Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattaleg heimilisfesti
- Valdmörk stjórnvalda
Úrskurður nr. 546/1998
Gjaldár 1997
Lög nr. 75/1981, 1. gr. 2. mgr., 70. gr. 2. mgr.
Kærandi, sem dvaldist að hluta erlendis á árinu 1996 sem „au pair“, var með skráð lögheimili hér á landi allt árið. Við álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1997 byggði skattstjóri á því að hún hefði aðeins verið heimilisföst hér á landi hluta ársins 1996 og hagaði álagningu á hana í samræmi við það. Yfirskattanefnd taldi að álagningarmeðferð skattstjóra hefði verið andstæð lögum þar sem ekki hefði legið fyrir úrskurður ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti kæranda í samræmi við framangreint viðhorf skattstjóra. Var krafa kæranda í málinu tekin til greina.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi taldi fram til tekna í reit 21 í skattframtali sínu árið 1997 launatekjur hér á landi 620.494 kr. Í athugasemdadálki í skattframtalinu kom fram að kærandi hefði dvalist í Bandaríkjunum frá júlí 1995 til júlí 1996. Við álagningu opinberra gjalda árið 1997 var byggt á því að kærandi bæri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar voru opinber gjöld gjaldárið 1997 lögð á kæranda miðað við 184 dvalardaga hér á landi á árinu 1996. Með kæru, dags. 24. ágúst 1997, krafðist umboðsmaður kæranda þess að álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1997 yrðu felld niður. Væri álagningin ekki í neinu samræmi við skattframtal kæranda og ekki væri hægt að sjá af álagningarseðli hver álagningarstofninn hefði verið.
Með kæruúrskurði, dags. 22. september 1997, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 1997 hefði tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda verið 597.293 kr. Álagning hefði verið reiknuð út frá þeirri fjárhæð en með skertum persónuafslætti í samræmi við upplýsingar í skattframtali um dvöl kæranda í Bandaríkjunum frá júlí 1995 til júlí 1996. Hefði verið reiknað með dvalartíma á Íslandi í 184 daga árið 1996. Forsenda þess að unnt yrði að verða við beiðni um endurákvörðun eða breytingu á álagningu kæranda 1997 væri að fyrir lægju upplýsingar um tekjur og/eða skattgreiðslur kæranda í Bandaríkjunum árið 1996. Ekkert slíkt lægi fyrir og yrði því að hafna kröfum kæranda.
Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 13. október 1997. Greinir kærandi frá því að hún hafi frá 5. júlí 1995 til 18. júlí 1996 dvalist í Bandaríkjunum sem „Au Pair“. Í úrskurði skattstjóra hafi komið fram að ekki hafi legið fyrir upplýsingar um hvað kærandi hafi verið að gera í Bandaríkjunum, né um tekjur er hún hafi haft og ekki hafi verið unnt að endurskoða úrskurðinn nema þessar upplýsingar lægju fyrir. Upplýsir kærandi að hún hafi fengið greidda vasapeninga 100 bandaríkjadali á viku, eða sem svaraði til u.þ.b. 6.800 kr. Leggur kærandi fram með kærunni staðfestingu á þessu frá samtökunum „au pair in America“, dags. 10. október 1997, en kærandi hafi farið út á vegum þeirra samtaka. Þá upplýsir kærandi að hún hafi ekki greitt skatta af greiðslum þeim sem hún fékk í Bandaríkjunum vegna samninga við Bandaríkjastjórn.
Með bréfi, dags. 28. nóvember 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
II.
Kærandi var með skráð lögheimili hér á landi allt árið 1996, en eins og fram kom í athugasemdadálki í skattframtali hennar og kæru til yfirskattanefndar dvaldist kærandi í Bandaríkjunum frá 5. júlí 1995 til 18. júlí 1996.
Samkvæmt því sem að framan greinir verður að telja að kærandi hafi haft skattalega heimilisfesti hér á landi allt árið 1996, enda liggur ekki fyrir úrskurður ríkisskattstjóra um aðra tilhögun að þessu leyti, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981. Allt að einu byggði skattstjóri á því að kærandi hefði aðeins verið heimilisföst hér á landi hluta ársins 1996, þ.e. bersýnilega síðari helming þess, og beitti í raun ákvæðum 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981. Virðist skattstjóri hafa gripið til þessarar álagningarmeðferðar þar sem upplýsingar um tekjur kæranda og skattgreiðslur í Bandaríkjunum lágu ekki fyrir, sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 22. september 1997. Þessi meðferð skattstjóra var andstæð lögum. Meðan ekki lá fyrir úrskurður ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti kæranda í samræmi við viðhorf skattstjóra varð ekki hjá því komist að skattstjóri byggði á því að kærandi hefði verið heimilisföst hér á landi allt árið 1996 og hagaði álagningu í samræmi við það, að teknu tilliti til tekna kæranda í Bandaríkjunum, sbr. og ákvæði gildandi tvísköttunarsamnings, enda bar skattstjóra að sjá til þess að þessi þáttur skattskilanna yrði upplýstur. Að því virtu sem hér hefur verið rakið voru þeir annmarkar á hinni kærðu álagningu að ekki verður hjá því komist að ómerkja ákvörðun skattstjóra. Rétt þykir að svo stöddu að haga álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1997 í samræmi við kröfu hennar, þ.e. á grundvelli fyrirliggjandi skattframtals og miðað við skattalega heimilisfesti hér á landi allt árið 1996.