Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1043/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður   Lög nr. 43/1987 — 2. gr.   Reglugerð nr. 79/1988 — 12. gr.  

Sjómaður — Sjómannaafsláttur — Sjómannsstörf — Lögskráning — Fiskeldi — Laxeldi — Sjókvíaeldi — Sjóeldisfar — Bátur — Siglingamálastofnun ríkisins — Skipaskráning — Lögskýring

Málavextir eru þeir, að kærandi krafðist þess, að honum yrði ákvarðaður sjómannaafsláttur gjaldárið 1989 vegna starfa sinna á sjó við fóðrun í laxeldi hjá fyrirtækinu X, sbr. kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1989. Fram kom af hálfu kæranda, að hann hefði verið lögskráður frá 1. maí 1989 eftir að upplýst hefði verið að svo skyldi vera. Hann hefði allt árið 1988 eingöngu starfað við laxeldi hjá X hf. Með kæruúrskurði, dags. 8. desember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til B-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og 12. gr. reglugerðar nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt, með síðari breytingum.

Með bréfi, dags. 4. janúar 1990, til ríkisskattstjóra krafðist kærandi sjómannaafsláttar vegna nefndra starfa. Með bréfi, dags. 21. maí 1990, framsendi ríkisskattstjóri bréf þetta ríkisskattanefnd, með því að það hefði borist í kærufresti til hennar. Í kærunni gerir kærandi svofellda grein fyrir kæruefninu af sinni hálfu:

„Þar sem ekki var tekið tillit til starfa míns við fóðrun á sjó vegna laxeldis kæri ég álagningu fyrir árið 1988, þar sem ég tel óreiknaðan sjómannafrádrátt. Það skal tekið fram að ég hef verið lögskráður frá 1. maí 1989. Eftir að okkur var tjáð að svo skyldi vera. Allt árið 1988 stunda ég eingöngu störf við laxeldi hjá X hf.

Í bréfi frá Skattstjóra er þessari málaleitan hafnað, og leita ég því til ykkar. Tel ég óréttlátt að við sem stundum vinnu með fóðrun á sjó í öllum veðrum og heilu dagana á sjó er ég ósammála niðurstöðu Skattstjóra. Tekið skal fram réttlætisins vegna að við stundum mun meira sjó en t.d. skeljasjómenn og fá þeir fullan sjómannafrádrátt.

Í vor var talað við Skattstjóra og taldi hann eðlilegt að við fengjum sjómannaafslátt.“

Með bréfi, dags. 20. nóvember 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Gerð er krafa um að úrskurður skattstjóra sé staðfestur.

Kærandi stundar ekki sjómannsstörf í skilningi B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981 þó starf hans við laxeldisstörf krefjist notkunar báts við flutning starfsmanna og fóðurs úr landi í sjóeldiskvíar.

Bátur sá er notaður er, er 11,85 rúmlestir að stærð, nefndur vinnubátur í skrá Siglingamálastofnunar, og því ekki lagaskylda að skrá áhöfn hans ef yfirleitt er hægt að líta á stjórnendur slíks vinnutækis sem áhöfn enda ekki ráðnir til starfa sem slíkir heldur ráðnir til starfa við laxeldisstörf.“

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja