Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tryggingagjald
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 42/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 113/1990, 1. gr., 10. gr. 3. mgr., 11. gr., 12. gr., 13. gr. 1. mgr., 14. gr.   Lög nr. 45/1987, 1. gr.   Lög nr. 30/1992, 2. gr.  

Kæruefni máls þessa laut að skilum á tryggingagjaldi í staðgreiðslu á árinu 1995 og uppgjöri þeirra skila gagnvart álögðu tryggingagjaldi. Að virtum starfsskyldum skattstjóra samkvæmt lögum um tryggingagjald taldi yfirskattanefnd að honum hefði borið að gæta að því við álagningu tryggingagjalds kæranda að samræmi væri milli staðgreiðsluskila og álagningarinnar. Þessa hefði skattstjóri ekki gætt þrátt fyrir ábendingu í kæru kæranda til hans. Var kæruúrskurður skattstjóra því felldur úr gildi.

I.

Málavextir eru þeir að við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 var kæranda ákvarðað tryggingagjald að fjárhæð 33.531 kr. Með kæru, dags. 31. júlí 1996, kærði umboðsmaður kæranda álagningu tryggingagjaldsins. Í kærunni kom fram að kærandi hefði verið í hjúskap á árinu 1995 og þau hjónin hefðu staðið sameiginlega að búskap til 1. september 1995. Tryggingagjaldi að fjárhæð 73.420 kr. hefði verið skilað í staðgreiðslu sameiginlega fyrir bæði, en í nafni eiginmannsins. Vegna skilnaðar að borði og sæng sé álagning sjálfstæð á hvort hjóna um sig. Krafðist umboðsmaðurinn þess að 36.710 kr., helmingur þess tryggingagjalds sem skilað hefði verið í nafni eiginmanns kæranda, yrði talið staðgreitt tryggingagjald kæranda.

Með bréfi, dags. 23. ágúst 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda um þá leiðréttingu á álagningu tryggingagjalds gjaldárið 1996 að það væri lækkað í 16.532 kr., en komið hefði í ljós að stofn til tryggingagjalds hefði verið færður í rangan gjaldflokk.

Með kæruúrskurði, dags. 27. september 1996, vísaði skattstjóri kæru í máli þessu frá sem tilefnislausri. Hinn 23. ágúst 1996 hefði leiðrétting verið gerð á gjaldflokki og álagning væri í samræmi við lög.

Með kæru, dags. 2. október 1996, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og ítrekað fyrri kröfur. Krefst hann jafnframt skýringa á því hvað orðið hafi um þá fjárhæð sem hann kveður hafa verið innta af hendi í staðgreiðslu, þ.e. 73.420 kr. Umboðsmaðurinn tekur fram að frávísun skattstjóra sé óskiljanleg því kæran hafi ekki varðað gjaldflokk tryggingagjalds heldur það að gjaldið hafi verið tvígreitt.

Með bréfi, dags. 29. nóvember 1996, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Í kærunni til yfirskattanefndar krefst umboðsmaður kæranda þess að hún fái helming af því tryggingagjaldi sem hún og fyrrum eiginmaður hennar greiddu á árinu 1995 vegna launa þess árs. Af kærunni verður eigi ráðið að mótmælt sé sem slíkri álagningu tryggingagjalds, heldur aðeins því að ekki hafi verið tekið tillit til framangreindrar greiðslu við álagningu tryggingagjalds á kæranda viðkomandi gjaldár.

Þar sem úrskurðarvald yfirskattanefndar nær einungis til ákvörðunar á sköttum og gjöldum, sbr. 2. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd með síðari breytingum, en ekki greiðslna á þeim eða greiðslufyrirkomulags þeirra, krefst ríkisskattstjóri þess að kærunni verði vísað frá.“

II.

Í máli þessu er út af fyrir sig ekki ágreiningur um álagningu tryggingagjalds á kæranda gjaldárið 1996. Kæruefni máls þessa varðar hins vegar skil á tryggingagjaldi í staðgreiðslu á árinu 1995 og uppgjör þeirra skila gagnvart álögðu tryggingagjaldi. Er kæran borin fram á þeim grundvelli að skilum kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar, sem höfðu með höndum sameiginlegan búrekstur hluta ársins 1995, á tryggingagjaldi í staðgreiðslu það ár, hefði verið áfátt að því leyti að skilin hefðu verið í nafni eiginmanns kæranda en vegna beggja rekstraraðilanna. Hefði þetta leitt til þess að við innheimtu tryggingagjalds gjaldárið 1996 hefði ekki verið tekið tillit til staðgreiðslu tryggingagjalds vegna reiknaðs endurgjalds kæranda. Svo sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar sinnti skattstjóri kæruefni þessu í engu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, skal gjald þetta innheimt samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Er þar um að ræða bráðabirgðagreiðslu tryggingagjalds á tekjuári, sbr. 1. gr. laga nr. 45/1987, sbr. lög nr. 111/1990. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 113/1990 fer um skil tryggingagjalds á staðgreiðsluári eftir ákvæðum laga nr. 45/1987, að því leyti sem ekki er á annan hátt fyrir mælt í fyrrnefndu lögunum. Sérstök álagning tryggingagjalds fer fram að liðnu tekjuári, sbr. ákvæði í V. kafla laga nr. 113/1990, einkum 12. gr. og 14. gr. laganna, sbr. og 1. gr. laganna.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 113/1990 er mælt fyrir um það verkefni skattstjóra, sem sinna skal í tengslum við álagningu tryggingagjalds, eftir því sem ráðið verður af stöðu ákvæðisins innan V. kafla laganna, að kanna skil þeirra sem greiða hafi átt tryggingagjald, m.a. með samanburði við laun í staðgreiðslu, launaframtöl, launamiða, skattframtöl, ársreikninga og önnur gögn sem fyrir hendi eru. Skattstjórar skulu síðan leiðrétta það sem áfátt kann að reynast og ákvarða vangreitt tryggingagjald og senda tilkynningu þar um til gjaldanda og innheimtumanns.

Ágreiningsmál um innheimtu opinberra gjalda falla ekki undir valdsvið yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Því ber að vísa frá yfirskattanefnd því erindi kæranda, sem fram kemur í kæru til nefndarinnar, að upplýst verði um ráðstöfun staðgreidds tryggingagjalds í nafni fyrrverandi eiginmanns kæranda staðgreiðsluárið 1995, enda varðar það atriði ekki álagningu tryggingagjalds kæranda. Að virtum starfsskyldum skattstjóra samkvæmt tilvitnuðu ákvæði í 13. gr. laga nr. 113/1990 verður hins vegar að telja að honum hafi borið að gæta að því við álagningu tryggingagjalds kæranda að samræmi væri milli staðgreiðsluskila og álagningarinnar. Þessa gætti skattstjóri ekki þrátt fyrir ábendingu í kæru kæranda.

Svo sem mál þetta liggur fyrir þykir því rétt að fella kæruúrskurð skattstjóra úr gildi og leggja fyrir hann að taka kæru, dags. 31. júlí 1996, til nýrrar meðferðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja