Úrskurður yfirskattanefndar

  • Brottflutningur úr landi
  • Atvinnuleysisbætur

Úrskurður nr. 1008/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 70. gr. 2. mgr.   Samningur um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993  

Kærandi fékk atvinnuleysisbætur hér á landi í þrjá mánuði eftir brottför til Danmerkur vegna atvinnuleitar á grundvelli sérstakra reglna samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum). Fallist var á að taka tillit til þessara aðstæðna við ákvörðun dvalardaga samkvæmt 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi fluttist úr landi á árinu 1995 og var álagningu hagað í samræmi við 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og miðað við 263 dvalardaga í þeim efnum. Meðal tekna kæranda voru atvinnuleysisbætur 150.062 kr. Í framhaldi af kæru, dags. 26. ágúst 1996, var greint frá því af hálfu kæranda að sótt hefði verið um atvinnuleysisbætur 30. ágúst 1995 eftir uppsögn úr starfi. Kærandi hefði síðan farið í atvinnuleit til Danmerkur og sótt um atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði meðan hann væri ytra. Kærandi hélt því fram að honum bæri persónuafsláttur hér á landi meðan hann væri á atvinnuleysisbótum hér á landi. Var vísað til ákvæða EES-samningsins þess efnis að fólk ætti rétt á atvinnuleysisbótum í heimalandi sínum í þrjá mánuði meðan það væri í atvinnuleit í öðru EES ríki. Svo virtist sem skattstofan hefði ekki áttað sig á því að eftir að kærandi flutti lögheimili sitt til Danmerkur 19. september 1995 og fór utan í atvinnuleit, að hún var á íslenskum atvinnuleysisbótum sem ekki ætti að greiða skatt af.

Með kæruúrskurði, dags. 9. desember 1996, tók skattstjóri fram að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 hefði verið miðað við að tekjur kæranda hefðu allar fallið til fyrir brottflutningsdag 20. september 1995. Eins og fram kæmi í kæru hefði kærandi notið atvinnuleysisbóta eftir brottflutning af landinu. Bæri kærandi því takmarkaða skattskyldu af þeim tekjum samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en um álagningu vegna þeirra tekna giltu reglur 1. mgr. 2. tölul. 71. gr. laganna, þ.e. 20% tekjuskattur án persónuafsláttar. Af atvinnuleysisbótum alls 150.062 kr. bæri kærandi takmarkaða skattskyldu af 118.730 kr., þ.e. 150.062/91 dagur x 72 dagar.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 9. janúar 1997. Er því mótmælt að ekki skuli tekið tillit til persónuafsláttar við skattlagningu umræddra atvinnuleysisbóta. Bæturnar hefðu verið greiddar fyrir tímabilið 20. september 1995 til 19. desember 1995, sbr. launamiða og skattkort. Vísað er til fyrrgreindra ákvæða EES-samningsins. Atvinnuleysistryggingasjóður hefði nýtt skattkort kæranda fyrir umrædda þrjá mánuði 62.921 kr.

II.

Með bréfi, dags. 12. september 1997, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Eftir atvikum er fallist á kröfu kæranda."

III.

Kærandi hefur lýst því að hann hafi fengið atvinnuleysisbætur hér á landi í þrjá mánuði eftir brottför til Danmerkur vegna atvinnuleitar á grundvelli sérstakra reglna samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum). Krafa kæranda verður að grundvallast á því að tekið verði tillit til þessara aðstæðna við ákvörðun dvalardaga samkvæmt 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981. Eftir öllum atvikum og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja