Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sköttun hjóna
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 536/1998

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 96. gr. 4. mgr. (brl. 145/1995, 16. gr.)  

Sama dag og ríkisskattstjóri tók opinber gjöld B gjaldárin 1992-1996 til endurákvörðunar tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda, fyrrverandi maka B, um breytingar á álagningu opinberra gjalda hennar gjaldárið 1992 sem leiddu af breytingum ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum B. Yfirskattanefnd felldi endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum kæranda úr gildi með því að ríkisskattstjóri hefði ekki gefið kæranda kost á að tjá sig um hinar fyrirhuguðu breytingar á framtali hennar.

I.

Málavextir eru þeir að með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 31. desember 1997, voru áður álögð opinber gjöld B, fyrrum eiginmanns kæranda, gjaldárin 1992 til 1996 tekin til ákvörðunar að nýju. Var tilefni endurákvörðunarinnar rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum B umrædd ár vegna atvinnurekstrar hans. Með úrskurði ríkisskattstjóra voru m.a. gerðar þær breytingar vegna gjaldársins 1992 að tekjuskattsstofn B var hækkaður um 1.892.795 kr. Sama dag tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að vegna úrskurðar um endurákvörðun opinberra gjalda B væru þær breytingar gerðar á álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1992 að vaxtabætur og barnabótaauki hennar féllu niður. Kom fram að breytingarnar væru eingöngu tilkomnar vegna fyrrgreindra breytinga sem gerðar hefðu verið á tekjuskattsstofni B.

Kærandi hefur skotið úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 25. janúar 1998, og krafist þess að breytingum ríkisskattstjóra verði hnekkt. Kærandi bendir á að í byrjun árs 1992 hafi hún og B slitið samvistir. Hinn 27. júlí 1992 hafi hjónin skilið að borði og sæng. Kærandi gerir grein fyrir högum sínum og tekur m.a. fram að hún hafi aldrei fengið peninga frá eiginmanni sínum fyrrverandi og hafi hún aðeins fengið greitt meðlag vegna eins af börnum þeirra frá Innheimtustofnun sveitarfélaga. Á meðan á hjúskap kæranda og B hafi staðið hafi B ávallt séð um framtalsgerð eða fengið endurskoðanda til þess að sjá um hana. Komi endurákvörðun ríkisskattstjóra sem reiðarslag fyrir kæranda og fer hún fram á að breytingin verði felld niður.

Með bréfi, dags. 22. maí 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Ríkisskattstjóri telur að í raun verði að líta á kæruna til yfirskattanefndar sem beiðni um ívilnun þar sem ekki er að finna nein efnisleg rök fyrir því að ákvörðun ríkisskattstjóra hafi ekki verið lögum samkvæmt. Beiðni um ívilnun á hins vegar ekki undir yfirskattanefnd.“

II.

Á árinu 1991 voru kærandi og B í hjúskap og skiluðu þau sameiginlegu skattframtali gjaldárið 1992. Vegna hækkunar á tekjuskattsstofni B gjaldárið 1992 með ofangreindum úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 31. desember 1997, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda sama dag sérstaklega um breytingar sem gerðar væru á áður álögðum opinberum gjöldum hennar það ár og leiddu af fyrrnefndri breytingu á tekjuskattstofni B. Í bréfi sínu leiðbeindi ríkisskattstjóri kæranda um kærurétt til yfirskattanefndar og hefur augljóslega litið á ákvörðun sína sem úrskurð um endurákvörðun í skilningi 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995. Kærandi og B skildu að borði og sæng á árinu 1992 og lögskilnaði 1994. Af málsgögnum verður ekki ráðið að ríkisskattstjóri hafi áður en hann tók áður álögð opinber gjöld kæranda til endurákvörðunar af fyrrgreindum ástæðum gefið kæranda kost á að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sem rétt hefði verið þegar litið er til eðlis ákvörðunar ríkisskattstjóra og þess sem fyrir liggur um hjúskaparslit kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar. Að þessu athuguðu þykir bera að fella hina kærðu endurákvörðun á opinberum gjöldum kæranda úr gildi.

Tekið skal fram að breyting barnabótaauka samkvæmt meðfylgjandi breytingablaði miðast við tilkynningu ríkisskattstjóra til innheimtumanns, dags. 3. febrúar 1998.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja