Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðaviðskipti
  • Söluhagnaður lausafjár
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 90/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 15. gr., 96. gr. (brl. nr. 145/1995, 16. gr.)   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr.  

Skattstjóri færði kæranda til tekna í skattframtali ætlaðan hagnað af bifreiðaviðskiptum. Yfirskattanefnd féllst á þau rök kæranda að skattstjóra hefði borið að sjá til þess að málið væri betur upplýst, eftir atvikum með því að krefja kæranda um uppgjör og útreikning söluhagnaðar bifreiða, áður en hann boðaði kæranda hina umdeildu tekjufærslu, og gerði sundurliðaða grein fyrir fjárhæð ætlaðs skattskylds söluhagnaðar, enda yrði ekki séð að kæranda væri tryggður fullnægjandi andmælaréttur nema þessa hefði verið gætt. Voru breytingar skattstjóra m.a. af þeim sökum felldar úr gildi.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kærenda árið 1996 fylgdi ársreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda, A, við bílasölu. Þá var í greinargerð um eignabreytingar í skattframtalinu gerð grein fyrir kaupum og sölu bifreiða. Samkvæmt greinargerðinni voru keyptar fimm bifreiðar á árinu 1995, þar af tvær fluttar inn, fyrir samtals 5.381.882 kr. og seldar sex bifreiðar fyrir samtals 6.565.000 kr. Til eignar í árslok 1995 voru tilfærðar þrjár bifreiðar samkvæmt skattframtali samtals að verðmæti 4.571.681 kr. Ekki var gerð grein fyrir söluhagnaði vegna þessarar bifreiðaviðskipta eða slíkur hagnaður tekjufærður í skattframtalinu.

Með bréfi, dags. 23. janúar 1997, boðaði skattstjóri kærendum tekjufærslu á söluhagnaði að fjárhæð 408.647 kr. vegna seldra bifreiða á árinu 1995 með vísan til 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tók skattstjóri fram að komið hefði í ljós töluverður hagnaður af bifreiðaviðskiptum. Um væri að ræða kaup og sölu samtals sex bifreiða og væru tvær þeirra innfluttar. Til þess væri litið að kærandi, A, stundaði sjálfstæða starfsemi sem bifreiðasali.

Í bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 5. febrúar 1997, var þess krafist að fallið yrði frá fyrirhugaðri tekjufærslu söluhagnaðar, enda féllu umrædd bifreiðaviðskipti undir ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Ekki væri eðlilegt að kærandi gyldi fyrir það að starfa sem bifreiðasali. Í bréfinu var fjallað um einstakar bifreiðasölur. Varðandi bifreiðina X, er seld var 11. nóvember 1995 fyrir 2.300.000 kr., var tekið fram að hún hefði verið flutt inn til einkanota frá Bandaríkjunum seinni hluta árs 1993. Kostnaðarverð bifreiðarinnar hefði verið 1.590.317 kr. Ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 ættu tvímælalaust við um bifreið þessa, enda hefði hennar hvorki verið aflað til nota í atvinnurekstri né í þeim tilgangi að selja hana aftur með hagnaði. Á þessum árum hefði kærandi, A, ekki stundað innflutning á notuðum bifreiðum í atvinnuskyni. Að því er snertir bifreiðina S, sem seld var 27. júní 1995 fyrir 1.400.000 kr., þá hefði hún verið keypt í september 1994 fyrir 1.600.000 kr. Hluti af söluandvirðinu hefði verið greiddur með bifreiðinni Y, metinni við 750.000 kr. Sú bifreið hefði síðan verið seld fyrir 800.000 kr. Hluti af söluverði þeirrar bifreiðar hefði verið greiddur með bifreiðinni B sem metin hefði verið á 350.000 kr. Síðastnefnd bifreið hefði síðan verið seld á 350.000 kr. Eðlilegt væri því að telja að söluandvirði bifreiðarinnar S hefði verið 1.450.000 kr. Jafnvel þótt ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 ættu ekki við um S ættu þau viðskipti ekki að valda hækkun tekjuskatts þar sem bifreiðin hefði verið seld með 150.000 kr. tapi. Þá var vikið að bifreiðinni D, sem seld var 7. desember 1995 fyrir 1.700.000 kr., en flutt hafði verið inn skömmu áður og var kostnaðarverð bifreiðarinnar 1.630.201 kr. Söluhagnaður vegna þessarar bifreiðar væri 69.799 kr. Bifreiðin E hefði verið seld fyrir 15.000 kr. á árinu 1995 en keypt fyrir 100.000 kr. á árinu 1994. Sölutap næmi því 85.000 kr. Tekið var fram að samkvæmt þessu hefðu í raun aðeins fjórar bifreiðar verið seldar á árinu 1995. Gerð var athugasemd við það í bréfinu að ekki kæmi fram af hálfu skattstjóra hvernig fjárhæð meints skattskylds söluhagnaðar væri fengin.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 25. febrúar 1997, ákvarðaði skattstjóri hina boðuðu breytingu, tekjufærði söluhagnað vegna bifreiðaviðskipta 408.647 kr. og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kærenda gjaldárið 1996 í samræmi við breytinguna. Tók skattstjóri fram að ekki yrði annað séð en að bifreiðaviðskiptin féllu undir 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Í úrskurði skattstjóra sagði m.a. svo:

„Skattstjóri getur ekki fallist á að bifreiðaviðskipti gjaldenda geti fallið undir 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Það er augljóst að maður með mikla þekkingu á bílamarkaðinum er betur í stakk búinn til að meta hagstæð viðskipti en einhver sem ekki stundar bifreiðaviðskipti nema endrum og sinnum. Bent er á umfangsmikil bifreiðaviðskipti gjaldenda undanfarin ár og verður ekki annað séð en að tilgangur með þeim hafi verið að hagnast á viðskiptunum. Með hvaða hætti menn selja bifreiðir er undir þeim sjálfum komið, hvort þeir taki aðra bifreið upp í kaupverðið eða selja beinni sölu. Markmiðið með uppítöku er væntanlega það að menn telja sig fá hærra verð fyrir bifreiðina með þeim hætti. Eins getur verið um minni áhættu að ræða þar sem mismunur á söluverði og uppítökuverði er oftast greiddur fljótlega eða jafnvel staðgreiddur. Markmiðið er væntanlega það að fá sem hæst verð fyrir bifreiðina á endanum. Það er einnig líklegt að maður sem stundar bifreiðaviðskipti hafi fregnir af möguleikum á innflutningi bifreiða frá öðrum löndum jafnvel þótt hann stundi ekki slíkan innflutning í stórum stíl sjálfur.“

II.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 25. mars 1997. Gerðar eru svofelldar kröfur: „Þess er krafist að endurákvörðun skattstjóra á áður álögðum opinberum gjöldum umbjóðanda míns gjaldárið 1996 verði felld úr gildi en til vara að hún verði lækkuð verulega.“ Nánar er kröfugerðin á þá lund að söluhagnaður vegna sölu bifreiðarinnar X teljist falla undir 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Í þessu sambandi er tekið fram að eins og atvikum sé háttað sé í raun verið að skattleggja söluhagnað af þessari bifreið. Miðað við reikniaðferðir skattstjóra nemi söluhagnaður af bifreiðinni 628.433 kr. og því sé ljóst að önnur bifreiðaviðskipti komi nær eingöngu til lækkunar á þessum söluhagnaði. Því sé það lykilatriði í málinu hvort ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 taki til hagnaðar vegna sölu á X, enda verði ekki um neinn söluhagnað að ræða verði á það fallist.

Að því er varðar forsendur skattstjóra fyrir ákvörðun hans um skattskyldu söluhagnaðarins er bent á það í kærunni að kærandi, A, hafi gert fulla grein fyrir þeim bifreiðaviðskiptum sem hann hafi ástundað í hagnaðarskyni. Þau bifreiðaviðskipti hafi alla tíð verið tilgreind í rekstrarreikningi og af söluhagnaði af þeim hafi verið greiddur virðisaukaskattur og tekjuskattur. Bifreiðaviðskipti sem tilgreind hafi verið í persónuframtali hafi verið vegna bifreiða til einkanota. Að því er varðar uppítökur bifreiða er sjónarmiðum skattstjóra mótmælt, enda sé alkunnugt að slíkt stafi af illri nauðsyn. Því er sérstaklega mótmælt að bifreiðaviðskipti undanfarin ár hafi verið umfangsmikil og gerð í hagnaðarskyni. Að frátalinni bifreiðinni X hafi enginn hagnaður verið af tilgreindum bifreiðaviðskiptum í skattframtali árið 1996. Þvert á móti hefði verið sölutap í flestum tilfellum. Hefðu viðskiptin verið færð í rekstri hefðu þau í flestum tilfellum leitt til lækkunar á skattskyldum tekjum.

Í kærunni er tekið fram að þrátt fyrir að kærandi, A, sé bílasali verði að gera ráð fyrir því að hann kaupi og selji bíl til einkanota. Ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 eigi við um þær bifreiðar. Í þessu sambandi er á það bent að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 7/1980 komi fram að þótt sönnunarbyrðin fyrir því hvort 2. mgr. 15. gr. eigi við hvíli á gjaldanda geti skattyfirvöld ekki gert strangar kröfur í þessum efnum. Meðal þeirra atriða sem hafi áhrif á sönnunarmatið séu þau not sem skattaðili hafi haft lausafénu á eignartímanum. Kærendur hafi haft veruleg not af umræddri bifreið, enda hafi hún verið í eigu þeirra í tvö ár, sbr. og akstur bifreiðarinnar samkvæmt RSK 4.03. Þá er því borið við að útreikningur söluhagnaðar eftir svo langan eignartíma hljóti að hvíla á veikum grunni þar sem verulegur kostnaður hljóti að falla til.

III.

Með bréfi, dags. 23. maí 1997, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Eins og fram hefur komið var gerð grein fyrir umræddum bifreiðaviðskiptum í greinargerð um eignabreytingar í skattframtali kærenda árið 1996 og lá enginn útreikningur söluhagnaðar fyrir af hendi kæranda, A, enda var viðhorf hans það að skattfrelsisákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, tæki til hugsanlegs söluhagnaðar. Skattstjóri leit svo á að bifreiðaviðskiptin féllu í heild sinni undir skattskyldu samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 og tiltók þegar í bréfi sínu, dags. 23. janúar 1997, að fjárhæð skattskylds söluhagnaðar næmi 408.647 kr. Ekki gerði skattstjóri neina grein fyrir útreikningi sínum á söluhagnaði þessum. Samkvæmt gögnum málsins, þ. á m. vinnugögnum skattstjóra, fékk skattstjóri þessa fjárhæð svo: Af bifreiðinni X reiknaðist söluhagnaður að fjárhæð 628.418 kr., af bifreiðinni S reiknaðist sölutap að fjárhæð 251.360 kr., af bifreiðinni Y reiknaðist söluhagnaður að fjárhæð 50.000 kr., af bifreiðinni D reiknaðist söluhagnaður 69.799 kr. og af bifreiðinni E reiknaðist sölutap að fjárhæð 88.210 kr.

Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 5. febrúar 1997, var m.a. gerð athugasemd við það að ekki kæmi fram af hálfu skattstjóra hvernig fjárhæð skattskylds söluhagnaðar væri fundin. Verður að taka undir það með umboðsmanni kærenda að eins og málið lá fyrir og sakarefninu var háttað var nauðsynlegt að skattstjóri sæi til þess að málið væri betur upplýst, eftir atvikum með því að krefja kæranda, A, um uppgjör og útreikning söluhagnaðar bifreiða, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en hann boðaði hina umdeildu tekjufærslu, og gerði sundurliðaða grein fyrir fjárhæð ætlaðs skattskylds söluhagnaðar, enda verður ekki séð að kæranda væri tryggður fullnægjandi andmælaréttur nema þessa væri gætt, sbr. 96. gr. laga nr. 75/1981 og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er það við málsmeðferð skattstjóra að athuga að í úrskurði hans um endurákvörðun, dags. 25. febrúar 1997, er á því byggt að kærandi hafi stundað umfangsmikil bifreiðaviðskipti undanfarin ár. Nánar er ekki fjallað um þetta og ekki kom þessi forsenda fram í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 23. janúar 1997. Að þessu leyti hefur skattstjóri einnig farið á svig við framangreindar meginreglur stjórnsýsluréttar. Ennfremur er sá annmarki á málsmeðferð skattstjóra að í bréfi hans, dags. 23. janúar 1997, þar sem hin kærða breyting er boðuð, er tekið fram að andmæli skuli hafa borist innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins, enda þótt mælt sé fyrir um það í 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995, að skattstjóri skuli veita skattaðila a.m.k. 15 daga frest, frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar, til að tjá sig skriflega um efni máls og leggja fram viðbótargögn áður en úrskurður er kveðinn upp.

Að því virtu, sem að framan greinir um ágalla á meðferð skattstjóra á máli þessu, og þar sem kærandi, A, hefur leitt nokkrar líkur að því að þrátt fyrir starf sitt, hafi bifreiðarinnar X ekki verið aflað í því skyni að selja hana aftur með hagnaði, sbr. áskilnað 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, er hin kærða breyting skattstjóra felld úr gildi og krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja