Úrskurður yfirskattanefndar

  • Málsmeðferð
  • Skattlagningarstaður
  • Valdmörk stjórnvalda

Úrskurður nr. 774/1997

Gjaldár 1992–1994

Lög nr. 75/1981, 3. gr., 90. gr. 3. mgr.  

Kærendur fluttu til Íslands á árinu 1994 eftir að hafa dvalið erlendis frá árinu 1988. Hinn 21. maí 1996 endurákvarðaði skattstjóri Norðurlandsumdæmis eystra áður álögð opinber gjöld þeirra gjaldárin 1992, 1993 og 1994 vegna hækkunar leigutekna af íbúð þeirra á Akureyri á árunum 1991, 1992 og 1993. Kærendur héldu því fram að þar sem þau hefðu verið heimilisföst í Reykjavík eftir komu til landsins á árinu 1994, en aðgerðir skattstjórans í Norðurlandsumdæmi eystra ekki hafist fyrr en á árinu 1995, væri um valdþurrð að ræða af hálfu skattstjóra. Yfirskattanefnd féllst ekki á þessi sjónarmið kærenda og hafnaði kröfu þeirra um ómerkingu.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur fluttu til Lúxemborgar á árinu 1988 og var skráð í þjóðskrá Hagstofu Íslands að flutningurinn hefði átt sér stað 1. maí 1988. Á árinu 1994 fluttu kærendur til Íslands á ný og var skráð í þjóðskrá að heimkoman miðaðist við 1. nóvember 1994. Með bréfi, dags. 27. júní 1995, krafði skattstjóri kærendur um gögn varðandi útleigu íbúðar kærenda að … á árunum 1991, 1992 og 1993. Í kjölfar bréfaskipta gerði skattstjóri tilteknar breytingar á skattframtölum kærenda gjaldárin 1992, 1993 og 1994 með vísan til 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. bréf skattstjóra, dags. 21. maí 1996. Nánar tiltekið hækkaði skattstjóri leigutekjur kærenda á árinu 1991 um 18.333 kr., á árinu 1992 um 240.000 kr. og á árinu 1993 um 289.300 kr., að viðbættu 25% álagi á vantalda skattstofna skv. 106. gr. laga nr. 75/1981. Um rökstuðning fyrir breytingum þessum vísaði skattstjóri til fyrra bréfs síns, dags. 23. febrúar 1996.

Af hálfu kærenda var ofangreind breyting kærð til skattstjóra með kæru, dags. 10. júní 1996. Í kæru var boðað að nánari kröfugerð yrði send síðar. Með kæruúrskurði, dags. 3. september 1996, vísaði skattstjóri kærunni frá sökum vanreifunar þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist.

II.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 5. september 1996. Í kæru er gerð svofelld grein fyrir kröfum kærenda:

„Ofannefndir kærendur hafa falið mér undirrituðum að kæra til yfirskattanefndar úrskurð skattstjóra, dags. 3. september 1996, varðandi endurákvarðanir á áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárin 1992, 1993 og 1994. Umbj. mínir eru og hafa verið heimilisfastir í Reykjavík á undanförnum árum eða frá því að þau fluttu hingað út frá Luxemburg. Umbj. mínir áttu þannig lögheimili sitt í skattumdæminu Reykjavík þá þegar er skattstjórinn í Norðurlandsumdæmi eystra hóf aðgerðir sínar í máli umbj. minna. Með því að skattstjórinn í Norðurlandsumdæmi eystra var þannig að lögum ekki bær til að fjalla um skattframtöl umbj. minna nefnd ár og veita ágreiningi um þau úrlausn, er gerð sú krafa fyrir yfirskattanefnd, að endurákvarðanir skattstjóra verði felldar niður og kæruúrskurður hans ómerktur."

III.

Með bréfi, dags. 2. maí 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Kröfugerð kærenda varðar valdþurrð skattstjóra. Kærendur fluttu af landi brott 1988 og til landsins aftur 1994. Endurálagning skattstjóra varðar tekjuárin 1991, 1992 og 1993. Á þeim tíma bjuggu kærendur erlendis, en voru skattskyld hér á landi skv. 9. tölulið 3. gr. laga nr. 75/1981.

Samkvæmt 3. mgr. 90. gr. sömu laga skulu aðilar sem skattskyldir eru skv. 3. gr. telja fram og vera skattskyldir þar sem þeir eiga eignir eða hafa tekjur. Skattstjóri Norðurlandsumdæmis eystra var því bær aðili til að fjalla um skattframtöl kærenda gjaldárin 1992, 1993 og 1994, sbr. 5. tölulið 85. gr. tekjuskattslaga. Er því gerð krafa um að kröfu kærenda verði hafnað."

IV.

Af hálfu kærenda eru ekki gerðar efnislegar athugasemdir við þá endurákvörðun skattstjóra, sem mál þetta varðar, heldur er krafa kærenda um ógildingu hennar byggð á því að formlegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð skattstjóra, þ.e. að honum hafi ekki vegna valdþurrðar verið meðferð málsins heimil.

Sú hækkun skattstjóra á húsaleigutekjum kærenda, sem um er fjallað í málinu, varðar gjaldárin 1992, 1993 og 1994 vegna tekna áranna 1991, 1992 og 1993. Kærendur voru búsett erlendis umrædd tekjuár en höfðu leigutekjur af fasteign sinni að …. Báru þau því takmarkaða skattskyldu hérlendis vegna gjaldáranna 1992, 1993 og 1994, sbr. 5. og 9. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og verður kröfugerð kærenda fyrir yfirskattanefnd ekki skilin svo, að ágreiningur sé um það atriði. Hins vegar virðast kærendur byggja ómerkingarkröfu sína á því, að þar sem þau hafi verið heimilisföst í Reykjavík eftir komu til landsins á árinu 1994, en aðgerðir skattstjórans í Norðurlandsumdæmi eystra ekki hafist fyrr en á árinu 1995, nánar tiltekið með fyrirspurnarbréfi, dags. 27. júní 1995, þá sé um valdþurrð að ræða af hálfu skattstjóra þar sem kærendur áttu lögheimili í Reykjavík á umræddum tíma.

Samkvæmt 3. mgr. 90. gr. laga nr. 75/1981 skulu aðilar, sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 3. gr. sömu laga, telja fram og vera skattlagðir þar sem þeir eiga eignir eða hafa tekjur. Samkvæmt þessu og í samræmi við grundvallarreglur um verkaskiptingu stjórnvalda á staðstjórnarstigi bar undir skattstjórann í Norðurlandsumdæmi eystra, sbr. 5. tölul. 85. gr. laga nr. 75/1981, að taka umræddar skattákvarðanir. Er ómerkingarkröfu kærenda því hafnað.

Það athugist, að með hinum kærða úrskurði vísaði skattstjóri kæru kærenda frá sökum vanreifunar, þrátt fyrir að í henni hafi komið fram öldungis sambærilegur rökstuðningur og kröfugerð af hálfu umboðsmanns og í kæru til yfirskattanefndar. Var skattstjóra fullkleift að taka kæruna svo búna til efnislegrar úrlausnar þótt svo að boðuð nánari kröfugerð hafi ekki borist frá umboðsmanni kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja