Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1067/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 16. gr. 1. og 2. mgr.  

Íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði færður til lækkunar stofnverðs annars íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði erlendis — Brottför úr landi — Brottflutningur — Heimilisfesti — Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Ótakmörkuð skattskylda — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu einstaklings — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði færður til lækkunar stofnverðs íbúðarhúsnæðis erlendis

Kröfugerð umboðsmanns kæranda fyrir ríkisskattanefnd vegna úrskurðar skattstjóra, dags. 12. mars 1990, er svohljóðandi:

„...umbjóðanda mínum er úrskurðaður útsvars- og tekjuskattsstofn kr. 906.222,00 gjaldárið 1989 vegna söluhagnaðar af íbúð að X. Eins og fram kom í gögnum þeim sem skattstjóra voru send notaði umbjóðandi minn umræddan söluhagnað til kaupa á íbúðarhúsnæði fyrir sig og börn sín í Bandaríkjunum þar sem hún býr nú. Þar með telur umbjóðandi minn að fullnægt sé skilyrðum 16. gr. laga nr. 75/1981 fyrir því að söluhagnaðurinn færist til lækkunar á stofnverði hinnar nýju íbúðar enda ekki það skilyrði að finna í greininni að keypt húsnæði sé hérlendis. Það væri raunar í fyllsta máta óeðlilegt að setja slík skilyrði sem virkuðu nánast sem átthagafjötrar. Það mundi og raska mjög möguleikum umbjóðanda míns sem er ekkja með tvö börn ef hún ætti samtímis því sem hún er að greiða af hinu nýkeypta húsnæði að greiða verulega skatta hérlendis.

Þess er því krafist að hinum kærða úrskurði verði hrundið og útsvars- og tekjuskattsstofn umbjóðanda míns 1989 ákveðinn kr. 0,00.“

Með bréfi, dags. 18. desember 1990, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja