Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur á móti ökutækjastyrk
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 441/2000

Gjaldár 1999

Skattmat fyrir tekjuárið 1998   Skattmat í staðgreiðslu árið 1998   Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul.  

Í málinu var deilt um ákvörðun skattstjóra um að fella niður tilfærðan frádrátt á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 1999. Skattstjóri taldi að svonefnd 2.000 km regla um að þeim, sem fá greitt samkvæmt kílómetragjaldi fyrir 2.000 km akstur eða minna, sé heimilt að gera einungis grein fyrir akstrinum og mótteknum greiðslum, gilti ekki um kæranda þar sem greiðslur til hans hefðu miðast við sérstakt gjald samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Yfirskattanefnd hafnaði framangreindu viðhorfi með vísan til þess að þær fjárhæðir, sem væri getið um sem hámark kostnaðar bæði samkvæmt almennu og sérstöku gjaldi í skattmati ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 1998, væru innan viðmiðunarmarka þeirra sem væri forsenda fyrir því að aðili gæti notað umrædda 2.000 km reglu. Af þessum sökum taldi nefndin að fallast bæri á kröfu kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi færði 47.058 kr. ökutækjastyrk til tekna í reit 22 í skattframtali árið 1999 og sömu fjárhæð til frádráttar í reit 32. Í ökutækjaskýrslu (RSK 3.04), sem fylgdi framtalinu, voru tilgreindar 12.510 kr. í ökutækjastyrk frá A vegna 300 km aksturs, 12.510 kr. í ökutækjastyrk frá B fyrir 300 km akstur og 22.038 kr. í ökutækjastyrk frá C vegna 540 km aksturs eða samtals 47.058 kr. greiðslur í ökutækjastyrk vegna 1.140 km aksturs samtals í þágu hinna þriggja fyrrnefndra félagasamtaka.

Með bréfi, dags. 1. júní 1999, krafði skattstjóri kæranda um skýringu á því að hann hefði fært hærri frádrátt á hvern ekinn kílómetra en heimilt væri samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra sem væri 35,78 kr. og í framhaldi af því tilkynnti skattstjóri kæranda hinn 27. júlí 1999 að hann hefði lækkað frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk um 6.269 kr. eða í 40.789 kr. þar sem kærandi hefði ekki svarað fyrirspurn sinni. Var álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1999 hagað í samræmi við það.

Kærandi mótmælti breytingu skattstjóra með kæru, dags. 29. ágúst 1999. Vísaði hann til leiðbeininga aftan á eyðublaði RSK 3.04 þar sem fram kæmi að heimilt væri að hækka fjárhæð frádráttar 35,78 kr. um 5,47 kr. fyrir hvern ekinn kílómetra, sem fengist greitt fyrir samkvæmt „sérstöku gjaldi“. Þar sem allar greiðslur til kæranda hefðu verið á því gjaldi kvaðst hann telja að frádrátturinn ætti að vera 41,25 kr. á hvern kílómetra, eða 47.025 kr.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 1999, krafði skattstjóri kæranda um ökutækjaskýrslu útfyllta eins og form eyðublaðsins RSK 3.04, sem fylgdi bréfinu, segði til um, sbr. skýringar á bakhlið eyðublaðsins. Þá krafði hann kæranda jafnframt um akstursdagbók eða akstursskýrslu til staðfestingar á akstri í þágu launagreiðenda.

Skattstjóri móttók afrit af akstursdagbók kæranda og afrit af ökutækjaskýrslu kæranda hinn 6. desember 1999. Vísaði umboðsmaður kæranda til leiðbeininga á bakhlið eyðublaðsins RSK 3.04 um að aðeins þyrfti að fylla út reiti 1 og 2 á eyðublaðinu ef akstur í þágu launagreiðanda væri 2.000 km eða minni.

Skattstjóri synjaði kröfu kæranda um frádrátt samkvæmt sérstöku gjaldi með kæruúrskurði, dags. 8. desember 1999 á þeim forsendum að þar sem kærandi hefði ekki fyllt út eyðublaðið RSK 3.04 eins og form þess og leiðbeiningar segðu til um væri krafa um hærri frádrátt en 35,78 kr. á hvern ekinn kílómetra í þágu launagreiðanda ekki tekin til greina. Kostnaður umfram þá fjárhæð félli ekki undir frádrátt samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 1. mars 2000. Í kærunni er áréttaður rökstuðningur sem fram kemur í kæru kæranda til skattstjóra, dags. 6. desember 1999.

Með bréfi, dags. 26. maí 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í tilefni af kæru ofangreinds aðila til yfirskattanefndar gerir ríkisskattstjóri þá aðalkröfu f.h. gjaldkrefjenda að felldur verði niður frádráttur á móti ökutækjastyrk þeim sem sem kærandi gerði grein fyrir á skattframtali sínu árið 1999. Verður ekki annað ráðið af kærunni en að um akstur á milli heimilis og fundastaða hafi verið að ræða, en kærandi segir beinlínis að aksturinn hafi ekki komið búrekstri sínum við. Telst slíkur akstur sem lýst er í kæru vera í einkaþágu og er ekki heimild til frádráttar á móti ökutækjastyrk vegna slíks aksturs skv. 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um þetta má m.a. vísa í úrskurð ríkisskattanefndar nr. 550 frá 20. maí 1992.

Verði ekki fallist á aðalkröfu gjaldkrefjenda er farið fram á að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd þar sem kærandi hefur ekki enn hlutast til um að skila eyðublaði RSK 3.04 sem er forsenda þess að hægt sé að taka til skoðunar hvort fallast megi á hærri frádrátt en sem nemur 35,78 kr. á hvern ekinn kílómetra í þágu launagreiðanda.“

III.

Víkur fyrst að þeirri kröfu ríkisskattstjóra að frádráttur kæranda á móti fengnum ökutækjastyrk verði með öllu felldur niður. Líta verður á þessa kröfu ríkisskattstjóra sem kæru á úrskurði skattstjóra, dags. 8. desember 1999, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Kæran er hins vegar komin fram að liðnum kærufresti, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Ber því að vísa kröfu ríkisskattstjóra frá yfirskattanefnd. Rétt er að árétta að skattstjóri hefur ekki gert athugasemdir við þann framtalsmáta kæranda að telja fengnar greiðslur vegna aksturskostnaðar til ökutækjastyrks, þótt í eðli sínu sé í tilviki kæranda frekar um að ræða endurgreiddan ferðakostnað. Verður því ekki breytt með úrskurði þessum.

Með skattframtali kæranda gjaldárið 1999 fylgdi yfirlit um ökutækjastyrk, RSK 3.04, þar sem gerð var grein fyrir 1.140 km akstri í þágu þriggja aðila og samtals 47.058 kr. greiðslu vegna þessa aksturs. Kom fram að kærandi hefði fengið greiðslur samkvæmt kílómetragjaldi, og gerði hann grein fyrir mótteknum greiðslum og eknum kílómetrum á eyðublaðinu en lét vera að fylla eyðublaðið út að öðru leyti, sem kærandi taldi vera í samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra. Forsendur skattstjóra fyrir lækkun frádráttar kæranda á móti fengnum ökutækjastyrk voru þær að hann hefði ekki gert grein fyrir öllum þeim atriðum sem fram ættu að koma samkvæmt umræddu eyðublaði. Þótt ekki komi það fram með skýrum hætti mun skattstjóri telja að svonefnd 2.000 km regla, þar sem aðilum sem fá greitt samkvæmt kílómetagjaldi fyrir 2.000 km akstur eða minna er heimilað að gera einungis grein fyrir akstrinum og mótteknum greiðslum, gildi ekki þegar greitt er samkvæmt kílómetragjaldi sem er hærra en almennt gjald. Hefur ríkisskattstjóri tekið undir þetta í kröfugerð sinni.

Í skattmati ríkisskattstjóra tekjuárið 1998 (framtalsárið 1999), sbr. auglýsingu nr. 31/1999, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, kemur fram í lið 3.1.1 að hafi launþegi fengið greiðslu fyrir afnot af eigin bifreið í þágu launagreiðanda síns þannig að um hafi verið að ræða endurgreiðslu á kostnaði við rekstur hennar og aksturinn verið 2.000 km eða minni sé fallið frá kröfu um sannanlegan ökutækjakostnað. Skilyrði fyrir þessari undantekningarreglu eru m.a. þau að færð hafi verið akstursdagbók eða akstursskýrsla eins og nánar er tilgreint og að kílómetragjald hafi verið greitt í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á árinu 1998. Í skattmati ríkisskattstjóra í staðgreiðslu á árinu 1998, sbr. auglýsingu nr. 16/1999, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, kemur fram í lið 3.2 um mat á kílómetragjaldi innan viðmiðunarmarka að fái aðili greitt kílómetragjald, sem miðast við sérstakt gjald sem ferðakostnaðarnefnd ákveði, megi hækka viðmiðunarfjárhæðir til frádráttar um tilteknar krónutölur. Af þessu verður ekki annað ráðið en að umræddar fjárhæðir sem ríkisskattstjóri hefur ákvarðað í skattmati sínu tekjuárið 1998, sem hámark kostnaðar bæði samkvæmt almennu gjaldi og sérstöku gjaldi, og birt m.a. á eyðublaðinu RSK 3.04, verði að teljast innan viðmiðunarmarka þeirra sem getið er sem forsendu fyrir því að aðilar geti notað nefnda 2.000 km reglu við greinargerð sína um ökutækjastyrk og frádrátt á móti honum. Fær forsenda skattstjóra fyrir höfnun frádráttar kæranda því ekki staðist. Er því fallist á kröfu kæranda um frádrátt að fjárhæð 47.025 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja