Um kærur

Prenta

Hverjir geta kært?

Hver sá aðili, sem kæranleg ákvörðun ríkisskattstjóra, tollstjóra eða sýslumanns beinist að, getur krafist endurskoðunar á henni fyrir yfirskattanefnd. Einnig getur sveitarfélag kært ákvörðun ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar með sama hætti og skattaðili.

Kærufrestur

Kærufrestur til yfirskattanefndar er að jafnaði þrír mánuðir frá póstlagningu ákvörðunar ríkisskattstjóra, tollstjóra eða sýslumanns sem skjóta má til nefndarinnar. Þó er sú undantekning frá þessu að kærufrestur samkvæmt lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (lög nr. 94/1996) er 30 dagar. Kærufrestur vegna ákvörðunar sýslumanns um erfðafjárskatt er 30 dagar frá því að erfingjum berst tilkynning hans um ákvörðunina.

Form og efni kæru

Kæra þarf að uppfylla þessi skilyrði:

  • Kæra skal vera skrifleg og skal henni fylgja frumrit eða endurrit ákvörðunar ríkisskattstjóra, tollstjóra eða sýslumanns sem kæran tekur til.
  • Í kærunni skal koma fram hvaða atriði í ákvörðuninni sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum.
  • Gögn, sem ætluð eru til stuðnings kærunni, skulu fylgja í frumriti eða endurriti.

Ef kæra fullnægir ekki þessum skilyrðum og kærandi bætir ekki úr annmörkum á kæru, þrátt fyrir áskorun yfirskattanefndar, má búast við því að kærunni verði vísað frá.

Réttaráhrif kæru

Kæra til yfirskattanefndar frestar ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Með því er átt við að deila um skattskyldu eða skattfjárhæð, sem skotið er til yfirskattanefndar, frestar hvorki skyldu til greiðslu umkrafins skatts né leyst undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans. Fjármálaráðherra er þó heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að víkja frá þessu.