Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vantaldar tekjur
  • Húsaleigubætur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Rökstuðningur skattstjóra

Úrskurður nr. 324/2000

Gjaldár 1999

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 96. gr., 121. gr.   Lög nr. 45/1987, 1. gr., 9. gr.   Stjórnsýslulög nr. 37/1993, 22. gr. 1. mgr.  

Skattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld kæranda vegna vantalinna tekna, þ.e. húsaleigubóta. Hvorki í boðunarbréfi skattstjóra né úrskurði um endurákvörðun var vísað til þeirra réttarreglna sem ákvörðun skattstjóra var byggð á. Yfirskattanefnd taldi ekki nægilegt tilefni til að ómerkja ákvörðun skattstjóra vegna þessa ágalla þar sem ágallinn hefði hvorki haft áhrif á efni ákvörðunar skattstjóra né leitt til réttarspjalla fyrir kæranda. Samkvæmt því og þar sem álagningin var samkvæmt lögum var kröfu kæranda hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 24. nóvember 1999, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hennar gjaldárið 1999. Vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt launamiða frá Félagsþjónustunni í Reykjavík hefðu kæranda verið greiddar húsaleigubætur að fjárhæð 78.588 kr. á árinu 1998 sem ekki væru færðar á skattframtal hennar árið 1999. Kvað skattstjóri því fyrirhugað að færa kæranda umræddar bætur til tekna á framtali hennar umrætt ár og endurákvarða opinber gjöld hennar til samræmis. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 11. janúar 2000, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd og tók fram að mótmæli við henni hefðu ekki komið fram af hálfu kæranda.

Með kæru, dags. 2. febrúar 2000, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun til yfirskattanefndar. Kæran er svohljóðandi:

„Mér barst bréf frá ykkur þann 11.1.2000. Þar segir að ég hafi ekki mótmælt hækkun þeirri sem lögð var á opinber gjöld mín. Ég skrifaði skattstjóra bréf. En að öllum líkindum hefur það borist of seint. Þar útskýrði ég hvers vegna mér láðist að telja fram bætur þessar. Í fyrsta lagi barst mér ekki neinn launaseðill. Bæturnar renna beint frá félagsþjónustu til félagsþjónustu. Ég hafði engan seðil við framtal. Og í hugsunarleysi þá athugaði ég ekki að ég er þar á milli. Ég kom líka að öðru, þar fer ég vinsamlegast fram á að fá staðgreiðslu þá sem af mér var tekin í Tryggingastofnun endurgreidda. Þetta eru mínar einu tekjur og ég lifi ekki hátt á þeim bótum. Ég er gjörsamlega eignalaus. Og er í þó nokkrum skuldum.“

Með bréfi, dags. 30. mars 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra. Ríkisskattstjóri vill einnig geta þess að hvorki í fórum skattstofunnar í Reykjavík né í fórum ríkisskattstjóra er að finna bréf kæranda til skattstjórans í Reykjavík, sem kærandi vísar til.“

II.

Ekki er ágreiningur um að kæranda voru greiddar húsaleigubætur samkvæmt lögum nr. 138/1997, um húsaleigubætur, að fjárhæð 78.588 kr. á árinu 1998. Er um að ræða skattskyldar tekjur hennar, sbr. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kærandi taldi fram greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins 863.775 kr. og var sú fjárhæð stofn til tekjuskatts og útsvars við álagningu gjaldárið 1999. Skattstjóri hækkaði skattskyldar tekjur kæranda með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 11. janúar 2000, um nefndar húsaleigubætur 78.588 kr. þannig að stofn til tekjuskatts og útsvars varð 942.363 kr. Ekki verður ráðið af kæru að kærandi geri út af fyrir sig athugasemdir við þetta og verður ekki annað séð en álagningin á kæranda sé samkvæmt lögum. Vegna athugasemdar kæranda um endurgreiðslu afdreginnar staðgreiðslu skal tekið fram að staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars er bráðabirgðagreiðsla á tekjuári og að því ári loknu skal fara fram ákvörðun og álagning tekjuskatts og útsvars samkvæmt ákvæðum laga um skatta þessa, sbr. 1. og 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Um það hvernig fara skuli með mismun á álagningu og staðgreiðslu, er fram kemur við álagningu, er fjallað í 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Hefur skattstjóri hagað álagningunni í samræmi við þessi ákvæði og að öðru leyti verður ekki annað séð, eins og fyrr segir, en að hún hafi verið að lögum, þ. á m. tekið tillit til afdreginnar staðgreiðslu kæranda. Þykir þessi athugasemd kæranda því ekki eiga við rök að styðjast.

Þá athugasemd verður að gera við málsmeðferð skattstjóra að hvorki í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 24. nóvember 1999, né úrskurði um endurákvörðun, dags. 11. janúar 2000, er vísað til þeirra réttarreglna sem ákvörðun hans var byggð á. Samkvæmt þessu var ákvörðun skattstjóra ekki rökstudd með fullnægjandi hætti, sbr. 4. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995, um breyting á þeim lögum, þar sem mælt er fyrir um skyldu til samhliða rökstuðnings, og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið er á um efni rökstuðnings og m.a. boðið að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á.

Hafi stjórnvaldsákvörðun ekki verið rökstudd eða rökstuðningur hefur verið haldinn verulegum annmarka leiðir það almennt til þess að íþyngjandi ákvörðun verður talin ógildanleg, enda nást þá venjulega ekki þýðingarmikil markmið, sem að er stefnt með rökstuðningi, svo sem að auðvelda málsaðilum að leggja mat á það hvort efni séu til að nýta frekari úrræði, t.d. kæru til æðra stjórnvalds. Ljóst er að umræddur annmarki á rökstuðningi í máli kæranda hefur ekki haft áhrif á efni ákvörðunarinnar, enda er hún bæði lögmæt og réttmæt. Þá verður ekki séð, eins og sakarefninu og kærunni er háttað, að þessi annmarki á rökstuðningnum hafi leitt til réttarspjalla fyrir kæranda, sbr. þau markmið sem rökstuðningi er ætlað að þjóna, enda liggur m.a. fyrir að kærandi hefur kært ákvörðunina. Samkvæmt þessu og í samræmi við viðtekin viðhorf um áhrif annmarka á gildi stjórnvaldsákvörðunar að þessu leyti þykir ekki nægilegt tilefni til að ómerkja ákvörðun skattstjóra vegna fyrrgreinds ágalla.

Samkvæmt framansögðu er kröfu kæranda hafnað.

Kæran til yfirskattanefndar lýtur öðrum þræði að ívilnun. Að því er varðar ívilnunarþátt málsins skal tekið fram að um ívilnanir í sköttum samkvæmt 66. og 2. mgr. 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 21. og 25. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, fjalla skattstjórar og ríkisskattstjóri og eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórn. Er lögfest sérstök málskotsleið í 2. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981 á ákvörðunum skattstjóra um þessi efni til ríkisskattstjóra sem tekur endanlega ákvörðun í málinu. Samkvæmt þessu falla slíkar ívilnunarbeiðnir, sem hér um ræðir, utan valdsviðs yfirskattanefndar. Ber því að vísa þessum þætti málsins frá yfirskattanefnd. Ekki verður séð að kærandi hafi borið upp við skattstjóra beiðni um ívilnun. Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 2. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981 og reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996, er birtar eru í B-deild Stjórnartíðinda, er skattstjóra framsent erindi kæranda að því leyti sem það varðar ívilnun.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað. Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd að því leyti sem hún varðar ívilnun, og framsend skattstjóra til meðferðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja