Senda kæru – Leiðbeiningar

Senda kæru

Til að senda kæru rafrænt er krafist auðkenningar með Íslykli eða rafrænu skilríki.
Umboðsmaður eða fyrirsvarsmaður málsaðila getur einnig sent kæru rafrænt.

Senda kæru eða ný gögn


Til að skoða vistaða kæru skal nota sömu auðkenningu og þegar kæra var vistuð.

Vistuð kæra



Á þessari síðu eru sérstakar leiðbeiningar um það hvernig standa beri að rafrænni kæru til yfirskattanefndar. Hér að neðan er einnig að finna almennar leiðbeiningar um atriði sem þarf að hafa í huga þegar kæra er send nefndinni. Leiðbeiningar um málsmeðferð eftir að kæra hefur borist yfirskattanefnd er að finna hér.


Um rafræna kæru

Um þjónustugáttina

Yfirskattanefnd notar rafræna eyðublaðagátt Origo, en það kerfi er í notkun hjá allmörgum opinberum stofnunum.

Með því að velja „Senda kæru eða ný gögn“ opnast aðgangur að tveimur mismunandi eyðublöðum, sem eru ætluð annars vegar fyrir nýja kæru og hins vegar til að senda viðbótargögn til yfirskattanefndar. Notendur þurfa að skrá sig inn í gáttina með Íslykli eða rafrænu skilríki til að fá aðgang að viðeigandi eyðublaði.

Eftir að erindi hefur verið sent fær notandi kvittun fyrir sendingu sinni.

Með því að velja „Vistuð kæra“ fæst aðgangur að vistuðum eða áður sendum kærum eða öðrum erindum til yfirskattanefndar. Hér þarf notandi að skrá sig inn með sama Íslykli eða rafrænu skilríki og þegar upphaflegt erindi var vistað/sent.

Áður en kæran er send

Áður en rafrænt kærueyðublað er opnað þarf að hafa eftirfarandi tilbúið:

Kæruna
Æskilegt er að semja kæruna áður en kærueyðublað er opnað. Í kærunni skal koma fram hvaða atriði í ákvörðun stjórnvalds sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Mögulegt er að senda kæruna sem fylgiskjal með kærueyðublaði.

Fylgigögn í rafrænu formi
Afrit ákvörðunar stjórnvalds á að fylgja kærunni. Kærandi gæti þurft að fá ákvörðunina senda í rafrænu formi frá stjórnvaldinu eða skanna hana til að láta fylgja kæru. Sama gildir um önnur gögn sem ætluð eru til stuðnings kærunni.

Æskilegt er að tölusetja fylgiskjöl og gefa þeim lýsandi nöfn. Sendið hvert fylgiskjal í heilu lagi.

Yfirskattanefnd tekur við fylgiskjölum í eftirtöldu formi: pdf, doc, docx, xls, xlsx, jpg og png. Hámarksstærð fylgiskjala er samtals 70 MB.

Ef ekki er hægt að senda skjal með rafrænni kæru, t.d. af því að það er of stórt, má senda það með bréfpósti eða afhenda á skrifstofu yfirskattanefndar.

Senda ný gögn

Ef fylgigögn með kæru liggja ekki öll fyrir þegar rafræn kæra er send er hægt að senda þau síðar. Sama er að segja um gögn sem verða til eða koma fram á síðari stigum máls, t.d. ef kærandi vill gera athugasemdir við umsögn stjórnvalds.

Ef kærendur í sama máli eru tveir eða fleiri?

Úrskurður stjórnvalds, sem sætir kæru, kann að varða fleiri en einn aðila, t.d. sameiginlegt atriði í skattframtali hjóna/sambýlisfólks eða erfðafjárskýrslu fleiri en eins erfingja. Í þessum tilvikum er nægilegt að annar/einn málsaðila sendi kæruna. Yfirskattanefnd mun taka kæruna til meðferðar í nafni beggja/allra málsaðila eftir því sem við á.

Má senda kæru með tölvupósti?

Þjónustugátt yfirskattanefndar er ætlað að auka öryggi í rafrænum samskiptum. Yfirskattanefnd tekur þó við kærum sem sendar eru með tölvupósti. Ætíð má senda kæru og önnur gögn til yfirskattanefndar með bréfpósti eða afhenda á skrifstofu nefndarinnar.


Almennar leiðbeiningar

Hver getur kært?

Hver sá aðili, sem kæranleg ákvörðun stjórnvalds beinist að, getur krafist endurskoðunar á henni fyrir yfirskattanefnd (hugtakið stjórnvald er hér notað sem samheiti um þau stjórnvöld sem taka ákvarðanir sem kæranlegar eru til nefndarinnar).

Yfirskattanefnd úrskurðar í kærumálum vegna flestra ákvarðana ríkisskattstjóra og tollstjóra. Einnig eru ákvarðanir sýslumanna um erfðafjárskatt og stimpilgjald kæranlegar til nefndarinnar, svo og tilteknar ákvarðanir nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Málsaðili getur sjálfur sent kæru til yfirskattanefndar í gegnum vefgátt eða bréflega. Einnig getur umboðsmaður málsaðila, t.d. lögmaður eða endurskoðandi, skotið ákvörðun stjórnvalds til yfirskattanefndar í umboði málsaðila.

Form og efni kæru

Kæra til yfirskattanefndar skal vera skrifleg. Rafrænt send kæra telst vera skrifleg. Kæran þarf einnig að uppfylla þessi skilyrði:

1. Kærunni skal fylgja frumrit eða endurrit ákvörðunar (úrskurðar) stjórnvalds sem kæran tekur til.
2. Í kærunni skal koma fram hvaða atriði í ákvörðuninni sæta kæru, þ.e. hvaða kröfur eru gerðar um breytingar á ákvörðuninni, og rökstuðningur fyrir kröfum.
3. Gögn, sem ætluð eru til stuðnings kærunni, skulu fylgja í frumriti eða endurriti. Hér er átt við gögn sem ekki hafa komið fram við meðferð málsins hjá stjórnvaldinu. Stjórnvaldið á að senda yfirskattanefnd öll málsgögn sem það hefur undir höndum. Þau þurfa því ekki að fylgja kærunni.

Ef kæra fullnægir ekki þessum skilyrðum og kærandi bætir ekki úr annmörkum á kæru, þrátt fyrir áskorun yfirskattanefndar, má búast við því að kærunni verði vísað frá.

Kærufrestur

Stjórnvald á að leiðbeina um kæruheimild og kærufrest í ákvörðun sinni. Kærufrestur til yfirskattanefndar er oftast þrír mánuður. Nokkrar undantekningar eru frá því sem þá eiga að koma fram í ákvörðuninni.

Þarf skriflegt umboð til að senda kæru fyrir annan?

Sá sem hefur til þess heimild málsaðila getur sent kæru fyrir hans hönd. Almennt er ekki gerð krafa um að skriflegt umboð fylgi kæru. Yfirskattanefnd gengur út frá því að starfandi lögmenn og atvinnumenn á sviði framtalsgerðar hafi umboð. Í vafatilvikum kann hlutaðeigandi að verða krafinn um skriflega sönnun fyrir umboði.

Réttaráhrif kæru

Kæra til yfirskattanefndar frestar ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Kæra frestar því hvorki skyldu til greiðslu umkrafins skatts né leysir málsaðila undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans. Ráðherra er þó heimilt, ef sérstaklega stendur á, að víkja frá þessu.

Málskostnaður

Ekki er krafist kærugjalds til yfirskattanefndar og málsaðila verður ekki gert að greiða málskostnað fyrir nefndinni. Falli úrskurður málsaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, getur yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði vegna kostnaðar sem málsaðili hefur haft af málinu. Gera þarf kröfu um greiðslu málskostnaðar í kæru og styðja gögnum. Nánar er fjallað um greiðslu málskostnaðar í starfsreglum sem yfirskattanefnd hefur sett sér. Þessar reglur er að finna hér.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja