Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Reiknað endurgjald
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 58/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 95. gr. 1. mgr. 3. málsl., 96. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr.  

Yfirskattanefnd ómerkti breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1996 með því að skattstjóri hefði hvorki gætt rannsóknarreglu né lögfests andmælaréttar kæranda við meðferð málsins. Talið að skattstjóra hafi borið að fara með breytingu sína eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 en ekki 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi færði sér til tekna sem launatekjur í kafla 7.1 í tekjuhlið skattframtals síns árið 1996 greiðslu frá X að fjárhæð 346.124 kr.

Með bréfi, dags. 24. júlí 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann liti svo á að umræddar tekjur frá X að fjárhæð 346.124 kr. bæri að telja sem tekjur af eigin atvinnurekstri, er væru skattskyldar samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981 og ættu að færast á rekstrarreikning, sbr. 91. gr. laga þessara, enda væri greiðslan frá X tilgreind á launamiða sem verktakagreiðsla. Þá tók skattstjóri fram að hann hefði ákvarðað kæranda reiknað endurgjald vegna starfa við eigin atvinnurekstur að fjárhæð 346.124 kr., sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 59. gr. laga nr. 75/1981. Endurgjald þetta væri gjaldfært á rekstrarreikningi. Þá væri stofn til tryggingagjalds ákvarðaður 346.124 kr., sbr. 4. og 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 8. ágúst 1996. Gerð var grein fyrir því að kærandi hafi starfað m.a. við upplestur hjá X á árinu 1995 og einu launatekjur kæranda á því ári væru vegna þeirra starfa. Þrátt fyrir það að tekjur þessar væru tilgreindar í reit 06 á launamiða væru alls ekki um verktakagreiðslur að ræða. Eins og fram kæmi í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 7. maí 1990, vegna virðisaukaskatts af auglýsingastarfsemi, væru „greiðslur til manna, sem fá aðstöðu til verks ásamt aðstoð frá launuðum starfsmönnum atvinnurekenda og þurfa sjáanlega ekki að hafa neinn kostnað við verkið, launagreiðslur, en ekki greiðslur til verktaka. Öðru máli gegnir um þá aðila sem taka að sér verkefni og leggja fram tæki, húsnæði eða annast aðra aðstöðusköpun og bera fjárhagslega áhættu vegna starfsemi sinnar. Greiðslur til slíkra aðila eru í eðli sínu verktakagreiðslur“. Umboðsmaðurinn tók fram að í tilviki kæranda hefði hann fengið aðstöðu til verks hjá X ásamt aðstoð frá launuðum starfsmönnum þess og hefði kærandi engan kostnað haft af verkinu. Tekjurnar hefðu því verið færðar í skattframtalið sem laun en ekki á rekstrarreikning.

Með kæruúrskurði, dags. 4. febrúar 1997, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur skattstjóra voru svohljóðandi:

„Starfsemi kæranda, sem felst í Y, er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 12. tl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Kærandi vísar til álits ríkisskattstjóra dags. 7. maí 1990, en í því bréfi koma fram svör varðandi starfsemi auglýsingastofa, þ.m.t. um stöðu leikara, þula, tónlistarmanna, módela og myndskreytingarmanna. Að mati skattstjóra eru málsatvik ekki með þeim hætti að fallist verði á að þau sjónarmið sem fram koma í bréfi ríkisskattstjóra taki til starfsemi kæranda hjá X eða leiði til þess að staða kæranda gagnvart X verði sjálfkrafa skilgreind sem staða launþega.

Kærandi fékk greitt sem verktaki frá X á árinu 1995 alls kr. 346.124 og má vera ljóst að þær greiðslur hafi verið byggðar á gagnkvæmu samkomulagi kæranda og X. Ekkert hefur komið fram um að kærandi hafi mótmælt því fyrirkomulagi og krafist þess að X hagaði greiðslum og afdrætti af þeim, svo sem staðgreiðslu opinberra gjalda, tillög í lífeyrissjóð og aðrar lögboðnar greiðslur, eins og um væri að ræða tekjur launþega. Kærandi hefur ennfremur ekki lagt fram, til stuðnings kröfu sinni, gögn sem varða og tengjast störfum hennar hjá X og skýrt gætu eðli þeirra greiðslna sem hér um ræðir og þá sýnt fram á að fyrirliggjandi upplýsingar frá X séu rangar.“

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 3. febrúar 1997, og boðað að kröfugerð yrði send síðar. Með bréfi, dags. 30. maí 1997, lagði umboðsmaður kæranda fram kröfugerð sína. Er þess krafist „að fallið verði frá breytingu skattstjóra á framtali umbjóðanda okkar og að tekjur kæranda séu færðar sem launatekjur en ekki verktakatekjur“. Vísað er til rökstuðnings í kæru til skattstjóra, dags. 8. ágúst 1996.

III.

Með bréfi, dags. 3. október 1997, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Í málinu er deilt um hvort greiðslur sem kærandi fékk frá X, taldar fram á skattframtali 1996, séu verktakagreiðslur eða launþegagreiðslur.

Við ákvörðun þess hvort starfsmenn teljast verktakar eða launþegar í skattalegu tilliti, ræður úrslitum eðli og einkenni starfsins og starfssambands kæranda og starfsmanns hans (sic).

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum bendir umrætt vinnusamband frekar til þess að vera launþegasamband heldur en verktakasamband og leggur ríkisskattstjóri því til að fallist verði á kröfu kæranda í máli þessu.“

IV.

Eins og fyrr segir framkvæmdi skattstjóri hina kærðu breytingu á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt því hefur skattstjóri talið að óyggjandi upplýsingar lægju fyrir um hið umdeilda atriði sem var starfssamband kæranda við X. Í þeim efnum byggði skattstjóri einvörðungu á launauppgjöf stofnunarinnar. Í þessu sambandi verður að líta til þess að í breytingu skattstjóra fólst annars vegar að starf kæranda teldist atvinnurekstur og hins vegar ákvörðun um reiknað endurgjald kæranda, þ.m.t. fjárhæð þess. Eins og sakarefninu var farið verður hvorki talið að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en skattstjóri tók hina umdeildu ákvörðun sína með bréfi, dags. 24. júlí 1996, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né að staðist hafi að kærandi fengi ekki neytt andmælaréttar síns áður en breytingin var ákveðin, sbr. 13. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu verður að telja að skattstjóra hafi borið að fara með hina umdeildu breytingu eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, teldi hann ástæðu til hennar, að fullnægðri fyrrgreindri rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu verður að ómerkja breytingu skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja