Starfsreglur um ákvörðun málskostnaðar

Starfsreglur um ákvörðun málskostnaðar
samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um yfirskattanefnd


Ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, hljóðar svo:

„Nú fellur úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, og getur yfirskattanefnd þá úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi hann haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Málsaðili skal láta gögn um útlagðan kostnað sinn fylgja kröfugerð. Séu ekki lögð fram fullnægjandi gögn að mati yfirskattanefndar, þrátt fyrir áskorun þess efnis, skal hún hafna kröfu um greiðslu málskostnaðar. Yfirskattanefnd er heimilt að endurskoða þá ákvörðun ef afsakanlegt verður talið að málsaðili hafi ekki bætt úr annmörkum áður en úrskurður var kveðinn upp.“

Við framkvæmd þessa lagaákvæðis styðst yfirskattanefnd við svofelldar starfsreglur:

1. Skattaðili geri kröfu um greiðslu málskostnaðar og rökstyðji hana.

1.1. Málskostnaður verður aðeins ákvarðaður að kröfu skattaðila. Slík krafa getur komið fram á öllum stigum málsmeðferðar fyrir yfirskattanefnd, þ.e. allt fram að því að úrskurður er sendur skattaðila. Kröfu um greiðslu málskostnaðar, sem kemur fram eftir að úrskurður hefur verið felldur í máli skattaðila, verður vísað frá.

1.2. Krafa um málskostnað skal vera rökstudd og studd gögnum, m.a. reikningum fyrir útlögðum kostnaði, svo sem þóknun talsmanns skattaðila, þar sem kemur fram kvittun eða önnur sönnun fyrir greiðslu. Ábending um þetta skal koma fram í bréfi yfirskattanefndar til skattaðila þar sem móttaka kæru er staðfest. Séu ekki lögð fram gögn um útlagðan kostnað, þrátt fyrir þessa ábendingu, verður málskostnaðarkröfu hafnað.

1.3. Hafi málskostnaðarkröfu verið hafnað vegna skorts á gögnum til stuðnings henni, skal yfirskattanefnd taka kröfu skattaðila um greiðslu málskostnaðar til meðferðar að nýju, fari skattaðili fram á það, ef afsakanlegt verður talið að hann hafi ekki brugðist við ábendingu yfirskattanefndar, svo sem vegna veikinda eða fjarveru. Það teljast ekki afsakanlegar ástæður í þessu sambandi hafi talsmaður ekki gert skattaðila reikning fyrir þjónustu sinni áður en úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp eða skattaðili ekki greitt umkrafinn kostnað fyrr en úrskurður lá fyrir.

2. Úrskurður yfirskattanefndar falli skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti.

2.1. Skilyrði fyrir ákvörðun málskostnaðar er að úrskurður yfirskattanefndar falli skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti.

2.2. Úrskurður telst falla skattaðila í hag að öllu leyti ef krafa, sem gerð er í kæru til yfirskattanefndar, er tekin til greina í öllum atriðum, þar á meðal þegar fallist er á gerða aðalkröfu í kæru. Þetta á einnig við þegar kæra beinist aðeins að hluta breytinga sem ríkisskattstjóri hefur gert á skattskilum aðila. Með sama hætti telst úrskurður falla skattaðila í hag að hluta þegar kröfugerð hans nær aðeins fram að ganga um sum en ekki öll kærð atriði. Sama gildir ef ekki er fallist á kröfugerð að öllu leyti, t.d. ef aðalkröfu um ómerkingu kærðs úrskurðar er hafnað en fallist á kröfu um breytingu á úrskurði. Í þessum tilvikum verður málskostnaður að jafnaði ákvarðaður að hluta.

2.3. Úrskurður um sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur skattaðila telst ekki falla skattaðila í hag, þannig að til greiðslu málskostnaðar geti komið, nema sektarkröfu sé hafnað að öllu leyti.

3. Skattaðili hafi haft kostnað af rekstri máls síns sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar þess og ósanngjarnt væri að hann bæri sjálfur.

3.1. Skilyrði fyrir ákvörðun málskostnaðar er að skattaðili hafi haft kostnað af rekstri máls síns sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar þess og ósanngjarnt væri að hann bæri sjálfur.

3.2. Til kostnaðar af rekstri máls verða eingöngu talin útgjöld skattaðila sem hann stofnar til beinlínis vegna meðferðar málsins, t.d. vegna aðkeyptrar þjónustu sérkunnáttumanns (lögmanns, löggilts endurskoðanda eða viðurkennds bókara), nauðsynlegur ferðakostnaður og annar útlagður kostnaður af sama tagi. Óbeinn kostnaður skattaðila vegna máls hans, svo sem vegna vinnutaps eða eigin vinnu við málareksturinn, verður ekki talinn kostnaður af rekstri máls í þessu sambandi.

3.3. Til kostnaðar vegna meðferðar kærumáls telst fyrst og fremst kostnaður við rekstur málsins fyrir yfirskattanefnd, þ.e. vegna ritunar kæru til nefndarinnar og/eða greinargerðar fyrir kæruatriðum, samningar andsvara vegna kröfugerðar ríkisskattstjóra og vegna málflutnings fyrir nefndinni, ef til kemur. Jafnframt skal taka tillit til kostnaðar vegna meðferðar máls hjá ríkisskattstjóra, sem verður tilefni kæru til yfirskattanefndar, svo sem vegna ritunar andmælabréfs, að því leyti sem þar koma fram skýringar eða röksemdir sem þýðingu hafa og ekki eru reifaðar í kæru. Það felst í þessari viðmiðunarreglu að ekki er ákvarðaður málskostnaður vegna endurtekinnar vinnu við útlistun kæruefnis á tveimur stigum málsmeðferðar.

3.4. Kostnaðar sem fellur til við að sinna framtalsgerð og annarri lögboðinni upplýsingagjöf til skattyfirvalda, sbr. m.a. ákvæði IX. kafla laga nr. 90/2003, þar á meðal vegna framborinna beiðna skattyfirvalda samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/2003, verður ekki talinn kostnaður af rekstri máls við ákvörðun málskostnaðar. Sama gildir um kostnað vegna svara við fyrirspurnarbréfum ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 sem ekki fela í sér rökstudda vefengingu á skattskilum, en sé um slíkt að ræða fer um útgjöld vegna skýringa skattaðila eftir lið 3.3.

3.5. Kostnaður skattaðila vegna rannsóknaraðgerða skattrannsóknarstjóra ríkisins telst ekki til kostnaðar við rekstur máls fyrir yfirskattanefnd, þó með sama fororði og að framan greinir. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort aðili hefur nýtt sér rétt sinn til að fá skipaðan talsmann við skattrannsóknina eða ekki.

3.6. Við mat á því hvort eðlilegt hafi verið að skattaðili stofnaði til kostnaðar, sem krafist er endurgreiðslu á, skal jöfnum höndum litið til þess að eðlilegt hlutfall sé á milli kostnaðarins og hagsmuna sem málið varðar og þess hversu flókið mál er um að ræða, bæði frá lögfræðilegu sjónarmiði og samkvæmt reikningshaldslegu eða öðru sérfræðilegu viðmiði. Verður þannig almennt ekki talið eðlilegt að stofnað sé til umtalsverðs kostnaðar vegna tiltölulega einfaldra ágreiningsmála, en flókið mál kann að réttlæta mikla vinnu við kærumál þótt fjárhagslegir hagsmunir séu ekki verulegir. Leggja ber almennan mælikvarða á það hvort mál teljist flókið í þessum skilningi, þannig að réttlæti tilgreint vinnuframlag, en umfangsmikil gagnaöflun eða rökfærsla af hálfu skattaðila umfram tilefni hefur ekki þýðingu í því sambandi.

3.7. Einkum verður talið ósanngjarnt að skattaðili beri sjálfur kostnað af rekstri máls síns ef ríkisskattstjóri hefur gert mistök við skattákvörðun, hvort sem um er að ræða ranga lagatúlkun eða rangt mat á atvikum. Megi á hinn bóginn rekja ástæðu fyrir efnislega rangri ákvörðun ríkisskattstjóra til atriða sem varða skattaðila sjálfan, svo sem ef hann hefur við meðferð máls hjá skattyfirvöldum ekki lagt fram skýringar eða gögn, sem rétt var eða eðlilegt að hann legði fram, verður að líta svo á að ekki sé ósanngjarnt að skattaðili beri sjálfur þann kostnað sem hlýst af meðferð málsins. Sama er að segja um kostnað vegna málatilbúnaðar umfram það sem málsefnið gefur tilefni til, sbr. lið 3.6.

3.8. Almennt verður ekki reiknað með hærri þóknun sérkunnáttumanns (lögmanns, löggilts endurskoðanda eða viðurkennds bókara) en sem nemur u.þ.b. tvöföldu tímakaupi samkvæmt flokki A(1) í viðeigandi reglum um reiknað endurgjald á hverjum tíma, auk virðisaukaskatts. (Dæmi: Flokkur A(1) í reglum fyrir tekjuárið 2014: 1.000.000 / 160 x 2 x 1,255 ≈ 15.700 kr.)

3.9. Við ákvörðun málskostnaðar er rétt að líta til þess ef mörg samkynja mál eru rekin fyrir yfirskattanefnd af hálfu sama sérkunnáttumanns eða í samvinnu sérkunnáttumanna.

4. Tilkynning um greiðslu málskostnaðar.

4.1. Fjársýsla ríkisins greiðir málskostnað, sem ákveðinn hefur verið samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar, inn á bankareikning skattaðila. Nauðsynlegt er að skattaðili sendi Fjársýslunni upplýsingar um banka- og reikningsnúmer, sem tengist kennitölu sinni, til að greiðsla geti átt sér stað. Leiðbeint er um þetta í tilkynningu yfirskattanefndar til skattaðila um uppkvaðningu úrskurðar.

Starfsreglur þessar voru samþykktar á fundi yfirskattanefndar 21. nóvember 2014 og komu til framkvæmda 1. janúar 2015.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja