofna yrðu felldar niður. Umrædd bifreið hefði eingöngu verið notuð í atvinnurekstrinum af sölumönnum fyrirtækisins til alls konar snúninga. Fyrirtæki kæranda sé með aðsetur að B eða í næsta nágrenni við skemmtistaðina D og E. Af þeim orsökum hefði ekki þótt óhætt að geyma bifreiðina þar að næturlagi. Hefði því einn starfsmannanna tekið að sér að geyma hana.

Vegna mistaka kæranda hefði launakostnaður 73.310 kr. verið gjaldfærður, þegar hann var greiddur. Fellst umboðsmaðurinn á það að umræddan kostnað, sem tilheyrði rekstrarárinu 1987, hefði átt að gjaldfæra og skuldfæra á því ári. Hins vegar viðurkenni hann ekki, að þau mistök eigi að þýða, að kostnaðurinn fáist alls ekki frádreginn. Afleiðing þessara mistaka sé sú, að afkoma ársins 1987 sé sýnd betri en hún raunverulega var.

Stöðumælasektir 51.280 kr. og stöðumælagjald 260 kr. séu tilkomin vegna bifreiða kæranda og starfsmanna hans þegar þeir séu að sinna verkefnum á hans vegum. Kostnaður þessi sé einkum vegna viðgerðarmanna fyrirtækisins og einnig sölumanna. Vegna mikilla samskipta við Tollstjóraembættið í Reykjavík hafi verið leigt sérstakt bílastæði við Tollstöðina.

Þá mótmælir umboðsmaðurinn túlkun skattstjóra á 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Í henni segi að skattstjóri megi beita viðurlögum en ekki að hann skuli beita þeim. Vegna breytinga sem urðu í rekstri kæranda hafi ekki tekist að ljúka framtalsgerð hans á tilsettum tíma.

Með bréfi, dags. 14. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Þó fellst ríkisskattstjóri á að greiðsla, 19.200 kr., vegna bílastæðis við Tollstöðina í Reykjavík komi til frádráttar.

Eftir öllum atvikum er fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álags og gjaldfærslu á stæðisleigu 19.200 kr., sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra um það atriði. Að öðru leyti er kröfum kæranda synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja