Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tryggingagjald
  • Lágmarksgjaldstofn vegna reiknaðs endurgjalds

Úrskurður nr. 820/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 113/1990, 6. gr. 3. mgr. (brl. nr. 122/1993, 36. gr. b-liður)  

Talið var að skýra bæri ákvæði um lágmarksfjárhæð, sem telja skal gjaldstofn til tryggingagjalds af reiknuðu endurgjaldi, þannig að fjárhæð þessi taki mið af fullu starfi í heilt ár. Með því að ekki varð séð að starf kæranda við búrekstur á árinu 1995 gæti talist fullt starf var fallist á kröfu hans um að miða gjaldstofn tryggingagjalds við tilfært reiknað endurgjald á skattframtali.

I.

Kærð er álagning tryggingagjalds gjaldárið 1996. Málavextir eru þeir að kærandi færði sér til tekna á skattframtali 1996 reiknað endurgjald að fjárhæð 682.416 kr. vegna landbúnaðarstarfa. Reiknað endurgjald maka hans var tilgreint 120.000 kr. Við ákvörðun opinberra gjalda var kæranda ákvarðað tryggingagjald miðað við 868.224 kr. gjaldstofn. Með kæru, dags. 15. ágúst 1996, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningu gjaldsins. Kvað hann það vera mat sitt að tryggingagjald hefði einungis átt að leggja á 802.416 kr. og fór fram á leiðréttingu. Með kæruúrskurði, dags. 31. október 1996, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Vísaði skattstjóri til ákvæða 3. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með áorðnum breytingum. Samkvæmt greinargerð kæranda um reiknað endurgjald vegna tekjuársins 1995 væri það 56.868 kr. á mánuði, sem væri 2.602 kr. yfir lágmarksviðmiðun fyrir fullt starf við búrekstur í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald. Samkvæmt því væru árslaun kæranda 682.416 kr., sem væri 65.808 kr. undir lögboðnu lágmarki stofns til álagningar tryggingagjalds.

Með kæru, dags. 18. nóvember 1996, hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar. Greinir umboðsmaður kæranda svo frá að enginn ágreiningur sé um fjárhæð reiknaðs endurgjalds kæranda, sem tekið hafi mið af stærð búsins, aldri kæranda og heilsu. Hafi reiknað endurgjald hans verið yfir viðmiðunarmörkum bænda. Að sínu mati sé engin heimild til að reikna mönnum hærra tryggingagjald en reiknuð laun viðkomandi segðu til um á framtali.

Með bréfi, dags. 20. desember 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Stofn til tryggingagjalds vegna vinnu manns við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal skv. 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. 59. gr. þeirra laga. Gjaldstofninn skal þó eigi vera lægri en tiltekin fjárhæð (748.224 kr. gjaldárið 1996) miðað við heilt ár, sbr. b-lið 36. gr. laga nr. 122/1993. Ákvæðið gerir þannig ráð fyrir ákveðnum lágmarksgjaldstofni tryggingagjalds óháð reglum 59. gr. laga nr. 75/1981. Ákvæðið verður að skýra þannig að umrædd lágmarksfjárhæð taki mið af fullu starfi í heilt ár. Virðist framkvæmd þess og vera á þann veg.

Samkvæmt uppgjöri kæranda í skattskilum sínum standa hann og maki hans sameiginlega fyrir búrekstri. Nam reiknað endurgjald þeirra beggja 802.416 kr. samkvæmt skattframtali 1996. Er þessi fjárhæð undir þeirri lágmarksfjárhæð sem fram kemur í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra vegna reiknaðs endurgjalds á árinu 1995, en þar kemur fram, að ef hjón standi bæði fyrir búrekstri, skuli reiknað endurgjald nema 1.305.408 kr. sem skiptist milli hjónanna í hlutfalli við vinnuframlag hvors um sig. Síðastnefnd fjárhæð tekur mið af tekjum grundvallarbús, eða 400 ærgilda sauðfjárbúi. Samkvæmt skýrslu um bústofn kæranda er bú hans undir þessari stærð. Jafnframt liggur fyrir að kærandi hefur tilkynnt skattstjóra að hjónin bæði stundi hlutastarf við búrekstur, sbr. greinargerð um reiknað endurgjald, dags. 28. janúar 1994, sem móttekin var hjá skattstjóra þann 11. febrúar 1994.

Að öllu ofangreindu virtu verður ekki séð að starf kæranda við búrekstur á árinu 1995 geti talist fullt starf, og ákvörðun tryggingagjaldsstofns kæranda geti miðast við þá lágmarksfjárhæð sem fram kemur í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990. Er því fallist á að miða gjaldstofn við reiknað endurgjald kæranda eins og það er tilgreint á skattframtali hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja