Úrskurður yfirskattanefndar
- Fyrning
- Endurbætur á leiguhúsnæði
- Álag vegna síðbúinna framtalsskila
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 415/1998
Gjaldár 1996
Lög nr. 75/1981, 32. gr., 41. gr., 106. gr. 1. mgr. Lög nr. 147/1994, 18. gr. ákvæði til bráðabirgða I
Kærandi gjaldfærði í skattskilum sínum kostnað vegna endurbóta á leiguhúsnæði og byggði á því að samkvæmt leigusamningi yrðu endurbætur á húsnæðinu og innréttingar eign leigusala að leigutíma loknum. Talið var að umræddar endurbætur teldust til varanlegra rekstrarfjármuna í skilningi fyrningarreglna skattalaga þannig að kæranda bæri að eignfæra þær og fyrna, enda teldust þær eign hans og nýttust honum meðan á leigutíma stæði.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi skilaði skattframtali ársins 1996 til skattstjóra hinn 5. júlí 1996 samkvæmt áritun skattstjóra á skattframtalið um móttöku þess og var það tekið sem kæra samkvæmt 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Áður en skattstjóri tók kæruna til afgreiðslu reit hann kæranda bréf, dags. 20. nóvember 1996, og óskaði eftir skýringum kæranda á því í hverju gjaldfærður viðhaldskostnaður að fjárhæð 4.124.616 kr. hefði verið fólginn og að kærandi legði fram fullgild bókhaldsgögn vegna þess kostnaðar. Með bréfi, dags. 22. nóvember 1996, lagði kærandi fram umbeðin gögn.
Þá fór skattstjóri þess á leit með bréfi, dags. 3. desember 1996, að kærandi léti í té sundurliðun á gjaldfærðum kostnaði vegna skrifstofuáhalda og tækja að fjárhæð 1.202.184 kr. og ýmissa verkfæra og áhalda að fjárhæð 1.615.925 kr.
Með kæruúrskurði, dags. 7. janúar 1997, féllst skattstjóri á að leggja skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda 1996 að gerðum tilteknum breytingum. Taldi skattstjóri að útgjöld vegna breytinga á fasteigninni X að fjárhæð 2.731.237 kr. og snjóbræðslukerfis að Z að fjárhæð 255.389 kr. gætu ekki talist til viðhalds heldur væri um að ræða eignaaukningu og skyldi fyrna þær eignir um 4%, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Endurbætur á eign sem keypt hefði verið eða væri orðin úr sér gengin fyrir aldurs sakir, stækkun eða breyting á henni, teldust ekki til viðhalds, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Fyrnanlegar eignir væru varanlegir rekstrarfjármunir sem notaðir væru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi og rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur, sbr. 32. gr. laga nr. 75/1981. Þá taldi skattstjóri að vegna Z ættu 1.039.052 kr. að teljast til innréttinga, sem ekki væri heimilt að gjaldfæra á grundvelli 41. gr. laga nr. 75/1981, en um væri að ræða milliveggi og hurðir að fjárhæð 118.000 kr., endurnýjun á innréttingu á efri hæð að fjárhæð 462.657 kr., breytingu á innréttingu í verslun að fjárhæð 116.000 kr. og innréttingar í verslun samtals að fjárhæð 342.395 kr. Vísaði skattstjóri til þess að innréttingar ætti að fyrna um 15%, sbr. b-lið 4. tölul. 38. gr. laga nr. 75/1981. Þá taldi skattstjóri að líta bæri á kaup á skrifborði, fundarborði, stólum, tölvubúnaði og eftirlitsmyndavélum með tilheyrandi skjám og upptökutæki sem eignasamstæðu sem eignfæra bæri og fyrna samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981. Til skrifstofuáhalda og tækja teldust kaup á eftirlitsmyndavélum, skjám, tölvum, prenturum og „módemi“, samtals að fjárhæð 900.867 kr., sem fyrna ætti að hámarki um 20%, sbr. a-lið 4. tölul. 38. gr. laga nr. 75/1981. Til innréttinga ætti að telja skrifborð, fundarborð og stóla, samtals að fjárhæð 866.607 kr. Taldi skattstjóri að tekjur og eignir kæranda ættu því að hækka vegna endurbóta, innréttinga og skrifstofuáhalda og tækja um 5.207.665 kr. að teknu tilliti til hámarks fyrninga. Þá kom fram í kæruúrskurði skattstjóra að hann hefði ákveðið að nýta sér heimild í 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 og bæta 10% álagi á gjaldstofna kæranda. Taldi skattstjóri að kærandi hefði ekki sýnt fram á að þær ástæður hefðu legið fyrir er leiða ættu til þess að fella bæri niður álag, sbr. 3. mgr. greinarinnar, en kærandi hefði einnig sætt áætlun gjaldstofna gjaldárin 1994 og 1995 vegna síðbúinna framtalsskila.
II.
Umboðsmaður kæranda skaut máli þessu til yfirskattanefndar með kæru, dags. 1. febrúar 1997, sbr. frekari rökstuðning í bréfi, dags. 24. maí 1997. Í kærunni er gerð sú krafa aðallega að úrskurður skattstjóra verði ómerktur og að álagning verði byggð á skattframtali kæranda 1996 óbreyttu. Jafnframt er óskað eftir því að álagning markaðsgjalds og iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds verði leiðrétt til samræmis við gjaldstofna samkvæmt innsendu framtali vegna markaðsgjalds o.fl. Til vara er gerð sú krafa að skattframtal kæranda verði lagt óbreytt til grundvallar og jafnframt að álag verði fellt niður. Fallist yfirskattanefnd ekki á kröfu kæranda um gjaldfærslu þess kostnaðar sem um er deilt í málinu gerir kærandi þá kröfu að honum verði heimilaðar hámarks fyrningar af öllum eignfærslum að viðbættum hámarks flýtifyrningum samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða I í lögum nr. 147/1994.
Krafa kæranda um ómerkingu kæruúrskurðar skattstjóra er á því byggð að málsmeðferð skattstjóra hafi verið andstæð lögum og að andmælaréttur kæranda hafi ekki verið virtur. Er á það bent að fyrrum umboðsmaður kæranda hafi skilað skattframtali hans 5. júlí 1996 eða einum degi eftir að endanlegum fresti til að skila skattframtölum lögaðila lauk hjá skattstjóranum í Reykjavík og hafi skattstjórinn tekið skattframtalið sem kæru. Telur umboðsmaður kæranda að skattstjóri hafi brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með því að gefa kæranda ekki kost á að gæta andmælaréttar síns er hann kvað upp kæruúrskurð sinn. Þá hafi skattstjóra verið óheimilt að beita álagi að teknu tilliti til dráttar á skilum framtalsins yfir lokaskilafrest sem skattstjóri veitti lögaðilum á árinu 1996, sbr. 4. málsl. 106. gr. laga nr. 75/1981. Álagning markaðsgjalds og iðnlána- og iðnaðarmálasjóðsgjalds sé ekki í samræmi við rétt ákvarðaða gjaldstofna til þessara gjalda árið 1996. Til stuðnings varakröfu kæranda er á því byggt að um hafi verið að ræða kostnað sem heimilt sé að gjaldfæra samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er á það bent að samkvæmt efnahagsreikningi kæranda árið 1995 hafi engin fasteign verið í eigu kæranda. Kærandi hafi sundurliðað vegna hvaða fasteigna kostnaðurinn var og í hverju hann var fólginn, auk þess sem á bókhaldsfylgiskjölum hafi verið að finna nánari upplýsingar um þennan kostnað. Í sundurliðun á rekstrarkostnaði komi fram að kærandi greiddi 6.156.000 kr. fyrir húsaleigu á árinu 1995, en kærandi leigi fasteignina Z undir varahlutaverslun, bifreiðaverkstæði, dekkjaverkstæði, lagerhúsnæði og skrifstofuaðstöðu. Jafnframt leigi kærandi hluta af fasteigninni X. Af hálfu kæranda er því haldið fram að allur gjaldfærður viðhaldskostnaður húsnæðis sé tilkominn vegna nauðsynlegs og eðlilegs viðhalds, auk nauðsynlegra endurbóta, sem ekki eru greiddar af leigusala og sem leigutaki getur ekki tekið eða nýtt sér á annan hátt er hann fer úr hinu leigða húsnæði.
Af hálfu kæranda hafa verið gerðar eftirfarandi athugasemdir við einstakar breytingar skattstjóra:
1. Gjaldfærður kostnaður vegna X samtals að fjárhæð 2.731.237 kr. Af hálfu kæranda er á það bent að lagt hafi verið út í kostnað vegna X til að húsnæðið hentaði kæranda betur svo og til að koma að áberandi auglýsingum. Í leigusamningi um eignina komi fram að endurbætur á húsnæðinu, innréttingar og hvers konar viðbætur verði ekki bættar þegar leigutíma ljúki, en leigutaka sé heimilt að taka með sér það sem hann hafi kostað til. Þá komi fram í samningnum að leigutaki skuli annast allt viðhald á hinu leigða húsnæði. Kærandi hafi lagt út í umræddan kostnað í þeim tilgangi að laga húsnæðið að þörfum sínum. Sá kostnaður verði ekki endurgreiddur af leigusala og ljóst sé að kærandi geti ekki tekið með sér það sem hann hafi framkvæmt og sé því mótmælt að kærandi eigi að eignfæra umræddan kostnað og afskrifa. Þar sem fasteignin sé ekki eign kæranda og vegna þess að um óendurkræfar breytingar eða viðhald á eigninni hafi verið að ræða verði að telja þær hluta af leigukjörum og því rekstrarkostnað samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981.
2. Gjaldfærður kostnaður vegna Z samtals að fjárhæð 1.294.441 kr. Af hálfu kæranda er á því byggt að um kostnað vegna snjóbræðslukerfis að fjárhæð 255.389 kr. og innréttinga að fjárhæð 1.039.052 kr. gildi sömu rök og að framan greinir, að teknu tilliti til 5. gr. leigusamnings um fasteignina Z. Þá er á það bent að á árinu 1995 hafi kærandi eignfært innréttingar í þessari fasteign að fjárhæð 1.503.120 kr., sbr. fyrningarskýrslu árið 1994.
3. Gjaldfærður tölvubúnaður, myndavélar o.fl. samtals að fjárhæð 900.867 kr. Er þess krafist af hálfu kæranda að fallist verði á gjaldfærslu að fjárhæð 617.960 kr. að teknu tilliti til notkunar og notkunarstaða tækjanna, svo og þeirrar hámarksfjárhæðar sem fram komi í 41. gr. laga nr. 75/1981. Hins vegar er fallist á eignfærslu eftirlitsmyndavéla, myndbandstækis o.fl. að fjárhæð 282.907 kr. þar sem um sé að ræða búnað sem notaður sé saman í heildareignasamstæðu.
4. Skrifborð, fundarstóll, stólar o.fl. samtals að fjárhæð 866.607 kr. Af hálfu kæranda er fallist á eignfærslu á fundarborði að fjárhæð 144.576 kr. Hvað aðra liði varðar er þess krafist að heimiluð verði gjaldfærsla, sbr. 41. gr. laga nr. 75/1981, en um sé að ræða ýmsa stóla, skrifborðsstóla, fundarstóla, sem notaðir séu víða á starfsstöð kæranda, ýmist fyrir viðskiptavini, starfsmenn og aðra sem heimsækja kæranda, og geti ekki talist eignasamstæða. Sú túlkun leiddi til þess að óheimilt væri að gjaldfæra skrifstofubúnað hverju nafni sem nefndist á grundvelli 41. gr. skattalaga og með sömu rökum væri hægt að líta á allan skrifstofubúnað sem ákveðna eignasamstæðu.
III.
Með bréfi, dags. 3. október 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996 og sætti því áætlun skattstofna af hálfu skattstjóra við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda barst skattstjóra þann 5. júlí 1996. Eins og málið bar að var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hygðist hann gera breytingar á skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða að hluta. Honum bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og sjá til þess samkvæmt almennri rannsóknarskyldu sinni að málið væri nægilega upplýst, væru ákvarðanir teknar sem gerðu það nauðsynlegt. Verður að telja að með bréfum sínum til kæranda, dags. 20. nóvember og 3. desember 1996 hafi skattstjóri einmitt verið að uppfylla þessa rannsóknarskyldu og því verður að telja að engir þeir meinbugir hafi verið á málsmeðferð hans sem leiða eiga til breytinga á ákvörðunum hans.
Í umfjöllun ríkisskattstjóra um efnisatriði kærunnar er fylgt sömu röð og umboðsmaður kæranda gerir í bréfi til yfirskattanefndar, dags. 24. maí 1997.
Gjaldfærður kostnaður við X samtals 2.731.237 kr.
Ekki verður 5. gr. fyrirliggjandi leigusamnings skilin á annan veg en að kærandi sé í raun eigandi þeirra breytinga sem hann gerði á húsnæðinu. Umræddar breytingar hafa augljóslega verið framkvæmdar til að gera húsnæðið hentugra fyrir þá atvinnustarfsemi sem þar hefur verið rekin af hálfu kæranda. Umrædd eign hefur því verið notuð til öflunar tekna í rekstri kæranda og því tekur ríkisskattstjóri undir það með skattstjóra að gjaldfærsla fari fremur eftir fyrningarreglum skattalaga heldur en að þetta sé gjaldfært í einu lagi. Bent er á að í lok samningstímans geta ákvæði 34. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, komið til greina.
Gjaldfærður kostnaður við Z samtals 1.294.441 kr.
Ljóst er að ráðist er í umræddar breytingar vegna þarfa kæranda og atvinnurekstrar hans. Breytingarnar eru í raun hans eign á meðan leigusamningurinn er í gildi. Gjaldandi hefur ekki gert kröfu um að þetta verði gjaldfært á leigutímanum, enda í raun óljóst hver leigutíminn verður, þar sem leigusamningurinn gerir ráð fyrir að hann framlengist um eitt ár í senn ef honum er ekki sagt upp. Ríkisskattstjóri tekur því undir með skattstjóra að með þetta verði að fara eftir fyrningarreglum skattalaga. Bent er á að í lok samningstímans geta ákvæði 34. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, komið til greina.
Gjaldfærður tölvubúnaður, myndavélar o.fl. samtals 900.967 kr.
Ríkisskattstjóri telur að varðandi kaup á tölvubúnaði þá verði að líta á þau heildstætt en ekki að horfa til einstakra eigna. Er því tekið undir með skattstjóra varðandi þetta atriði. Sama þykir og eiga við um kaup á eftirlitsmyndavélum ásamt tilheyrandi skjám og upptökutæki. Þessi búnaður myndar eina heild og því eðlilegast að líta á þetta sem eignasamstæðu. Varðandi skrifborð, fundarborð og stóla þá bendir ríkisskattstjóri á að þau fylgiskjöl sem þar liggja á bak við, dags. 29.12.1996, sýna m.a. kaup á 70 samskonar stólum (Perry stóll, svartur, óbólstraður) auk fleiri tegunda stóla og borða. Með hliðsjón af því hvernig skýra ber ákvæði 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 518 og 584/1996 og 636/1997, þykir ljóst að um kaup á samkynja eignum sé að ræða. Því verður að líta svo á að um eignasamstæðu sé að ræða sem ber að eignfæra og fyrna skv. a-lið 4. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Eftir atvikum þykir mega fallast á kröfu kæranda um hámarks fyrningar af öllum eignfærslum að viðbættum flýtifyrningum skv. ákvæðum til bráðabirgða I í lögum nr. 147/1994.
Gerð er krafa um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur varðandi álagsbeitingu með vísan til röksemda skattstjóra þar um.“
Með bréfi, dags. 25. mars 1998, var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerð ríkisskattstjóra eða leggja fram frekari gögn í málinu. Í bréfi umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 11. apríl 1998, er því mótmælt að skattstjóri hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína eins og ríkisskattstjóri haldi fram. Skattstjóri hafi ekkert gert til að afla nægjanlegra upplýsinga frá kæranda og hann því verið grandalaus um að úrskurður yrði felldur óháð þeirri staðreynd að starfsemin færi fram í leiguhúsnæði. Bendir umboðsmaðurinn á að kröfugerð ríkisskattstjóra verði ekki skilin á annan veg en þann að kærandi gæti sagt núverandi leigusamningi upp, endursamið við leigusala og gjaldfært umþrætta fjárhæð vegna leiguhúsnæðis á grundvelli 34. gr. laga nr. 75/1981. Þessi niðurstaða hljóti að renna stoðum undir það að úrskurður skattstjóra sé ekki réttur og fallast beri á kröfur kæranda að því er þennan þátt varði.
IV.
Um formhlið málsins:
Skattframtal kæranda, sem er einkahlutafélag, barst skattstjóra hinn 5. júlí 1996, samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess, eða eftir að framtalsfresti lauk en áður en álagningu var lokið. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, bar skattstjóra að taka skattframtalið sem kæru hvort sem skattákvörðun var kærð eða ekki. Skattstjóri fór með skattframtalið eftir fyrrgreindum lagafyrirmælum og kvað upp kæruúrskurð hinn 7. janúar 1997. Eins og málið bar að var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981 hygðist hann gera breytingar á skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða hluta. Honum bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu að málið væri nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Áður en skattstjóri kvað upp kæruúrskurð sinn ritaði hann kæranda bréf, dags. 20. nóvember og 3. desember 1996, og fór þess á leit að kærandi legði fram skýringar og gögn vegna þeirra atriða í skattskilum sínum sem skattstjóri taldi þörf á frekari upplýsingum um. Verður því ekki fallist á það með kæranda að skattstjóri hafi ekki farið að lögum við meðferð á skattframali hans. Aðalkröfu kæranda er því hafnað.
Um efnishlið málsins:
1. Gjaldfærður kostnaður vegna X.
Svo sem fram hefur komið féllst skattstjóri ekki á gjaldfærslu 2.731.237 kr. kostnaðar vegna endurbóta á hluta fasteignarinnar að X. Taldi skattstjóri að breytingar á húsnæðinu gætu ekki talist til viðhalds heldur til eignar sem afskrifa ætti um 4%, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Af hálfu kæranda er á því byggt að umrædd fasteign sé ekki eign hans. Í leigusamningi um eignina komi fram að endurbætur á fasteigninni, innréttingar og viðbætur séu eign leigusala og ljóst að kærandi geti ekki tekið með sér það sem hann hefur framkvæmt að leigutíma loknum. Því hafi verið um óendurkræfar breytingar og viðhald á fasteigninni að ræða sem teljast hluti af leigukjörum og því rekstrarkostnaður samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981. Leigusamningur um hluta fasteignarinnar að X liggur fyrir í málinu. Samkvæmt samningnum tók kærandi á leigu hluta af fasteigninni frá 1. janúar 1996 til 10 ára og hefur kærandi eftir það forleigurétt ef húsnæðið verður nýtt á sama hátt að þessum tíma liðnum. Samkvæmt 5. gr. samningsins skulu endurbætur á húsnæðinu, innréttingar og hvers konar viðbætur ekki bættar þegar leigutíma lýkur, en leigutaka er heimilt að taka með sér innréttingar, útihurðir, klæðningu og annað er hann hefur til kostað. Ágreiningur í máli þessu snýst um hvort kæranda sé heimil gjaldfærsla umrædds kostnaðar eða hvort um fyrnanlega eign er að ræða, en ekki er deilt um fjárhæðir í því sambandi.
Samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981 eru fyrnanlegar eignir varanlegir rekstrarfjármunir sem notaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi og rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur. Telja verður að umræddar endurbætur teljist til varanlegra rekstrarfjármuna í skilningi nefndrar lagagreinar. Er ekki unnt að fallast á það með kæranda að það skipti máli í því sambandi að um er að ræða endurbætur á leiguhúsnæði, enda hefur komið fram að kærandi framkvæmdi endurbæturnar til að laga húsnæðið að sínum þörfum og koma þær væntanlega til með að nýtast honum á meðan á leigutíma stendur. Þá kemur skýrt fram í leigusamningi um eignina að allar endurbætur teljist eign kæranda að leigutíma loknum. Af kæru verður ekki annað ráðið en að ákvörðun skattstjóra um fyrningarhlutfall umræddra eigna sé út af fyrir sig ágreiningslaus. Er úrskurður skattstjóra staðfestur að því er þetta kæruatriði varðar.
2. Gjaldfærsla kostnaðar vegna Z.
Skattstjóri féllst ekki á gjaldfærslu kostnaðar vegna endurbóta á fasteigninni Z sem nam 1.039.052 kr. vegna innréttinga og um 255.389 kr. vegna snjóbræðslukerfis, eða samtals um 1.294.441 kr. Um er að ræða kostnað vegna milliveggja, hurða, endurnýjunar á innréttingu á efri hæð fasteignarinnar, breytinga á verslun og innréttinga í verslun kæranda í húsnæðinu. Taldi skattstjóri að framangreindar innréttingar væri ekki heimilt að gjaldfæra samkvæmt 41. gr. laga nr. 75/1981, heldur bæri að eignfæra þær og fyrna að hámarki 15%, sbr. b-lið 4. tölul. 38. gr. laga nr. 75/1981. Af hálfu kæranda hefur ákvörðun skattstjóra verið mótmælt á sömu forsendum og um getur vegna kostnaðar við endurbætur á húsnæðinu við X að teknu tilliti til 5. gr. leigusamnings um fasteignina Z. Samkvæmt þeirri grein leigusamningsins skal leigutaki annast allt viðhald á hinu leigða á sinn kostnað og skulu endurbætur á húsnæðinu, innréttingar og hvers konar viðbætur teljast eign leigusala að leigutíma loknum. Telja verður að umræddar endurbætur teljist til varanlegra rekstrarfjármuna í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi byggir á því að um endurbætur á leiguhúsnæði sé að ræða og að þær verði eign leigusala að leigutíma loknum. Ekki verður talið að það breyti framangreindri niðurstöðu þar sem innréttingarnar teljast eign kæranda og nýtast honum á meðan á leigutíma stendur. Að leigutíma loknum koma hins vegar til álita ákvæði 34. gr. nefndra laga, svo sem ríkisskattstjóri hefur bent á. Kröfu kæranda vegna þessa kæruliðar er hafnað.
3. Gjaldfærður tölvubúnaður, myndavélar o.fl.
4. Gjaldfærsla á skrifborði, fundarstól, stólum o.fl.
[Kröfum kæranda hafnað, sjá úrskurð nr. 636/1997 um hliðstætt ágreiningsmál, birtur í ST 1997:114.]
5. Breytingar á fyrningu.
Fallist er á að kærandi uppfylli skilyrði a-liðar bráðabirgðaákvæðis I um flýtifyrningar í lögum nr. 147/1994 af eignfærslum samkvæmt kæruliðum 1. - 4. hér að framan, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra. Fyrningar til viðbótar þeim fyrningum sem skattstjóri ákvarðaði verða því 585.487 kr. sem skiptist þannig að 109.249 kr. eru vegna breytinga að X, 10.216 kr. vegna snjóbræðslukerfis, 155.858 kr. vegna innréttinga að Z, 180.173 kr. vegna skrifstofuáhalda- og tækja og 129.991 kr. vegna skrifstofuhúsgagna. Bókfært verð umræddra eigna lækkar samsvarandi eða um 585.487 kr. Þá er fallist á kröfu kæranda um hækkun almennra fyrninga af öllum eignfærslum í löglegt hámark, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra. Leiðir þessi breyting til að fyrningar af skrifstofuáhöldum og tækjum hækka um 664.062 kr.
6. Álag o.fl.
Með hliðsjón af síðbúnum fyrri framtalsskilum kæranda verður ekki fallist á niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila skattframtals hans, enda hefur kærandi ekki fært rök að því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað skattskilum í framtalsfresti.
Að því er varðar álagningu markaðsgjalds skal tekið fram að framtal kæranda til markaðsgjalds var lagt óbreytt til grundvallar álagningu gjaldsins að viðbættu 10% álagi, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Kæran er að þessu leyti tilefnislaus.