Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tvísköttunarsamningur
  • Vaxtabætur, skerðing vegna tekna

Úrskurður nr. 812/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 1. gr., 69. gr. C-liður 4. mgr. (brl. nr. 122/1993, 9. gr.)   Auglýsing nr. 19/1989, um Norðurlandasamning til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, 2. gr.  

Ákvarðaðar vaxtabætur kæranda árið 1995 sættu skerðingu vegna tekna sem hann aflaði í Svíþjóð á árinu 1994. Ákvæði tvísköttunarsamnings voru ekki talin hafa þýðingu í málinu og tekið fram í því sambandi að markmið tvísköttunarsamninga væri að koma í veg fyrir að sami aðili sætti skattlagningu í tveimur eða fleiri ríkjum, sem aðild ættu að samningi, á sama skattstofn og á sama tímabili.

I.

Málavextir eru þeir að í kjölfar bréfaskipta tók skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1995 til endurákvörðunar vegna tekna sem kærandi hafði haft í Svíþjóð og greitt skatta af þar. Í bréfi skattstjóra, dags. 13. mars 1996, sem vísað var til í endurákvörðun skattstjóra, dags. 22. apríl 1996, vísaði skattstjóri til 1. mgr. 15. gr. samnings milli Norðurlanda til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sem birtur væri í C-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsingu nr. 8/1987, og c-liðar 3. tölul. 25. gr. samningsins um aðferð til að komast hjá tvísköttun, sem skattstjóri gerði nánari grein fyrir. Í fylgiskjali með endurákvörðun skattstjóra gerði hann grein fyrir því með hvaða hætti tekjurnar í Svíþjóð hefðu áhrif á skattlagningu hér á landi í samræmi við verklagsreglur ríkisskattstjóra varðandi framkvæmd ákvæðis í samningi milli Norðurlanda til að komast hjá tvísköttun. Kom fram á fylgiskjalinu að þar sem vaxtabætur væru tekjutengdar hefðu greiðslur frá Svíþjóð áhrif á útreikning þeirra. Með úrskurði skattstjóra lækkuðu vaxtabætur kæranda úr 140.903 kr. í 107.860 kr.

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 25. júlí 1996, vegna framangreindrar endurákvörðunar, til yfirskattanefndar með kæru, dags. 8. ágúst 1996, og farið fram á að vaxtabætur verði endurreiknaðar þar sem ekki verði séð á hvaða forsendum þær hafi verið lækkaðar.

Með bréfi, dags. 20. júní 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Forsendur fyrir lækkun skattstjóra Reykjanesumdæmis á vaxtabótum kæranda, sem fram kemur í úrskurði 25. júlí 1996 eru þær, að til viðbótar uppgefnum tekjum kæranda í skattframtali ársins 1995 (dálkur 7.9) koma tekjur þær sem kærandi hafði er hann starfaði í Svíþjóð það árið. Tekjur þessar námu alls 61.617 sænskum krónum, eða alls 558.065 íslenskum krónum (miðað er við að gengi sænskrar krónu sé 9,057 íslenskar). Skv. þessu hækkar tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda í alls kr. 5.055.814.

Hámark vaxtagjalda hjá einhleypingi er kr. 411.209, og gildir sú viðmiðunartala í tilviki kæranda. Frá þeirri upphæð dragast 6% af tekjuskattsstofni, þ.e. 6% af kr. 5.055.814. Nánar sundurliðast útreikningur vaxtabótanna á þessa leið:

6% af kr. 5.055.814 eru alls kr. 303.349. Þessi upphæð dregst svo frá hámarki vaxtagjaldanna, eða kr. 411.209. Þannig fást út vaxtabætur kæranda, alls kr. 107.860.

Skv. ofansögðu gerir ríkisskattstjóri þá kröfu fyrir yfirskattanefnd, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans."

II.

Norðurlandasamningur til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 19/1989, er birt var í C-deild Stjórnartíðinda, tekur til þeirra skatta sem sérstaklega eru tilgreindir í 2. gr. samningsins, þ.e. tekjuskatts, útsvars og eignarskatts að því er Ísland varðar, og til skatta sömu eða svipaðrar tegundar sem lagðir verða á eftir undirritun samningsins til viðbótar eða í staðinn fyrir þágildandi skatta. Að þessu gættu og þegar litið er til þess markmiðs tvísköttunarsamninga að koma í veg fyrir að sami aðili sæti skattlagningu í tveimur eða fleiri ríkjum, sem aðild eiga að samningi, á sama skattstofn og á sama tímabili, verður að álykta að ákvæði nefnds samnings hafi ekki þýðingu við ákvörðun vaxtabóta manns með tilliti til tekna og eigna. Samkvæmt því leiðir af ákvæðum 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að við ákvörðun vaxtabóta reiknast skerðing vegna tekna, sbr. 4. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, af öllum tekjum manns, óháð því hvar þeirra var aflað, að frádregnum lögheimiluðum frádrætti. Samkvæmt þessu og með vísan til þess sem greinir í kröfugerð ríkisskattstjóra verður ekki annað séð en að vaxtabætur kæranda séu rétt ákvarðaðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja