Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 403/1991

Söluskattur 1985–1987

Lög nr. 10/1960 — 2. gr. 2. mgr. — 4. gr. d-liður — 21. gr. 2. mgr.   Reglugerð nr. 486/1982 — 14. gr. 9. tl.  

Söluskattur — Söluskattsskylda — Söluskattsskyld starfsemi — Söluskattsálag — Söluskattsundanþága — Vöruútvegun fyrir erlend skip — Lögskýring — Skattframkvæmd — Endurupptaka máls — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar

Með bréfum, dags. 13. nóvember 1989, og 14. september 1990, fer umboðsmaður kæranda fram á að ríkisskattanefnd endurupptaki frávísunarúrskurð sinn nr. 564/1989 og kveði upp nýjan úrskurð þar sem tekin verði til meðferðar efnishlið málsins í samræmi við kröfugerð þá er fram kemur í ofangreindum bréfum.

Mál þetta snýst um endurákvörðun skattstjóra á sölugjaldi fyrir söluskattstímabilin mars, júlí og ágúst árið 1985, öll tímabil ársins 1986 utan maí og öll tímabil ársins 1987. Jafnframt reiknaði skattstjóri álag á sölugjaldið skv. 2. mgr. 21. gr. söluskattslaga og er sú ákvörðun einnig kærð. Fyrir ríkisskattanefnd er aðallega gerð sú krafa af hálfu kæranda, að sölugjaldið og álagið verði fellt niður, þar sem starfsemi kæranda væri ekki söluskattsskyld en til vara að „áætlun“ skattstjóra verði lækkuð og álögðum tekjuskatti og aðstöðugjaldi breytt til samræmis við niðurstöðu úrskurðar verði ekki fallist á aðalkröfu. Starfsemi kæranda er svo lýst, að hún hafi verið fólgin í vörukaupum, aðallega matvælum, fyrir erlend skip.

Með bréfi, dags. 24. október 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Fallist er á endurupptöku og þær kröfur gerðar að kröfum kæranda verði synjað. Þjónusta sú sem um er deilt í máli þessu er ótvírætt söluskattsskyld skv. 2. mgr. 2. gr. og d lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, og er hvorki í þeim lögum né reglugerð nr. 486/1982 að finna neinar undanþágur frá þeirri skyldu.“

Eins og starfsemi kæranda er háttað og túlkun og framkvæmd undanþáguákvæðis 9. tl. 14. gr. reglugerðar nr. 486/1982, um söluskatt, þykir rétt að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja