Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1039/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 32. gr. — 44. gr. 1. mgr. 2. ml. — 45. gr. — 53. gr. — 100. gr. 1. mgr. — 106. gr.  

Fyrning — Fyrning, sérstök — Sérstök fyrning — Sérstök fyrning á móti tekjufærslu vegna verðbreytingar — Verðbreytingarfærsla — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Fyrnanleg eign — Lausafé — Fyrnanlegt lausafé — Niðurlagsverð — Sérstök fyrning, val skattaðila á eign til fyrningar — Vanreifun — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Kærufrestur — Síðbúin kæra — Kæra, síðbúin — Vítaleysisástæður — Álag — Tilefnislaus kæra — Kæra, tilefnislaus

Málavextir eru þeir, að skattstjóri endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1989 hinn 8. desember 1989. Í kæru kæranda til skattstjóra, dags. 15. desember 1989, fór kærandi fram á gjaldfærslu sérstakrar fyrningar á móti tekjufærslu vegna verðbreytinga samkvæmt heimild þeirri, er greinir í 2. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Nam fjárhæð þessarar umkröfðu fyrningar 328.256 kr. Kærandi fór fram á, að fiskibátur í eigu hans yrði fyrndur þessari sérstöku fyrningu. Með kæruúrskurði, dags. 15. mars 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur synjunar skattstjóra voru þær, að umræddur bátur hefði þegar verið fyrndur í niðurlagsverð, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá vísaði skattstjóri til þess, að með bréfi, dags. 30. janúar 1990, hefði kæranda verið gefinn kostur á að skila nýrri fyrningarskýrslu vegna skattkæru hans, ef hann kysi að fyrna aðrar eignir umræddri sérstakri fyrningu, er þá yrði sýnt á fyrningarskýrslu. Ekki hefði borist svar við þessu bréfi.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. maí 1990, svohljóðandi:

„Þegar farið var að gera ársreikning fyrir K fyrir rekstrarárið 1989 þá kom í ljós vegna misskilnings milli starfsmanna Bókhaldsskrifstofunnar B að bréf dagsett 15.03.1990, sjá fskj. 3, var ekki kært til ríkisskattanefndar fyrir 15.04.1990.

Farið er fram á að ríkisskattanefnd úrskurði að leyfilegt verði að aukafyrna tekjufærslu vegna verðlagsbreytinga um 40% samkvæmt 44. gr. laga nr. 75/1981 kr. 328.256 og er sú upphæð færð sem aukaafskrift af stofnverði báts, sjá meðfylgjandi fyrningarskýrslu. Jafnframt er þess óskað, að ekki verði beitt heimild í 106. gr. laga nr. 75/1981 um 25% álag á skattstofna.

Meðfylgjandi eru bréf merkt fskj. 1, 2 og 3 sem skýra betur gang mála.“

Með bréfi, dags. 25. júní 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 14. apríl 1990. Kærubréf kæranda barst ríkisskattanefnd hinsvegar ekki fyrr en 7. maí 1990. Viðhlítandi skýringar hafa ekki verið gefnar á því að ekki var kært innan veitts 30 daga frests.“

Af hálfu kæranda hafa verið gefnar nokkrar skýringar á því, hvers vegna ekki var kært innan lögmælts kærufrests. Eftir öllum atvikum þykja ekki efni til frávísunar kærunnar af þessum sökum. Skattstjóri synjaði réttilega kröfu kæranda um fyrningu fyrrnefnds báts á þeim forsendum, að eign þessi stæði þegar í niðurlagsverði, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1981. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar ítrekar kærandi kröfu sína um sérstaka fyrningu bátsins og ekkert kemur fram af hans hálfu um fyrningu annarra fyrnanlegra eigna í þessu sambandi. Verður að synja kröfu kæranda um hina umkröfðu fyrningu bátsins. Með tilliti til möguleika kæranda til fyrningar annarra eigna, kysi hann það, þykir rétt að vísa þessu kæruatriði frá að svo stöddu. Ekki verður séð, að neitt tilefni sé til þess þáttar í kærunni, er lýtur að álagsbeitingu. Er því kæruatriði því einnig vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja