Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður
  • Nauðungarsala til slita á óskiptri sameign

Úrskurður nr. 468/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 14. gr.   Lög nr. 90/1991  

Kærandi átti fjórðung jarðar í óskiptri sameign. Að kröfu eins sameiganda kæranda fór fram nauðungarala á jörðinni til slita á hinni óskiptu sameign. Kærandi gekk ásamt öðrum inn í boð hæstbjóðanda og efndi skyldur sínar samkvæmt uppboðsskilmálum að fullu. Yfirskattanefnd benti á að samkvæmt þessu hefði kærandi orðið uppboðskaupandi og þar sem hann hefði átt fyrir fjórðung í jörðinni hefðu ráðstafanir þessar í raun leitt til þess að eignarhlutdeild kæranda í hinni óskiptu sameign hefði aukist. Taldi yfirskattanefnd ekki næg efni til að líta svo á að kærandi hefði selt upphaflegan eignarhlut sinn í jörðinni, þ.e. fjórðung í hinni óskiptu sameign, þannig að honum bæri að reikna söluhagnað, svo sem skattstjóri hafði byggt á. Var því fallist á kröfu kæranda í málinu.

I.

Með kæru, dags. 10. september 1997, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra frá 18. ágúst 1997 um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1996. Kæruefnið er ákvörðun skattstjóra um skattlagningu söluhagnaðar vegna sölu á eignarhluta kæranda í jörðinni X. Krefst kærandi þess að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi þar sem söluhagnaður hafi ekki verið fyrir hendi.

Málavextir eru þeir að kærandi átti jörðina X ásamt þremur systkinum sínum í óskiptri sameign. Jörð þessi var í eyði. Þann 1. júní 1995 var jörðin seld nauðungarsölu til slita á óskiptri sameign, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Með greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02), er fylgdi skattframtali kæranda árið 1996, gerði kærandi grein fyrir kaupum á hluta jarðarinnar á 600.000 kr. Kvaðst hann hafa keypt jörðina á opinberu uppboði ásamt tveimur öðrum kaupendum. Hefði hann þannig aukið eignarhlut sinn úr 25% í 40% eignarhluta.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 1997, fór skattstjóri fram á að kærandi gerði grein fyrir söluhagnaði af ofangreindri jörð. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 3. mars 1997, og kvaðst ekki geta reiknað út söluhagnað þar sem hann hefði í raun ekki selt sinn eignarhlut heldur keypt aukinn hlut. Með bréfi kæranda fylgdi afsal frá Sýslumanninum í Stykkishólmi, dags. 24. júlí 1995, þar sem fram kemur að við nauðungarsölu á fasteigninni X, þinglýstri eign A, B, D og E, sem fram hafi farið á uppboði er lokið var þann 1. júní 1995, hafi hæstbjóðandi verið F, með boð að fjárhæð 4.000.000 kr. Hann hafi síðan framselt boð sitt A 2/5 hluta, E 2/5 hluta og G 1/5 hluta. Þeir hafi efnt skyldur samkvæmt uppboðsskilmálum og séu því samkvæmt afsalinu lýstir réttir og löglegir eigendur jarðarinnar. Jafnframt benti kærandi á að samkvæmt 3. mgr. 39. gr. nauðungarsölulaga væri boð ekki samþykkt og tekið gilt fyrr en staðið hefði verið við uppboðsskilmála. Ítrekaði kærandi að 25% eignarhlutur hans í jörðinni hefði aldrei farið úr eigu hans.

Skattstjóri boðaði endurákvörðun opinberra gjalda kæranda með bréfi, dags. 2. apríl 1997. Í bréfi skattstjóra kom fram að nauðungarsala jarðarinnar X til F væri bindandi sölugerningur á meðan honum væri ekki rift. Í skattalegum skilningi væri um að ræða sölu á 25% eignarhluta kæranda og væri yfirtaka hans og meðeigenda framhalds- eða endursala eignarinnar. Vísaði skattstjóri í þessu sambandi til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 16. október 1995. Tilkynnti skattstjóri að þar sem ekki hefði verið gerð grein fyrir útreikningi söluhagnaðarins væri fyrirhugað að ákvarða hann helming af söluverði eignarhluta kæranda, eða 500.000 kr., sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981. Fyrirhugað væri að hækka tekjur kæranda sem því næmi.

Kærandi mótmælti fyrirhuguðum breytingum skattstjóra með bréfi, dags. 10. apríl 1997. Kvaðst kærandi, ásamt öðrum, hafa fengið F til að bjóða í jörðina fyrir þeirra hönd. Eftir að F hefði verið slegin eignin hefði hann þegar framselt boð sitt þeim, enda hefði verið um málamyndagerning að ræða. F hefði aldrei eignast jörðina í raun og hefðu þeir efnt skyldur samkvæmt uppboðsskilmálum. Hefði kærandi því aldrei látið af hendi sinn hlut við sölu jarðarinnar. Ekki væri um að ræða söluhagnað vegna sölu til sín sjálfs.

Með úrskurði skattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda, dags. 18. ágúst 1997, var ekki fallist á sjónarmið kæranda. Taldi skattstjóri að um bindandi sölugerning til F hefði verið að ræða þar sem honum hefði ekki verið rift og í skattalegum skilningi væri um að ræða sölu á 25% eignarhluta kæranda. Ekki skipti máli í því sambandi þótt að í raun hefði verið um að ræða málamyndagerning eins og kærandi héldi fram í bréfi sínu. Gilti salan gagnvart kæranda jafnt sem um aðra fyrri eigendur jarðarinnar. Kaup kæranda á 40% hluta jarðarinnar af F væri sjálfstæður gerningur. Vísaði skattstjóri jafnframt til ofangreinds bréfs ríkisskattstjóra, dags. 16. október 1995, til stuðnings ákvörðun sinni.

Í kæru til yfirskattanefndar leggur kærandi áherslu á að boð F á uppboðinu hafi verið gert að hans undirlagi og í því skyni að forða leiðindum við uppboðið. Um málamyndagerning hafi verið að ræða, enda hafi F ekki orðið bundinn við boðið fyrr en með greiðslu samkvæmt uppboðsskilmálum. Þar sem kærandi hafi gengið inn í kaupin og efnt skyldur samkvæmt því sé ekki um söluhagnað til hans að ræða.

Með bréfi, dags. 6. febrúar 1998, krefst ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda staðfestingar á úrskurði skattstjóra, dags. 18. ágúst 1997.

II.

Eins og fram hefur komið átti kærandi fjórðung jarðarinnar X í óskiptri sameign. Nauðungarsala fór fram á eigninni 1. júní 1995, sbr. lög nr. 90/1991, um nauðungarsölu, að kröfu eins sameigenda kæranda að jörðinni, til slita á hinni óskiptu sameign, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga þessara verður ákvæðum laganna beitt, þegar svo stendur á, eftir því sem við á. Kærandi gekk ásamt öðrum inn í boð hæstbjóðanda að 40% og efndi skyldur sínar samkvæmt uppboðsskilmálum að fullu, sbr. afsal sýslumanns, dags. 24. júlí 1995, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991. Samkvæmt þessu varð kærandi uppboðskaupandi. Þar sem kærandi átti fyrir fjórðung í jörðinni leiddu ráðstafanir þessar í raun til þess eins að eignarhlutdeild kæranda í hinni óskiptu sameign jókst um 15% og varð 40%. Þegar þau atvik eru virt, sem hér hafa verið rakin, þykja ekki næg efni til að líta svo á að kærandi hafi selt upphaflegan eignarhlut sinn í jörðinni, þ.e. fjórðung í hinni óskiptu sameign, þannig að honum beri að reikna söluhagnað samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/1981. Samkvæmt þessu er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja