Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 71/1992

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 2. tl. — 92. gr. 2. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Vantaldar tekjur — Húsaleigutekjur — Íbúðarhúsnæði — Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Rannsóknarregla — Sönnun — Sönnunarbyrði — Greiðslumiði — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda leigutaka — Viðtakandi leigugreiðslna

Málavextir eru þeir að skattstjóri krafði kæranda með bréfi, dags. 16. janúar 1989, skýringa og gagna vegna vantalinna húsaleigutekna frá A 113.895 kr. á árinu 1985, en A sendi skattstjóra greiðslumiða R2.02 með skattframtali sínu 1986 og var kærandi skráður viðtakandi greiðslunnar. Með bréfi, dags. 24. janúar 1989, gerði kærandi grein fyrir því, að hann hefði haft bústaðaskipti við B á húsinu X, þ.e. að hann hafi búið í hennar húsi, en hún hafi „hirt öll gögn og gæði af Y“ (sic). Leigugreiðslur fyrir Y hafi því runnið allar beint til hennar án milligöngu af hálfu kæranda. Með bréfi, dags. 17. febrúar 1989, ákvað skattstjóri að færa kæranda til tekna umrædda fjárhæð. Ekki hafi komið fram í bréfi hans um hvaða B væri að ræða. Af fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins yrði ekki séð að X hafi verið í eigu aðila með því nafni. Með skattframtali 1985 hefði kærandi látið fylgja rekstrarreikning vegna útleigu íbúðar að Y, á árinu 1984 og fært nettótekjur vegna þeirrar eignar í skattframtal. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands, þjóðskrá, hefði kærandi verið skráður með lögheimili að D, a.m.k. frá árinu 1981, fyrst með aðsetur í Bandaríkjunum vegna náms en síðan á D þar til hann hefði flutt að E, árið 1986. Með bréfi, dags. 27. febrúar 1989, mótmælti kærandi tekjuviðbót skattstjóra og krafðist þess að hún yrði ógilt vegna skorts á rökstuðningi af hálfu skattstjóra, enda hlyti hverjum þeim manni sem leitaði að upplýsingum um B að vera ljóst að átt væri við X í bréfi kæranda en umrætt götunúmer hefði verið prentvilla í bréfinu. Hefði starfsmanni skattstjóra verið í lófa lagið að leita þeirra skýringa sem hann teldi fullnægjandi, t.d. með símtali til kæranda. Þá taldi kærandi sig reiðubúinn að leggja fram þau gögn sem skattstjóri teldi fullnægjandi. Með kæruúrskurði, dags. 27. desember 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Kærandi hefði ekki sannað eða gert sennilegt með framlagningu gagna eða fullnægjandi rökstuðningi að tekjur af útleigu umræddrar íbúðar hefðu verið taldar fram af B, eiganda X, eða tekjurnar ættu að teljast fram af henni.

Með ódagsettu kærubréfi, mótteknu hjá ríkisskattanefnd hinn 23. janúar 1991, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Gerir hann þá kröfu, að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, þar sem kærandi hafi engar tekjur haft af útleigu íbúðar að Y á árinu 1985. Eru forsendur kæranda í kærubréfinu eftirfarandi:

„Málsatvik eru með þeim hætti að þegar kærandi kom heim frá námi í ársbyrjun 1985 fór B þess á leit við undirritaðan að hann gætti húss hennar og byggi í því meðan hún færi til ársdvalar til Bandaríkjanna. B var kunnugt um að undirritaður hafði leigt út íbúð sína að Y til ágætra leigjenda undanfarin ár (og talið leigutekjur fram til skatts). Hún taldi réttilega að mér mætti standa á sama um hvort hún fengi leigutekjur af Y og ég byggi í hennar húsi eða flytti strax að Y.

Ég varð við þessari málaleitan og gaf leigjendunum fyrirmæli um að greiða B leiguna eftirleiðis.

Það er grundvallarregla að skýringar sem borgararnir gefa yfirvöldum að viðlagðri ábyrgð að lögum teljast sannar að öðru jöfnu. Stjórnvald sem rengir slíkar skýringar ber því sönnunarbyrðina. Athygli skal vakin á að skattstjóri leitaði ekki frekari skýringar hjá kæranda fyrir uppkvaðningu úrskurðar.

Í þessu tilviki hlýtur skattstjóri t.a.m. að kalla eftir kvittunum frá leigjendum sem þá ættu að sýna mig sem viðtakanda leigugreiðslna.“

Með bréfi, dags. 7. júní 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Umræddar leigutekjur væru tvímælalaust skattskyldar, sbr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum.

Umræddar leigutekjur voru vegna íbúðar að Y, er var í eigu kæranda. Er þessu ómótmælt af hálfu kæranda. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á neitt það, er leysi hann undan skattlagningu umræddra leigutekna. Er kröfu hans því synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja