Málsmeðferð

Eftir að kæra hefur borist yfirskattanefnd aflar nefndin fyrirliggjandi gagna málsins frá því stjórnvaldi sem tók hina kærðu ákvörðun. Að því búnu er tekin afstaða til þess hvort tilefni sé til öflunar frekari gagna eða skýringa. Úrskurður á að liggja fyrir innan sex mánaða frá því að gögn málsins berast nefndinni frá stjórnvaldinu. Hér að neðan er gerð nánari grein fyrir meðferð mála fyrir yfirskattanefnd.

Öflun gagna

Móttaka kæru staðfest

Þegar yfirskattanefnd hefur gengið úr skugga um að kæra fullnægi þeim skilyrðum, sem krafist er í lögum um yfirskattanefnd, er kæranda tilkynnt bréflega um móttöku kærunnar. Í tilkynningunni kemur fram málsnúmer sem kæran hefur fengið. Einnig er gerð grein fyrir því hvort málið hefur verið sent stjórnvaldi til umsagnar eða hvort það verður tekið til afgreiðslu án umsagnar.

Öflun málsgagna og umsagnar frá stjórnvaldi

Í flestum tilvikum er kæra ásamt meðfylgjandi gögnum send því stjórnvaldi, sem tók þá ákvörðun sem kærð er til yfirskattanefndar, til þess að það geti veitt umsögn um kæruna. Stjórnvaldið skal taka saman gögn í máli kæranda og senda yfirskattanefnd. Stjórnvaldið getur á þessu stigi máls aflað viðbótarupplýsinga, ef málavextir gefa tilefni til þess að aflað sé frekari gagna.

Til málsgagna, sem ríkisskattstjóri sendir yfirskattanefnd samkvæmt framansögðu, teljast eftir atvikum skattframtal kæranda og önnur framtalsgögn hans sem varða ágreiningsefnið. Með sama hætti skal tollstjóri afhenda tollskýrslu eða önnur skjöl sem kærandi hefur látið í té vegna innflutnings. Erfðafjárskýrsla er meðal málsgagna sem sýslumaður skal senda nefndinni. Öll bréf, sem gengið hafa á milli kæranda og stjórnvalds í aðdraganda þess að stjórnvaldið kvað upp hinn kærða úrskurð, eru einnig málsgögn. Sama gildir um hvers konar önnur gögn sem kunna að hafa legið fyrir stjórnvaldinu við uppkvaðningu úrskurðar þess og þýðingu hafa. Er hér í öllum tilvikum um að ræða gögn sem kæranda eiga að vera kunn.

Sé málið einfalt úrlausnar og ekki talin þörf á öflun gagna frá stjórnvaldi getur yfirskattanefnd kveðið upp úrskurð um kæruna án þess að leita umsagnar stjórnvalds.

Umsögn stjórnvalds er kynnt kæranda

Almennt er umsögn (kröfugerð) stjórnvalds send kæranda til þess að hann eigi þess kost að tjá sig um efni hennar. Yfirskattanefnd er jafnan heimilt að beina því til kæranda eða stjórnvalds að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar máli til skýringar ef nefndin telur málið ekki nægilega upplýst.


Undirbúningur úrskurðar

Málsmeðferðartími

Þegar yfirskattanefnd hefur borist fullnægjandi kæra skal hún tafarlaust send stjórnvaldi sem tók hina kærðu ákvörðun til gagnaöflunar og framlagningar umsagnar. Frestur stjórnvaldsins til að leggja fram þessi gögn er 45 dagar frá því að kæran barst því.

Yfirskattanefnd skal úrskurða um kæru eins fljótt og auðið er og eigi síðar en sex mánuðum eftir að nefndinni hefur borist fyrrgreind gögn frá stjórnvaldi. Berist málsgögn ekki innan fyrrgreinds frests reiknast sex mánaða fresturinn allt að einu frá lokum frests stjórnvaldsins til að leggja þau gögn fram.

Munnlegur málflutningur

Kærandi getur farið fram á að hann eða umboðsmaður hans flytji mál munnlega fyrir yfirskattanefnd. Þá er stjórnvaldinu, sem í hlut á, heimilt að óska eftir munnlegum málflutningi. Ekki er þó skylt að verða við beiðnum af þessu tagi. Formaður yfirskattanefndar ákveður hvort munnlegur málflutningur fari fram og tilkynnir skattaðila og stjórnvaldinu ákvörðun sína.

Almenn eða sérstök meðferð máls

Venjulega úrskurða þrír nefndarmenn í kærumáli. Sé mál flókið, hefur að geyma vandasöm úrlausnarefni, er sérlega þýðingarmikið eða varðar ágreining um grundvallaratriði í skattarétti eða reikningsskilum er yfirskattanefnd heimilt að ákveða svonefnda sérstaka meðferð máls. Taka þá fimm nefndarmenn þátt í úrlausn máls. Yfirskattanefnd er einnig heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á.


Úrskurður kveðinn upp

Úrskurður sendur málsaðila

Þegar yfirskattanefnd hefur lagt úrskurð á mál er eintak úrskurðar sent kæranda, umboðsmanni hans og viðkomandi stjórnvaldi. Senda má úrskurð í bréfpósti eða rafrænt. Úrskurður er ekki sendur með tölvubréfi nema málsaðili hafi beðið sérstaklega um það.

Gjaldabreytingar

Mismunandi er hvort yfirskattanefnd eða stjórnvaldið framkvæmi gjaldabreytingar sem leiða af niðurstöðu nefndarinnar. Sé gjaldabreyting gerð af stjórnvaldinu skulu þær framkvæmdar að jafnaði innan tíu virkra daga frá því að úrskurður barst. Gjaldabreyting yfirskattanefndar er framkvæmd um svipað leyti og úrskurður er sendur málsaðila.


Í kjölfar úrskurðar

Birting úrskurðar á vef yfirskattanefndar

Yfirskattanefnd ber að birta helstu úrskurði nefndarinnar á vefsíðu sinni, þar á meðal úrskurði sem taldir eru hafa fordæmisgildi. Heimilt er að stytta úrskurði í þessari útgáfu. Úrskurðir eru birtir án persónuauðkenna. Jafnframt er leitast við að fella brott atriði sem kunna að tengja einstaklinga eða lögaðila við efni máls.

Endurupptaka máls

Málsaðili kann að eiga rétt á því að mál hans verði tekið til meðferðar á ný fyrir yfirskattanefnd ef úrskurður hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Beiðni um endurupptöku er skráð sem nýtt mál hjá nefndinni og er málsmeðferð almennt með sama hætti og gerð er grein fyrir hér að framan.

Málskot til dómstóla

Úrskurður yfirskattanefndar er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Honum verður því ekki skotið til annars aðila innan stjórnsýslunnar. Bæði ráðherra og hlutaðeigandi málsaðila er heimilt að bera úrskurð undir dómstóla. Frestur ráðherra til málshöfðunar í tilefni af úrskurði yfirskattanefndar er sex mánuðir.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja