Úrskurður yfirskattanefndar
- Fyrning
- Tölvubúnaður
- Kæruheimild ríkisskattstjóra
Úrskurður nr. 348/2000
Gjaldár 1999
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 32. gr., 41. gr. Lög nr. 30/1992, 3. gr. 2. mgr.
Kærandi, sem var sjálfstætt starfandi trésmiður, var ekki talinn hafa sýnt fram á að keypt fartölva væri tilkomin vegna öflunar tekna í atvinnurekstri þannig að tölvan gæti talist fyrnanleg eign. Vísaði yfirskattanefnd í því sambandi til umfangs starfa kæranda við trésmíðar og þarfar slíks rekstrar almennt fyrir tölvu. Var talið að kæranda væri ekki að neinu leyti heimil gjaldfærsla á kaupverði tölvunnar. Þar sem ríkisskattstjóri neytti ekki kæruréttar síns vegna þeirrar ákvörðunar skattstjóra að heimila gjaldfærslu á helmingi kaupverðs tölvunnar var þó ekki hróflað við þeirri gjaldfærslu.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1999 og sætti því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda barst skattstjóra 6. júlí 1999 samkvæmt áritun hans um móttöku þess og var það tekið sem skattkæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Áður en skattstjóri tók kæruna til afgreiðslu reit hann kæranda bréf, dags. 3. nóvember 1999, þar sem skattstjóri óskaði eftir skýringum kæranda á tilgreindum gjaldaliðum í rekstrarreikningi ársins 1998 sem fylgdi framtali kæranda. Skattstjóri óskaði m.a. eftir því að lögð yrðu fram öll gögn vegna gjaldfærðs kostnaðar vegna tölvu að fjárhæð 114.900 kr. og að kærandi færði rök fyrir því að um væri að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981. Kærandi svaraði bréfi skattstjóra með bréfi, dags. 10. nóvember 1999, þar sem fram kom að kærandi notaði umrædda tölvu eingöngu við rekstur sinn þar sem hann ætti aðra tölvu til heimilisnota. Kvaðst kærandi nota tölvuna við útreikning tilboða, uppgjör á virðisaukaskatti og annað sem tengdist rekstrinum og tók fram að hann gæti komið með tölvuna á skattstofu því til staðfestingar. Með kæruúrskurði, dags. 23. nóvember 1999, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda hans gjaldárið 1999 að gerðum breytingum á framtalinu, m.a. þeirri að lækka gjaldfærðan kostnað vegna tölvu um helming, eða úr 114.900 kr. í 57.450 kr. Vísaði skattstjóri til þess að kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn vegna tölvukaupa þrátt fyrir kröfu skattstjóra þar að lútandi. Þá tók skattstjóri fram að kærandi hefði ekki sýnt fram á að tölvukaupin hefðu alfarið verið vegna öflunar tekna í atvinnurekstri og kvaðst þá m.a. líta til lítilla tekna kæranda af atvinnurekstri. Þætti hæfilegt að áætla að tölvan hefði að jöfnu verið keypt vegna atvinnurekstrar og einkanota.
Með kæru, sem móttekin var 14. janúar 2000, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni ítrekar kærandi að tölvukaup hans hafi eingöngu verið til komin vegna rekstrar, enda noti hann tölvuna eingöngu við reksturinn og eigi aðra tölvu til heimilisnota. Varðandi umfang rekstrar tekur kærandi fram að reksturinn sé vaxandi á ári hverju. Þá tekur kærandi fram að erfitt sé að vera með gögn varðandi rekstur í heimilistölvu þar sem slík gögn megi ekki týnast og þurfi alltaf að vera til taks. Þar sem heimilistölvan sé notuð af mörgum eigi hún það til að bila oft af þeim sökum. Kærunni fylgdi ljósrit af reikningi frá Tölvulistanum, dags. 28. ágúst 1998, vegna kaupa á fartölvu.
Með bréfi, dags. 18. febrúar 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein ný gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra. Ríkisskattstjóri vill benda á að tölvu af þeirri tegund sem um ræðir (fartölva) er mjög auðvelt að flytja með sér og nota hvar og hvenær sem er, hvort heldur sem er inni á heimili eða annars staðar. Eru því sterk rök með því að tölvan sé a.m.k. að einhverju leyti nýtt á heimili kæranda.“
II.
Samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er heimilað að draga rekstrarkostnað frá þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, „það er þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við … og það sem varið er til tryggingar og viðhalds eignum þeim sem arð bera í rekstrinum“. Ákvæði þetta er samkvæmt orðalagi sínu heimildarákvæði og er það því undantekning frá þeirri meginreglu að mönnum sé skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, sbr. 1. gr. laganna. Af þessu leiðir að skattaðila ber að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt. Almennur kostnaður vegna heimilis og fjölskyldu og annarra persónulegra þarfa er ekki frádráttarbær.
Kærandi, sem er sjálfstætt starfandi trésmiður, færði til gjalda í skattskilum sínum árið 1999 útgjöld að fjárhæð 114.900 kr. vegna kaupa á fartölvu. Hin umdeilda gjaldfærsla á kaupverði tölvunnar var byggð á 41. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 32. gr. sömu laga um fyrnanlegar eignir. Krefst kærandi þess að gjaldfærsla kaupverðsins verði leyfð að fullu, en skattstjóri byggði á því að tölvan hefði að jöfnu verið keypt vegna atvinnurekstrar og einkanota og leyfði gjaldfærslu á helmingi kaupverðsins. Að virtu umfangi starfsemi kæranda við trésmíðar og þegar litið er til þarfar slíks rekstrar almennt fyrir tölvu verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að umrædd tölva sé tilkomin vegna öflunar tekna í atvinnurekstri þannig að hún geti talist fyrnanleg eign samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981. Verður því ekki talið að kæranda sé að neinu leyti heimil gjaldfærsla á kaupverði tölvunnar samkvæmt 41. gr. sömu laga. Er kröfu kæranda því hafnað.
Eins og málið liggur fyrir og þar sem ríkisskattstjóri neytti ekki kæruréttar síns samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, verður ekki með úrskurði þessum hróflað við þeirri gjaldfærslu sem skattstjóri ákvað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda er hafnað.