Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Gjafir til menningarmála o.fl.

Úrskurður nr. 922/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 31. gr. 2. tölul. (brl. 122/1993, 4. gr.)   Reglugerð nr. 483/1994, 15. gr., 16. gr.  

Frádráttarbær ferðakostnaður í skattskilum kæranda, sem rak útgerð, var ákveðinn að álitum miðað við fyrirliggjandi gögn og skýringar. Kaup kæranda á gleraugum voru ekki talin frádráttarbær rekstrarkostnaður. Þá var framlag kæranda til tilgreinds hjartaþega ekki talið uppfylla lagaskilyrði fyrir frádráttarbærni frá tekjum.

I.

Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 4. júní 1996, og að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 6. júní 1996, ásamt gögnum, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 22. júlí 1996, að hann hefði lækkað tilgreinda gjaldaliði í rekstrarreikningi kæranda vegna útgerðar fyrir árið 1995 er fylgdi skattframtali hans árið 1996. Leiddu breytingar skattstjóra til lækkunar rekstrarkostnaðar um 211.260 kr. Eru allar breytingar skattstjóra í ágreiningi að undanskildum gjaldfærðum kaupum á happdrættismiðum 28.800 kr. sem skattstjóri felldi niður. Nánar eru kæruefni sem hér segir:

1. Ferðakostnaður. Gjaldfærður ferðakostnaður í rekstrarreikningi nam 104.280 kr. Undir þessum lið voru gjaldfærðar 79.240 kr. vegna innkaupaferðar samkvæmt nótu frá Flugleiðum hf., 14.660 kr. samkvæmt nótu frá sama fyrirtæki, samtals 10.380 kr. vegna veitinga samkvæmt fimm nótum frá … og fleiri veitingahúsum. Í yfirliti yfir ferðakostnað sem kærandi lagði fram kom fram að innkaupaferð hefði verið farin til Þýskalands 25. júní 1995 til að skoða vélar og spil í bátinn X. Í lok ágúst hefði verið farið til Reykjavíkur til að skoða spil og tæki í bátinn. Í yfirlitinu kom fram að eiginkona kæranda, …, fór með kæranda í Þýskalandsferðina. Með bréfi sínu, dags. 22. júlí 1996, lækkaði skattstjóri þennan lið um 96.950 kr. Skattstjóri hafnaði alfarið gjaldfærslu kostnaðar 79.240 kr. vegna innkaupaferðar, enda kæmu engin gögn fram er sýndu að vélar og spil hefðu verið skoðuð. Þá hafnaði skattstjóri gjaldfærslu 10.380 kr. samkvæmt nótum frá veitingahúsum. Ennfremur lækkaði skattstjóri um helming gjaldfærslu samkvæmt reikningi frá Flugleiðum hf. 14.660 kr., enda væri fargjald fyrir eiginkonu kæranda ekki samþykkt. Samkvæmt þessu leyfði skattstjóri til frádráttar 7.330 kr. af þessum gjaldalið.

Í greinargerð umboðsmanns kæranda, dags. 18. september 1996, í framhaldi af kæru, dags. 29. ágúst 1996, var lækkun skattstjóra á gjaldfærðum ferðakostnaði vegna innkaupaferðar mótmælt. Ekki væri ljóst hvers konar gögn skattstjóri vildi fá til sönnunar fyrir því að vél og spil hefði verið skoðuð. Tekið var fram að einungis fargjald hefði verið gjaldfært en ekki uppihaldskostnaður og gisting. Mótmælt var lækkun á ferðakostnaði vegna fargjalds eiginkonu, enda væri um það að ræða að báðir eigendur hefðu farið til að skoða spil o.fl. hjá A hf. Mótmælt var lækkun á gjaldfærslu kostnaðar vegna veitinga, enda væri aðeins gjaldfærður hluti af þeim kostnaði sem heimill væri vegna uppihalds á ferðalögum.

Með kæruúrskurði, dags. 21. október 1996, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Tók skattstjóri fram að samkvæmt upplýsingum kæranda hefði hann og eiginkona hans farið til Þýskalands vegna skoðunar á spili og vél í bátinn X. Engin gögn hefðu komið fram til til staðfestingar fullyrðingum kæranda um þennan tilgang fararinnar. Þá hefði ekki verið sýnt fram á að kostnaður vegna ferðar eiginkonu 7.330 kr. og veitingar 10.380 kr. væri rekstrarkostnaður samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og yrði að telja að hér væri um persónuleg not að ræða.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 24. október 1996, eru ítrekaðar kröfur um að fyrrgreindir gjaldaliðir vegna ferðakostnaðar verði teknir til greina. Bent er á að öll gögn vegna ferðakostnaðar hafi verið send skattstjóra án þess að komið hafi fram hvaða gögn embættið vilji fá til staðfestingar. Þess er getið í kærunni að búið sé að fjárfesta í spili sem skoðað hafi verið hjá A hf.

2. Gleraugnakostnaður. Kærandi gjaldfærði í rekstrarreikningi sínum vegna útgerðar kaup á margskiptum gleraugum 52.800 kr. samkvæmt reikningi frá …, sjóntækjafræðingi, dags. 7. janúar 1995. Skattstjóri felldi þennan gjaldalið niður, sbr. bréf skattstjóra, dags. 22. júlí 1996, á þeim forsendum að kostnaður þessi gæti ekki talist frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981 heldur væri um persónulegan kostnað kæranda að ræða. Þessa ákvörðun staðfesti skattstjóri með kæruúrskurði sínum, dags. 21. október 1996.

Kærandi krefst þess að þessi gjaldaliður verði tekinn til greina. Gerir hann grein fyrir því að hér sé verið að endurgreiða gleraugu sem tapast hafi í róðri haustið 1994. Ekki standist að mismuna mönnum eftir því hvort þeir séu launþegar eða stundi sjálfstæða starfsemi að því er varðar bætur fyrir persónulega muni sem tapist eða skemmist á vinnustað.

3. Gjaldfærð gjöf. Kærandi gjaldfærði í rekstrarreikningi sínum vegna útgerðar gjöf 15.000 kr. til tilgreinds hjartaþega vegna söfnunar til styrktar honum. Skattstjóri felldi þennan gjaldalið niður með vísan til þess að samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 615/1987, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála o.fl., veitti gjöf til einstaklings ekki rétt á frádrætti, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 21. október 1996.

Af hálfu kæranda er þess krafist að gjaldaliður þessi verði tekinn til greina þrátt fyrir það að gjöfin hafi ekki runnið í gegnum líknarfélag, enda sé sannanlega um líknarmálefni að ræða.

II.

Með bréfi, dags. 24. október 1997, eru af hálfu ríkisskattstjóra gerðar svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Vegna tilvitnunar skattstjóra í reglugerð nr. 615/1987, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála vill ríkisskattstjóri þó benda á, að reglugerðin féll úr gildi við gildistöku reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Rétt hefði því verið að vísa til 15.–18. gr. reglugerðar nr. 483/1994."

III.

Um kærulið 1: Ekki þykir sérstök ástæða til að draga í efa að tilgangur með umræddri ferð til Þýskalands hafi verið að skoða vél og spil í bátinn X. Þykir því mega fallast á að kostnaður vegna þessarar ferðar teljist frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Upplýst er að eiginkona kæranda fór umrædda ferð með kæranda og gjaldfærður kostnaður var einnig vegna hennar. Ekki verður talið að sá hluti kostnaðarins geti talist frádráttarbær rekstrarkostnaður, enda starfar eiginkonan ekki við reksturinn og kærandi hefur ekki rökstutt að þátttaka eiginkonunnar hafi haft þýðingu varðandi tilgang fararinnar. Þá þykir ekki með öllu unnt að daufheyrast við kröfu kæranda um gjaldfærslu dvalarkostnaðar vegna hans sjálfs í Reykjavík, sbr. fyrirliggjandi nótur. Frádráttarbær kostnaður vegna fyrrgreindra liða verður ekki ákveðinn með fullri nákvæmni og þykir því rétt að ákveða hann að álitum vegna kæranda sjálfs, miðað við fyrirliggjandi gögn og skýringar. Þykir rétt að hækka gjaldfærðan ferðakostnað um 60.000 kr. frá því sem skattstjóri ákvað.

Um kærulið 2: Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta um þetta kæruatriði, enda verður að telja að hér sé um persónulegan kostnað kæranda að ræða.

Um kærulið 3: Samkvæmt 2. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, má draga frá tekjum af atvinnurekstri einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,5% af tekjum samkvæmt B-lið 7. gr. á því ári sem gjöf er afhent. Fjármálaráðherra ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið. Eins og fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra giltu um þetta rekstrarárið 1995 ákvæði 15.–18. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Í 15. gr. reglugerðarinnar eru sett skilyrði fyrir frádrætti vegna gjafa. Skal framteljandi leggja fram móttökukvittun með framtali sínu frá stofnun, sjóði eða félagi sem fellur undir 16. gr. reglugerðarinnar. Viðkomandi stofnun, sjóður eða félag skal hafa sett sér skipulagsskrá, lög eða samþykktir yfir starfsemi sína með nánar tilgreindri undantekningu. Í 16. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um málaflokka samkvæmt 15. gr., þ. á m. hvers konar viðurkennda líknarstarfsemi, er telst m.a. bygging og rekstur sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, elliheimila, vöggustofa, barnaheimila, stofnana fyrir drykkjusjúklinga og lamaða og fatlaða og annarra hliðstæðra stofnana. Hér til teljast ennfremur slysavarnir á landi, sjó og lofti.

Samkvæmt framangreindum ákvæðum um skilyrði frádráttar vegna gjafa þykir ljóst að framlag kæranda til tilgreinds hjartaþega uppfyllir ekki skilyrði fyrir frádráttarbærni frá tekjum. Verður því að hafna kröfu kæranda um þetta kæruatriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja